Eik fasteignafélag hf. og Reitir fasteignafélag hf. hafa hætt viðræðum um mögulegan samruna fasteignafélaganna tveggja.
Þetta kom fram í tilkynningu frá Eik síðdegis í gær en eins og greint hefur verið frá hafa samræður á milli félaganna um mögulegan samruna staðið yfir síðan í lok júní. Eru því aðeins tveir möguleikar eftir fyrir Eik en það er að taka yfirtökutilboði Regins eða að Eik haldi áfram að starfa ein og sér.
Ítrekað er í tilkynningu Eikar að stjórnin muni áfram leitast við að auka veg hluthafa sinna, halda samtalinu áfram og kanna aðra möguleika til að efla félagið til hlítar. Stjórnin hyggst birta viðbót við greinargerð sína vegna breytinga á valfrjálsu tilboði Regins hf. í allt hlutafé Eikar í síðasta lagi viku áður en gildistími tilboðsins rennur út.