Peningar Auðvelt er að safna skuldum sem ætla svo engan enda að taka, segir Heiðrún Jónsdóttir í viðtalinu.
Peningar Auðvelt er að safna skuldum sem ætla svo engan enda að taka, segir Heiðrún Jónsdóttir í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Þekking á fjármálum er mikilvæg undirstaða þegar ungt fólk fer út í lífið og til þátttöku í samfélagi sem verður sífellt flóknara. Öll viljum við að börnum séu sköpuð jöfn tækifæri í grunnskólum, sem í starfi sínu þurfa að taka mið af…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þekking á fjármálum er mikilvæg undirstaða þegar ungt fólk fer út í lífið og til þátttöku í samfélagi sem verður sífellt flóknara. Öll viljum við að börnum séu sköpuð jöfn tækifæri í grunnskólum, sem í starfi sínu þurfa að taka mið af veruleika og þörfum samtímans með starfsháttum sínum og kennsluefni,“ segir Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF).

Ungt fólk vildi meiri þekkingu um fjármál

Árið 2015 settu SFF á fót verkefnið Fjármálavit og tveimur árum síðar komu Landssamtök lífeyrissjóðanna inn í verkefnið sem Kristín Lúðvíksdóttir stýrir. Betra fjármálalæsi ungs fólks er sérstakt áherslumál á vettvangi SFF. Á slíku segir Heiðrún að sé þörf og bendir í því sambandi á nýlega könnun þar sem 90% aðspurðra, það er fólk 18-30 ára, sögðust hefðu viljað fá meiri kennslu í fjármálalæsi á grunnskólaárum sínum. Allur gangur er þó á því hvort og hve ítarleg fræðsla á þessu sviði býðst.

Í könnun sem SFF gerðu 2021, þar sem svör bárust frá 45 skólum, fengu nemendur í efstu bekkjum þessara skóla einhverja kennslu um fjármál. Oftast er efnið þá kennt sem hluti af stærðfræði, stundum í samfélagsfræði og einhverjum tilvikum sem valgrein. Um hvort fjármálalæsi er kennt og þá hvernig kennslu þess er háttað í öðrum skólum er ekki vitað.

Efnið fari í aðalnámskrá

Fyrir liggur bókin Fyrstu skref í fjármálum eftir Gunnar Baldvinsson viðskiptafræðing. Þar er á einföldu máli fjallað um grunnatriði fjármála og hefur bókin fengið góða umsögn. Um 17.000 eintök af bókinni hafa SFF keypt af forleggjaranum og dreift til kennara og nemenda í grunn- og framhaldsskóla.

„Við styðjum þau sem miðla þessu efni. Við förum ekki sjálf inn í skólana enda eru kennarar og skólastjórnendur sjálfstæðir í störfum sínum. Við eigum frábært samstarf við þau sem þess óska. Við höfum aftur á móti áhyggjur af nemendum í skólum þar sem þessi mikilvæga fræðsla er ekki á dagskrá. Slíkt gæti í einhverjum tilvikum verið í skólahverfum þar sem óttast má að fjárhags- og félagslegt bakland barna mætti vera betra. Einnig má spyrja sig hvernig nýir Íslendingar, fólk af erlendum uppruna, þekki til þessara mála hér á landi.“

Með því að fjármálafræðsla sé ekki í skyldunámi grunnskólans er hugsanlegt, segir Heiðrún, að úr greipum gangi gullið tækifæri til að jafna tækifæri allra barna. Hugsanlega sé verið að setja stóran hóp í meiri hættu á fátækragildu en ella, einfaldlega með því að fræða hann ekki um fjármál. Þessu verði að breyta og því hafi fulltrúar SFF lagt þunga áherslu á að fjármálalæsi verði sett í aðalnámskrá grunnskóla, sem nú er verið að endurskoða. Til þess að hamra á mikilvægi málsins hafi fulltrúar samtakanna meðal annars fundað með fulltrúum Menntamálastofnunar og Ásmundi Einari Daðasyni menntamálaráðherra og fleirum. Sjónarmiðum SFF hefur þar verið sýndur skilningur, að sögn Heiðrúnar, en engin afdráttarlaus svör liggja fyrir.

Kynntist því ung hvernig kaupin á eyrinni gerast

En hvaða efni á að kenna í skóla og hvað eiga foreldrar að kenna? Slíkt segir Heiðrún vissulega álitamál; sumt væri til dæmis ekki á hennar færi að fræða sín börn um en annað sé henni opið. Komi þar kannski að einhverju leyti til uppruni hennar, að hafa verið ung í sveit og til sjós og því snemma kynnst atvinnulífinu og því hvernig eitt leiði af öðru í kaupum á eyrinni og skapi verðmæti.

„Já, ég gæti kennt fjármálalæsi; hvernig lesa skal á launaseðla, túlka kjarasamninga og slíkt. Einnig farið yfir hvernig á að fylla út skattaskýrslu og fjallað um mikilvægi varlegrar skuldsetningar, sparnaðar og svo mætti áfram telja. Í sömu viku og dóttir mín varð 18 ára settist ég niður og stofnaði aðgang í heimabanka, stofnaði séreignarsparnað hennar í frjálsum lífeyrissjóði og óskaði henni til hamingju með 2% framtíðarlaunahækkunina á allar tekjur. Slíkt tekur tíu mínútur með rafrænum skilríkjum. Og þarna undirstrika ég mikilvægi þess að börn standi jafnfætis þegar kemur að öryggi í fjármálum og nauðsyn þess að byggja upp traustan fjárhag. Ég þekki til barna, eins og við öll, sem eiga erfitt bakland. Ekki að foreldrar elski ekki börnin sín, reyni ekki allt sitt besta, en sum eru þess hreinlega ekki umkomin að geta veitt börnunum sínum þessa fræðslu. Þarna verður að gera betur með starfi skólanna.“

Sakleysislegur yfirdráttur

Fjármálalæsi í grunnskólum verður sem námsgrein að vera vel skilgreint og kennt samræmt. „Við hleypum börnum okkar ekki út í umferðina fyrr en þau þekkja reglurnar sem þar gilda. Við hleypum ekki börnum út í flókinn heim fjármála án undirstöðuþekkingar í fjármálalæsi. Eftir grunnskóla eiga framhaldsskólar að taka við og kenna áframhaldandi fjármálalæsi,“ segir Heiðrún og að lokum:

„Við þekkjum, sum af eigin reynslu en í það minnsta öll af frásögnum í kringum okkur, hversu auðvelt það er að misstíga sig í fjármálum. Hve auðvelt er að safna skuldum, kannski bara sakleysislegum yfirdrætti, sem ætlar svo engan enda að taka að greiða upp. Hvernig það getur verið nánast ógerlegt að vinna sig út úr skuldum sem í byrjun virðast smávægilegar en fara svo í veldisvöxt, ef þannig má að orði komast. Þar þarf ekki börn til; þetta er staða sem allir geta lent í. Einmitt þess vegna er þekking í fjármálalæsi svo mikilvæg og þýðingarmikið að skólarnir sinni þessum málum.“

Hver er hún?

Heiðrún Jónsdóttir er fædd árið 1969, var lögmaður í áraraðir og hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, sinnt framkvæmdastjórn, verið upplýsingafulltrúi og starfsmannastjóri.

Heiðrún útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1995. Hún fékk lögmannsréttindi 1996 og löggildingu í verðbréfamiðlun 2006. Stundaði nám við IESE Business School í Barcelona 2016-2017. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra SFF á síðasta ári.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson