Blönduós Hringvegurinn þverar byggðarlagið og umferðin sem fer í gegn skapar umsvif í samfélaginu. Í því liggja hagsmunir heimafólks sem einnig spyr, segir sveitarstjórinn, um forgangsröðun þá sem gildir í samgöngumálum.
Blönduós Hringvegurinn þverar byggðarlagið og umferðin sem fer í gegn skapar umsvif í samfélaginu. Í því liggja hagsmunir heimafólks sem einnig spyr, segir sveitarstjórinn, um forgangsröðun þá sem gildir í samgöngumálum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Málið snýst í raun ekki um að Blönduós gæti ekki lifað af ef þjóðvegurinn yrði færður með Húnavallaleið,“ segir Pétur Arason, sveitarstjóri í Húnabyggð. „Þessi umræða er mjög sérstök þegar samgöngumál eru skoðuð heildstætt og brýn byggðar- og öryggismál er varða samgöngur á landinu öllu eru greind. Umræður um nýjan veg sem þennan komast sennilega aldrei af hugmyndastigi ef tekið er mið af þeim samgöngubótum sem nauðsynlegar eru um land allt. Kostnaðurinn við framkvæmdir yrði mikill og ávinningurinn óljós.“

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Málið snýst í raun ekki um að Blönduós gæti ekki lifað af ef þjóðvegurinn yrði færður með Húnavallaleið,“ segir Pétur Arason, sveitarstjóri í Húnabyggð. „Þessi umræða er mjög sérstök þegar samgöngumál eru skoðuð heildstætt og brýn byggðar- og öryggismál er varða samgöngur á landinu öllu eru greind. Umræður um nýjan veg sem þennan komast sennilega aldrei af hugmyndastigi ef tekið er mið af þeim samgöngubótum sem nauðsynlegar eru um land allt. Kostnaðurinn við framkvæmdir yrði mikill og ávinningurinn óljós.“

Styttir hringveg talsvert

Enn og aftur er rætt um svonefnda Húnavallaleið; gerð alls 14 kílómetra langs vegar frá Giljá í Þingi sunnan við Blönduós og þar yfir hæðir og ása og brú yfir Blöndu fyrir miðjum Langadal. Þetta gæti stytt hringveginn um Húnabyggð um 17 kílómetra en jafnframt færi Blönduós úr þeirri alfaraleið sem nú er.

Á dögunum vakti Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, athygli á í grein á akureyri.net að í nýrri samgönguáætlun 2024-2038, sem fyrir liggur, sé ekki minnst á Húnavallaleið. Þetta segir þingmaðurinn miður, vill bæta úr og boðar þingsályktunartillögu um málið. Hefur jafnframt sagt að framkvæmd þessi gæti borgað sig upp á fáum árum og jafnframt aukið umferðaröryggi til muna.

Yrði dýru verði keypt

Í Húnabyggð og víðar virðist vera andstaða við hugmyndir um Húnavallaleið. Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra harmar í nýlegri ályktun umræðuna sem nú er tekin. Segir mikilvægt að þjóðvegur fari áfram í gegnum þéttbýlisstaði og stytting sú sem boðuð er þjóni engum. Allt vegakerfið á Íslandi þarfnist mikilla endurbóta. Undir þessi sjónarmið tekur byggðarráð Húnabyggðar sem bókaði um málið fyrr í mánuðinum.

Pétur Arason segist gera miklar athugasemdir við þá staðhæfingu að Húnavallaleið sé hagkvæmt verkefni. Vissulega sé með þessu hægt að stytta þjóðveginn um 17 km sem er þá tíu mínútna ávinningur miðað við að bílstjórar aki á 90 km/klst. hraða.

„Þetta væri dýru verð keypt. Öryggi yrði ekki bætt nema síður sé þar sem miklir vindstrengir væru á fyrirhuguðu vegstæði og Langidalur að mestu ennþá hluti af leiðinni. Þá er ónefnt rask á viðkvæmri náttúru sem væri óhjákvæmilegt. Ef það á að skoða hagkvæmni slíkra lausna þarf að reikna öll áhrif með. Við megum varla við meira raski við laxveiðiárnar, sem svo miklu skila til samfélagsins hér,“ segir sveitarstjórinn og heldur áfram:

„Þessar hugmyndir eru ekki inni á samgönguáætlun og eftir því sem ég skil er enginn stjórnmálaflokkur, ráðherrar né þingmenn kjördæmisins að fjalla um þetta mál. Þá eru flest hagsmunasamtök sem tengjast svæðinu búin að álykta gegn þessari hugmynd. Ég er nokkuð viss um að fólk á Norðurlandi eystra hefur sterkari skoðun á samgöngubótum á sínu svæði en þessu hugarfóstri þingmanns þeirra.“

Kjalvegur verði bættur

Nýlega birtist á vef Húnabyggðar umsögn sú sem Pétur sveitarstjóri ritaði um fyrirliggjandi samgönguáætlun og sendi stjórnvöldum. Þar er fagnað að til standi að byggja upp Kjalveg, en jafnframt er lýst furðu á að framkvæmdir verði eingöngu á suðurhluta leiðarinnar. Bæta þurfi veginn úr báðum áttum. Heildstæð uppbygging á Kjalvegi henti vel sem einkaframkvæmd fjármögnuð með veggjöldum. Þessi hálendisvegur í núverandi ástandi beri raunar ekki álag sem fylgja myndi framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á virkjunarsvæði Blönduvirkjunar. Þarna ættu Vegagerðin og orkufyrirtæki að bæta úr með sameiginlegu átaki, að mati Péturs, sem segir að lokum í samtali við Morgunblaðið:

„Á meðan fólk hér í Húnabyggð ekur daglega á malarvegum til að sinna erindum veltir það fyrir sér forgangsröðun þingmanna. Við í Húnabyggð greinum engan stuðning við hugmyndir um Húnavallaleið. Víða um land býr fólk sem þarf í daglegu lífi að ferðast um hættulega vegi milli byggðarlaga. Jarðgöng á Vestfjörðum og á Austurlandi ættu að vera í forgangi. Í vanfjármögnuðu samgöngukerfi á Íslandi er ekkert pláss í mínum huga fyrir verkefni á borð við Húnavallaleiðina.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson