Anna Margrét Ögmundsdóttir fæddist í Reykjavík 20. júní 1944. Hún lést 16. september 2023 á krabbameinsdeild LSH við Hringbraut.

Foreldrar Önnu Margrétar voru Ögmundur Jóhann Guðmundsson, f. 1916, d. 1998, yfirtollvörður í Reykjavík, og Halldóra Pálmarsdóttir, f. 1920, d. 1992, húsfreyja, búsett í Reykjavík. Bræður Önnu Margrétar eru þeir Guðmundur Pálmar, f. 1943, d. 2020, maki Þórunn Blöndal, Ágúst, f. 1946, maki Elínborg Kristjánsdóttir, Jóhann Gunnar, f. 1950, maki Ingibjörg Jónsdóttir, Lárus, f. 1951, d. 2018, maki Hildigunnur Sigurðardóttir, og Sverrir, f. 1955, maki Ásbjörg Magnúsdóttir.

Anna Margrét giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Ófeigi Geirmundssyni, f. 1943, vélstjóra þann 2. október 1965. Foreldrar Ófeigs voru Geirmundur Sigurðsson, f. 1918, d. 2005, rennismíðameistari frá Eyrarbakka, og Anna Fanney Ófeigsdóttir, f. 1920, d. 2021, húsmóðir á Nesvegi 68 í Reykjavík.

Ófeigur og Anna Margrét bjuggu sitt heimili í Fossvogi, lengst af í Logalandi 11, en frá árinu 2005 í Skógarseli 41 í Breiðholti.

Börn Önnu Margrétar og Ófeigs eru: 1) Þórir, f. 1966, giftur Sigurbjörgu Björgúlfsdóttur, f. 1970, og búsettur á Hrafntóftum við Ytri Rangá. Þau eiga Úlfhéðin, f. 2007. Dætur Sigurbjargar frá fyrra hjónabandi eru Álfheiður, f. 2000, og Ásrún, f. 2002. Synir Þóris og Margrétar Magnúsdóttur, f. 1967, d. 2008, eru Oddur Þór, f. 1996, d. 2018, og Sindri Dagur, f. 1999. Sara, f. 2004, er dóttir Þóris og Hrundar Erlu Guðmundsdóttur, f. 1975, búsett á Egilsstöðum. 2) Jóhann, f. 1971, giftur Ólöfu Rós Káradóttur, f. 1971, búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru þrjú: Berglind Brá, f. 1994, Halldóra, f. 2002, og Ófeigur Kári, f. 2004. 3) Haukur, f. 1973, er kvæntur Guðrúnu Svövu Hjartardóttur, f. 1972. Þau eru búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru Eyþór Daði, f. 1997, Atli Fannar, f. 2001, og Hafdís Anna, f. 2006. 4) Fanney, f. 1977, er gift Hauki Björnssyni, f. 1976, og eiga þau þrjú börn: Hildi, f. 2001, Bjarka, f. 2006, og Söndru, f. 2008. Heimili þeirra er í Garðabæ. 5) Anna Dóra, f. 1979, og sambýlismaður hennar Þorbjörn Sigurðsson, f. 1979, búa ásamt börnum sínum Auði Önnu, f. 2009, og Ófeigi Orra, f. 2017, á Seltjarnarnesi.

Anna Margrét ólst upp í stórum og samhentum systkinahópi í Reykjavík. Á yngri árum stundaði hún fimleika hjá Ármanni og tók þátt í fjölmörgum viðburðum og sýningum tengdum íþróttinni. Anna var alla tíð mikill náttúruunnandi og naut mjög ferðalaga og samverustunda með eiginmanni sínum og fjölskyldu í sumarhúsi þeirra í Hestlandi við Hvítá. Anna Margrét lærði til hárgreiðslumeistara og hárskera og fékkst við iðn sína framan af starfsævinni. Hún var heimavinnandi meðan börnin uxu úr grasi, en starfaði síðar við almenn skrifstofustörf í heildsölu, við bókhald í fjölskyldufyrirtækinu Vélaröst og sem móttökuritari hjá Samskipum.

Útför Önnu Margrétar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 2. október 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það þurfti ekki mikla viðkynningu til að átta sig á að Anna Magga tengdamóðir mín var sterk kona en þegar við kynntumst fyrir tæpum tveimur áratugum hafði hún nýlega sigrast á krabbameini og lét engan bilbug á sér finna. Það var einnig snemma augljóst að fjölskylda Önnu Möggu var þungamiðja lífs hennar og það breyttist aldrei. Stórfjölskyldan var henni auðvitað kær en stærsta verkefnið og áhugamál var ávallt velfarnaður barna og barnabarna þeirra Ófeigs.

Anna Magga ólst upp í foreldrahúsum í Reykjavík ásamt fimm bræðrum sínum þar sem án efa hefur verið glatt á hjalla. Barnalán Önnu Möggu og Offa var af svipaðri stærðargráðu og ekki hefur fjörið verið minna á heimili þeirra. Anna Magga hélt stórt heimili, lengst af að Logalandi 11 í Fossvogi, þar sem stjórnun og rekstur var á hennar herðum samkvæmt hefðbundinni verkaskiptingu hjóna þess tíma. Það segir sitt um mannkosti Önnu Möggu að börnin í hverfinu voru aufúsugestir og eiga æskuvinir barna hennar góðar minningar í raun frá félagsheimili hverfisins í Logalandinu og tala þau öll hlýlega um Önnu Möggu.

Hún var brosmild, hlý, umhyggjusöm og umburðarlynd en ef henni þótti tilefni til gat hún verið hreinskiptin og sagt hlutina beint út. Hún tók til varna fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar þurfti og hallmælti hvers kyns áhættuhegðun fjölskyldumeðlima (sem þó var auðvitað ein birtingarmynd umhyggju fyrir sínu fólki). Ég og Anna Magga deildum þannig áhugaleysi á flugeldum (viss áhættuhegðun) og það verður einmanalegt að eiga ekki lengur Hauk í horni innandyra á gamlárskvöldum á meðan mesta sprengjuregnið gengur yfir. Í mestu flugeldalátunum gátum við skálað saman í öruggu skjóli og spjallað um börnin, matseld og tónlistarbrölt mitt þar sem hún fylgdist alltaf vel með og var minn helsti bandamaður. Þegar ég lít til baka er ljóst að hún var einn minn tryggasti og mikilvægasti vinur.

Samband Önnu Möggu og Offa var fallegt og traust. Þau voru samhent og samtaka í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur. Fyrri part hjúskapsins var farið nær vikulega í útilegur og gönguferðir með krakkana í sérútbúnum langferðabílum. Seinna meir dvöldu þau iðulega lungann úr árinu í Hestlandi í Grímsnesi þar sem þau reistu sér sumarbústaðinn Kvist nánast með eigin höndum. Þar ræktaði Anna Magga kryddjurtir og kartöflur, stundaði golf með Offa og vinum þeirra úr golfklúbbi Kiðjabergs, sá til þess að engu barnabarni yrði kalt, brast í skátasöng við öll möguleg og ómöguleg tilefni, bölvaði hrossagauk sem vandi komur sínar og þarfir á veröndina, hafði eftirlit með meintu vangrilluðu kjöti og henti í ómótstæðileg túnfisk- og rækjusalöt.

Í Kvisti sköpuðu Anna Magga og Offi sér og fjölskyldu sinni dásamlegan sælureit. Þar tók Anna Magga alltaf brosandi og fagnandi á móti gestum eins og í Logalandinu forðum. Það er sárt að hugsa til þess að eiga ekki lengur hlýjar móttökur Önnu Möggu vísar þar.

Ég þakka af öllu hjarta samfylgd góðrar konu, blessuð sé minning hennar.

Þorbjörn Sigurðsson.

Elsku systir og mágkona. Anna Margrét Ögmundsdóttir, eða Anna Magga eins og hún var alltaf kölluð, hefur kvatt okkur.

Þegar við setjumst niður og hugsum til Önnu Möggu koma margar minningar upp í hugann, sameiginlegt öllum okkar minningum er hvað þær eru ljúfar og skemmtilegar.

Á okkar yngri árum var Anna Magga systir mér góð fyrirmynd. Hún og Offi voru frábært fimleikafólk sem varð til þess að ég fór að stunda fimleika. Þess má geta í framhaldi að hún stundaði líkamsrækt allt fram undir það síðasta.

Við höfum á seinni árum ferðast mikið með Önnu Möggu og Offa, þá sérstaklega í golfferðir. Alltaf var skemmtilegra ef Anna Magga og Offi voru með þar sem hún var hrókur alls fagnaðar, með sína gleði og jákvæðni fyrir öllum hlutum og gerði oft létt grín að sjálfri sér.

Anna Magga var algjör töffari, kvartaði aldrei og tók því sem að höndum bar með æðruleysi. Við vorum sannfærð um að hún mundi vinna þennan slag eins og aðra en því miður fór sem fór.

Hennar verður sárt saknað.

Elsku Offi og fjölskylda, ykkar missir er mikill, megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Hvíl í friði, elsku systir og mágkona.

Kærleikskveðja,

Jóhann og Ingibjörg.

Mín góða svilkona og vinkona Anna Magga er farin í sumarlandið og komið er að kveðjustund í þessu jarðlífi.

Það er nærri hálf öld síðan okkar kynni hófust á Nesvegi 68, heimili tengdaforeldra okkar.

Þó 15 ár væru á milli okkar og þeirra bræðra, Offa og Hauks, þá urðu tengslin fljótt sterk og vináttan mikil alla tíð. Minningarnar um skemmtilegar samverustundir, eins og ættarmótin og jólaböllin, svo fátt eitt sé nefnt.

Anna Magga var góður kokkur og kom ávallt með mat fyrir allt sitt fólk, sem og annað góðgæti á sameiginlegt borð, og alltaf var beðið eftir Cheerios-kökunni góðu frá henni á jólaböllum stórfjölskyldunnar. Dugnaðarforkur sem hún var.

Við Ingi bróðir vorum heppin að fá að njóta hennar starfskrafta um árabil, hún var alltaf jákvæð, hrein og bein.

Fyrir rétt tæpu ári vorum við saman í golfferð á Spáni, spiluðum golf, tókum lagið og áttum frábæra daga saman. Það áttu að vera fleiri svona samverustundir.

Að eiga góðar minningar um samveru með góðu og skemmtilegu fólki er ómetanlegt, ég mun sakna hennar mikið. Votta Offa og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð.

Guðrún B.
Vilhjálmsdóttir.

Þegar ég sá Önnu Möggu fyrst var hún í himinbláum siffonkjól. Flott máluð um augun og ljósa hárið fallega greitt. Mér fannst hún eins og álfamær. Hún var 16 ára og á leið á ball. Ég var 15 og kærasta Palla, eldri bróður hennar. Kannski var þetta í fyrsta skipti sem ég kom í „félagsmiðstöðina“ í Stangarholti – heimili þeirra systkina og fjögurra yngri bræðra. Þar var stöðugur straumur af fólki, vinkonuhópur í kringum Önnu Möggu og strákarnir með halarófuna á eftir sér. Það voru bara 11 mánuðir á milli Palla og Önnu Möggu og þau því jafn gömul í einn mánuð á ári. Það fannst þeim alltaf skemmtilegt. Anna Magga var fimleikastelpa, nett, vel byggð og liðug. Ekki löngu eftir bláa siffonkjólinn var Ófeigur mættur á svæðið, flottur ungur fimleikastrákur, og saman héldu þau á vit framtíðar sem var þeim gjöful. Fimm dásamleg börn færði hún þeim sem öll komust til manns og rúmlega það. Það er því stór og glæsilegur hópur sem horfir nú hnípinn á eftir lífsförunaut, mömmu, ömmu og tengdamömmu. Það hefur kvarnast illilega úr þessum stóra systkinahópi úr Stangarholtinu. Þrjú systkin hafa fallið í valinn á fimm árum. Þeirra er sárt saknað. Anna Magga var miðpunkturinn i öllum partíum og þau verða ekki söm án hennar. Ekkert verður eins án Önnu Möggu. Hún var kjarninn í hópnum. Blessuð veri minning hennar.

Þórunn Blöndal.

Með sorg í hjarta kveðjum við Önnu Möggu vinkonu til rúmlega 60 ára.

Hún Anna var með stærsta hjarta sem um getur, hún hafði innbyggða leiðtogahæfileika enda sá hún um allt fyrir saumaklúbbinn Símalandi. Saumaklúbburinn fór í þrjár utanlandsferðir saman, við byrjuðum á Dublin þar sem við fórum ekki bara í búðir heldur líka í skoðunarferð og Anna sá alltaf um að við værum ekki með Colgate-bragðið í munninum of lengi. Við fórum líka tvisvar til Spánar saman.

Hún var yfirstrumpan okkar, hún sá um fjármál saumaklúbbsins, fann út hvenær best væri að hittast og sá um hvenær við færum í skemmtilegu sumarbústaðaferðirnar okkar. Smellin og kát var hún og sá um að við hefðum þar sérstök þemu þar sem við gjarnan lékum okkur í hinum ýmsu búningum og alltaf sló Anna Magga í gegn með tískusýningum sem eru alveg ógleymanlegar. Hún var með matarlistann á hreinu fyrir þessar ferðir okkar og sá gjarnan um að kaupa inn. Ef klúbburinn fór út að borða saman þá var það Anna sem sá um stað og stund og pantaði borð. Hún sá um afmælisgjafir fyrir okkur.

Fyrir rúmlega 20 árum veiktist Anna Magga af alvarlegum sjúkdómi sem hún vann vel á enda hafði hún hann Offa sinn sér við hlið. Hún náði fullri heilsu og að sjálfsögðu hélt hún áfram að sjá um saumaklúbbinn. Hún átti stóra fjölskyldu en samt hafði hún alltaf tíma fyrir okkur og fyrir það erum við óendanlega þakklátar.
Og nú er hún horfin á vit hins óþekkta, elskulega og hjartahlýja yfirstrumpan okkar, og við stöndum hnípnar eftir. Hver og ein á líka sínar minningar um fimleikana, ferðalögin, yrkingarnar fyrir fimmtugsafmælin og ekki síst sönginn og gleðina og gæskuna.

Allar sem ein lútum við nú höfði og þökkum fyrir lífið með Önnu Möggu. Vertu kært kvödd, elsku Anna Magga.
Okkar innilegustu samúðarkveðjur til Offa og fjölskyldunnar.

Anna Sigríður (Anna Sigga), Bryndís, Unnur, Guðrún (Gunna), Hrafnhildur (Habbý), Hrefna, Sigríður (Sigga) og Svanborg (Labba).