Fjölskyldan Kristján Bjarnar, Ólafur, Herdís Ágústa Eggertsdóttir, Davíð Steinþór og Edda Borg komu að undirbúningi tónleikanna.
Fjölskyldan Kristján Bjarnar, Ólafur, Herdís Ágústa Eggertsdóttir, Davíð Steinþór og Edda Borg komu að undirbúningi tónleikanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsta upplag nótnabókarinnar Bjórkvöld vina með sjö lögum Ólafs Kristjánssonar ásamt geisladiski seldist upp á útgáfutónleikum í þéttsetnum sal Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, í Reykjavík í liðinni viku

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbi.is

Fyrsta upplag nótnabókarinnar Bjórkvöld vina með sjö lögum Ólafs Kristjánssonar ásamt geisladiski seldist upp á útgáfutónleikum í þéttsetnum sal Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, í Reykjavík í liðinni viku. „Það var mikið klappað og ég má vera ánægður, kominn á þennan aldur,“ segir Ólafur, sem verður 88 ára í desember.

Ólafi er margt til lista lagt. Hann var í hreppsnefnd Hólshrepps 1966-1974, forseti bæjarstjórnar í Bolungarvík 1974-1987 og síðan bæjarstjóri í 16 ár auk þess sem hann var annar varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum 1987-1991. Hann útskrifaðist sem málarameistari 1960 og tónmenntakennari 1962. Áður en hann sneri sér að stjórnmálum starfaði hann sem málari og vann einnig fyrir sér sem hljóðfæraleikari á dansleikjum, en hann stofnaði Tónlistarskóla Bolungarvíkur og var þar skólastjóri 1964-1987.

Gott veganesti

Ólafur hefur sagt að tónlist og málaraiðn sameini fólk og séu því hverjum stjórnmálamanni gott veganesti. Hann segir að þó hann sé orðinn valtur á fótunum láti hann það ekki trufla sig, því aðalatriðið sé að láta sér líða vel í höfðinu, forðast stress og gera ekki of mikið úr hlutunum.

Kristján Friðbjörnsson, málarameistari og faðir Ólafs, tók soninn snemma með sér í málarastarfið en eitt sinn, þegar lítið var að gera fyrir vestan, bauð vinur Kristjáns Ólafi vinnu við að mála með sér tvær blokkir fyrir sunnan. Hann fór í bæinn en greip í tómt. „Þeir fengu ekki verkið, sem var búið að lofa þeim, og þá fór ég að spila þar með hljómsveitum.“ Hann segist hafa leikið með frábærum tónlistarmönnum á öllum sviðum og lengi á Keflavíkurflugvelli. „Tónlistin hefur alltaf blundað í mér.“

Ólafur byrjaði að semja lög á unglingsárunum og Halldór Smárason píanóleikari skrifaði lögin upp í bókina, en Bjarni Sveinbjörnsson kontrabassaleikari og Pétur Grétarsson trommuleikari spiluðu með honum á tónleikunum, sem eru komnir á netið (youtube.com/watch?v=e188jdIOs_Q). „Fyrsta lagið mitt var valið það besta í sönglagakeppni heima,“ segir hann. Allt ætlaði um koll að keyra þegar Ólafur steig á svið í lok fyrrnefndra tónleika, settist við píanóið og spilaði „Any Time“. „Allur salurinn lifnaði með mér og ég var steinhissa á viðtökunum en þetta tókst glimrandi vel,“ segir Ólafur. „Fólk kom til mín á eftir og sagðist hafa yngst um mörg ár við að heyra lagið aftur.“ Hann samdi „Bjórkvöld vina“, sem diskurinn heitir eftir, þegar hann var í hljómsveit Villa Valla á Ísafirði. Sá síðarnefndi hringdi í Ólaf og sagði honum að hann yrði að semja lag fyrir kvöldið til að fylla upp í dagskrána. „Þetta er fallegt og skemmtilegt lag og ég hef haldið svolítið upp á það.“

Ólafur segir að hans bestu vinir hafi ekki verið í sama flokki og það hafi gefist vel þegar leysa þurfti mál í bæjarstjórninni. „Aldrei var rifrildi á milli okkar heldur skynsamleg umræða.“ Sama hafi verið uppi á teningnum hjá þeim Villa Valla. „Við höfum verið vinir frá æsku en hann er öfugur í pólitíkinni á við mig. Hann sagði samt að ég væri stundum miklu meiri krati en hann og sumir rauðir kommar sögðu slíkt hið sama, þú ert miklu meiri kommi en ég. Málið er að ég hef aldrei valið mér vini eftir póitík heldur eftir geðslagi. Ofstækismönnum í pólitík vegnar aldrei vel.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson