Höfundur Skora dauðann á hólm með opinskárri umræðu, segir Björn Þorláksson, hér í Fossvogskirkjugarði.
Höfundur Skora dauðann á hólm með opinskárri umræðu, segir Björn Þorláksson, hér í Fossvogskirkjugarði. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Við vöðum í gegnum lífið, vitandi að dagarnir vinna á okkur, við vitum hvert stefnir. En neitum samt kannski að horfast í augu við hið óhjákvæmilega eins lengi og kostur er. Flóttinn frá dauðanum kann því að vera heftandi viðhorf,“ segir Björn Þorláksson rithöfundur og blaðamaður

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Við vöðum í gegnum lífið, vitandi að dagarnir vinna á okkur, við vitum hvert stefnir. En neitum samt kannski að horfast í augu við hið óhjákvæmilega eins lengi og kostur er. Flóttinn frá dauðanum kann því að vera heftandi viðhorf,“ segir Björn Þorláksson rithöfundur og blaðamaður.

Dauðinn er ný bók eftir Björn sem forlagið Tindur gefur út. Nærri fjögur ár eru síðan höfundurinn fór að draga að sér efni og setja saman texta í bókina sem er 272 blaðsíður og skipt í fjóra kafla. Áður hefur Björn skrifað fjölmargar bækur, svo sem um persónulega reynslu og skáldsögur. Bókin Dauðinn er annars eðlis. Raunar segist höfundurinn aldrei hafa gefið sér jafn langan tíma í bókarskrif.

Virðing fyrir hugrökku fólki

„Hér verður maður að vanda sig, þú kastar ekki til hendinni í svona vinnu,“ segir Björn. „Ég hef líka notið þeirrar gæfu að læra margt á þessu ferli. Samandregin reynsla af þessu er að kannski getum við vandað okkur betur að lifa ef við erum meðvituð um dauðann í stað þess að flýja hann. Þeir sem vilja hafa dauðann í friði eiga fullan rétt á því. Bókin imprar á ýmsum spurningum en svarar þeim þó með einhlítum hætti. Ég reyni að skrifa bókina af auðmýkt og sannarlega mikilli virðingu fyrir hugrökku fólki sem stígur fram og segir sínar sögur.“

Vegna bókarskrifanna ræddi höfundurinn við tugi karla og kvenna. Til þeirra er vitnað í bókinni, þó sumra aðeins óbeint. Þarna nefnir Björn nokkuð sem hann kallar „fagfólk í dauðanum“, til dæmis fólk í heilbrigðisstéttum, presta og fleira. Einkum lagði hann sig þó eftir því að ræða við fólk sem hefur fengið óvænt og krefjandi verkefni í fangið. Þar komi til sögunnar bæði fólk sem fær vitneskju um að það deyi fyrir aldur fram og svo það sem á um sárt að binda vegna dauða annarra.

„Ég er eins og flest annað fólk, ótímabær og skyndilegur dauði lamar okkur. Enginn getur búið sig undir sorgina sem fylgir því að missa það sem okkur er kærast, að ekki sé minnst á sjálfa framtíðina, að missa hana? En það eru til ýmsar leiðir til að halda áfram og halda rónni, vaxa jafnvel. Leiðir sem sumir kannski átta sig ekki á. Svo eru líka tilvik þar sem ekkert gott getur sprottið upp úr missi. En ég vona að bókin reynist gagnleg. Sjálfur hugsa ég alla vega með öðrum hætti nú en áður en þessi vegferð hófst.“

Hringrásin óendanlega

Björn minnist úr æsku sinni í Mývatnssveit að þar hafi dauðinn hvarvetna verið nálægur. Lífið kviknaði á vorin með sauðburði og þegar ís tók af vatninu svo að hægt var að stunda þar veiðar. Svo mætti halda áfram; framvinda tilverunnar blasti við augum barnsins alla daga. Líf kviknar og deyr. Hringrásin óendanlega.

„Furðu stutt er síðan spurningin um að lifa eða deyja snerist mest um kalóríur eða kulda. Ég ólst upp í sveit, 300 metra hæð yfir sjávarmáli, í harðri en líka gjöfulli sveit. Ég reyni svolítið að tengja saman tímana tvenna, lífsháskinn er ekki horfinn úr lífi samtíma Íslendinga, en hann hefur fundið sér nýjan farveg,“ segir Björn og heldur áfram:

„Lífshættuna þekki ég vel á eigin skinni og kannski horfir fólk sem hefur lent í lífshættu bæði líf og dauða öðrum augum en hinir sem sleppa betur. En ég hef alltaf verið ástfanginn af lífinu og þakka fyrir hvern dag sem mér er gefinn. Já, svo segir mér jafnvel fólkið sem var deyjandi þegar ég ræddi við það. Sýnir manni að undur mannsandans eiga sér engin takmörk.“

Viðkvæmt efni, pukur og einmanaleiki

Um bókina segir Björn að efnið sé viðkvæmt og hve margir forðist að ræða dauðann geti stundum leitt til pukurs og einmanaleika. Hins vegar hafi öll þau sem hann setti sig í samband við augljóslega mikla þörf fyrir að ræða dauðann og tímamót sem höfðu orðið eða voru fram undan.

„Mín heitasta ósk er að fólk sem les Dauðann fái hjálplegar leiðbeiningar. Við vitum oft ekkert hvað við eigum að gera eða gera ekki, segja eða segja ekki ef einhver deyr. Bókin greiðir vonandi úr mörgum svoleiðis flækjum. Uppleggið var ólíkt milli viðtala, því fólk er ólíkt. Ég var því ekki með fastan viðtalsramma heldur reyndi ég að tefla fram mennskunni og byggði á flæðinu þegar orðin fóru að streyma. En ég grét oft; stundum þegar ég ætlaði slíkt alls ekki.“

Pælingar og stórar spurningar

Og svo komum við að hinni óendanlega stóru spurningu; hvað gerist þegar við deyjum? Því segist Björn Þorláksson ekki geta svarað; allar pælingar á þeim nótum muni aldrei skila niðurstöðu.

„Mér fannst varða meiru að skrifa um dauðann efnislega og þann hluta sem sannarlega er til af okkur áður en við kveðjum jarðlífið. Vegna þess að dauðinn er öllum stundum í huga okkar. Hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki, þá getur verið gott að stinga honum ekki undir stól heldur skora hann á hólm með opinskárri umræðu.“

Lifum, finnum, missum, söknum og deyjum

Um óvissan tíma Hallgríms

„Vissan um dauðann nagar okkur. Dauðinn kemur. Hann kemur og skilur okkur í sundur. Það er ömurlegt. Um dauðans óvissan tíma hefur verið sungið í aldir hér á landi, síðan Hallgrímur tók þannig til orða. Hann tekur okkur. Hann tekur líka alla hina. Hann tekur allt fólkið sem við elskum. Fyrr eða síðar, stundum í öfugri röð, þegar náttúrulögmálið rofnar. Á sama tíma er líf án ástar ekkert líf. Þannig að verkefnið að lifa er ekki einfalt. Sorgin fylgir ástinni, við lifum, finnum, missum, söknum og deyjum.“

– Björn Þorláksson, úr formála bókarinnar Dauðinn.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson