Slökkvistarf Margt var æft og þekkingu miðlað á mikilvægri æfingunni.
Slökkvistarf Margt var æft og þekkingu miðlað á mikilvægri æfingunni. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Flugvél með 19 manns innanborðs brotlenti utan brautar á Aðaldalsflugvelli sl. laugardag, en áður höfðu flugmenn vélarinnar tilkynnt um bilun í vökvakerfi og urðu því að nauðlenda

Flugvél með 19 manns innanborðs brotlenti utan brautar á Aðaldalsflugvelli sl. laugardag, en áður höfðu flugmenn vélarinnar tilkynnt um bilun í vökvakerfi og urðu því að nauðlenda. Mikill viðbúnaður var vegna þessa og fjölmennt björgunarlið kom á staðinn til þess að huga að og sinna slösuðum.

Framangreint var sviðsmyndin sem unnið var eftir á flugslysaæfingu sl. laugardag. Aðaldalsflugvöllur er skammt utan við Húsavík og reglum samkvæmt þarf að æfa allan viðbúnað þar á minnst fimm ára fresti, eins og á öðrum völlum þangað sem er reglulegt áætlunarflug. Isavia stendur fyrir æfingum sem þessum en almannavarnir og lögregla í héraði, björgunarsveitir og fleiri koma að málum

„Æfingar sem þessar eru mjög lærdómsríkar,“ segir Hreiðar Hreiðarsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Húsavík. Viðbragðsáætlanir vegna flugslysa eru tiltækar fyrir flugvelli og þykja mjög þýðingarmiklar. Eftir þeim væri starfað í raunverulegum aðstæðum, segir Hreiðar. Á æfingum miðlar fólk af þekkingu sinni, hver á sínu sviði, vinnubrögð þjálfast og milli fólks skapast tengsl sem skiptir miklu máli. sbs@mbl.is