Bjarki Steinn Bjarkason skoraði sitt fyrsta mark fyrir ítalska liðið Venezia er það vann 3:1-útisigur á Moderna í B-deildinni í fótbolta á laugardag. Bjarki kom inn á sem varamaður á 62. mínútu og skoraði skömmu síðar. Mikael Egill Ellertsson lagði upp annað mark liðsins á 76. mínútu.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fór á kostum fyrir Bayer Leverkusen er liðið vann 6:0-heimasigur á Nürnberg í þýsku 1. deildinni í fótbolta á laugardag. Karólína skoraði tvö marka liðsins og lagði upp eitt til viðbótar. Henni var skipt af velli á 68. mínútu leiksins í stöðunni 5:0. Karólína er að láni hjá Leverkusen frá Bayern München út þessa leiktíð.
Selma Sól Magnúsdóttir skoraði fyrra mark Rosenborg er liðið tryggði sér sæti í bikarúrslitum norska fótboltans með 2:1-heimasigri á Lilleström í undanúrslitum. Verður Íslendingaslagur í úrslitum, því Ingibjörg Sigurðardóttir og stöllur í Vålerenga unnu 3:2-heimasigur á Lyn í framlengdum leik í hinni undanúrslitaviðureigninni.
Valdimar Ingimundarson lék allan leikinn í fremstu víglínu, skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja í 3:1-útisigri Sogndal á Jerv í norsku B-deildinni í fótbolta á laugardag. Þeir Jónatan Ingi Jónsson og
Óskar Borgþórsson komu inn á
sem varamenn á 65. mínútu
leiksins.
Hin átján ára gamla Emilía Kiær Ásgeirsdóttir er að slá í gegn í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Emilía gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk fyrir Nordsjælland í 3:0-heimasigri á Bröndby á laugardag. Kristín Dís Árnadóttir kom inn á hjá Bröndby undir lokin.
Alfreð Finnbogason lagði upp mark Eupen er liðið mátti þola 1:3-tap á heimavelli gegn Anderlecht í efstu deild belgíska fótboltans á laugardag. Hann lék allan leikinn með Eupen, eins og Guðlaugur Victor Pálsson.
Valgarð Reinharðsson, ríkjandi Íslandsmeistari í fimleikum, var nálægt því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum með góðum árangri á HM í Antwerp í Belgíu á laugardag. Var hann á góðri leið með að ná lágmarki fyrir leikana í París næsta sumar þegar hann gerði mistök á svifrá, sem varð til þess að honum fataðist flugið. Hann endaði að lokum í 57. sæti.
Patrekur Jóhannesson er hættur þjálfun meistaraflokks karla í handbolta hjá Stjörnunni og Hrannar Guðmundsson, sem þjálfaði kvennalið félagsins á síðustu leiktíð, er tekinn við. Patrekur starfar áfram sem íþrótta- og rekstrarstjóri handknattleiksdeildar Stjörnunnar.
Sandra Erlingsdóttir átti stórleik fyrir þýska liðið Metzingen er það tryggði sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppninnar þar í landi með 28:24-útisigri á Blomberg-Lippe á laugardag. Sandra var markahæst í sínu liði með sjö mörk og þá gaf hún einnig sex stoðsendingar.
Dagur Dan Þórhallsson skoraði annað mark Orlando City í 3:0-heimasigri á Montréal í bandarísku atvinnumannadeildinni í fótbolta í fyrranótt. Dagur byrjaði leikinn í hægri bakvarðarstöðunni og lék fyrstu 82. mínúturnar. Orlando er í öðru sæti Austurdeildarinnar með 54 stig að loknum 31 leik.
Dagur Sigurðsson og Aron Kristjánsson leiða saman hesta sína í undanúrslitum handknattleikskeppninnar á Asíuleikunum í Kína á morgun. Það varð ljóst eftir að Japan, undir stjórn Dags, tapaði fyrir Katar, 29:32, í milliriðli í gær og Barein, undir stjórn Arons, vann Kúveit, 34:25.
Albert Guðmundsson gerði bæði mörk Genoa er liðið gerði 2:2-jafntefli á útivelli gegn Udinese í ítölsku A-deildinni í fótbolta í gær. Hann var nálægt því að skora þrennu, því hann skoraði eitt mark til, en það var dæmt af.
Óðinn Þór Ríkarðsson lék afar vel fyrir Kadetten og skoraði átta mörk er liðið vann 36:27-útisigur á Suhr Arau í efstu deild Sviss í handbolta í gær. Kadetten er í toppsætinu með þrettán stig eftir sjö leiki.
Elín Klara Þorkelsdóttir átti stórkostlegan leik fyrir Hauka er liðið vann 30:25-útisigur á Fram í úrvalsdeild kvenna í handbolta á laugardag. Elín skoraði 15 mörk fyrir Haukaliðið og bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn. Alfa Brá Hagalín gerði átta fyrir Fram. Eru Haukar nú í þriðja sæti með sex stig, eftir þrjá sigra og eitt tap. Fram er í fjórða með fjögur stig, með tvo sigra og tvö töp í fyrstu fjórum leikjunum.