Ole Anton Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
Ekki er vitað með vissu hversu mikill hluti kynhneigðar er meðfæddur eða hversu mikinn hluta umhverfi og straumar í þjóðfélaginu marka.

Ole Anton Bieltvedt

Auðvitað er það gott og gleðilegt þegar fólk getur gert sér glaðan dag og skemmt sér saman. 12. ágúst fór gleðigangan fram. Aðstandendur vilja kenna hana við fjölbreytileika, regnbogann. Þjóðfélagið allt virðist hugsunarlítið hafa fallizt á þá framsetningu. En er hún rökrétt?

Þessi gleðidagur snýst bara um einn hóp af fjölmörgum og ólíkum samfélagshópum. Bara um hinsegin og trans fólk. Útleggingin, fjölbreytileiki, stenzt því varla. Fremur verður að tala um einsleitni. Þessi dagur og ganga stendur því ekki fyrir allt litrófið eins og af er látið heldur bara fyrir einn lit. Kannski bleikt eða blátt. Vörumerkið sem notað er, regnboginn, er því fyrir mér vart ekta.

Hvað með eldri borgara, einhverfa, andlega fatlaða, dverga, líkamlega fatlaða, gyðinga, flóttafólk, öryrkja, íþróttamenn, Votta Jehóva, blinda, örvhenta, fólk með ADHD-röskun, námsmenn, sykursjúka, 2-metra-menn, (læknaða) alkóhólista, björgunarsveitarfólk, Pólverja, lesblinda, skákmenn, langtímaveik börn, heyrnarskerta, fjallgöngumenn, krabbameinssjúklinga, hjólastólafólk?

Er hægt að tala um regnbogafánann, allt litrófið, án þeirra og margra, marga annarra hópa?

Það eru margvíslegir straumar í gangi í þjóðfélaginu og oft finnst mér það gerast að þeir sveiflist öfganna á milli.

Í eina tíð átti hinsegin og trans fólk mjög í vök að verjast með sína hneigð og sérstöðu, sem var vont og ósanngjarnt, erfitt hlutskipti og feikilegt álag fyrir þá sem í hlut áttu, djúpstætt ranglæti í ljósi okkar tíma, en nú allt í einu lætur þjóðfélagið eins og hinsegin og trans sé það flottasta.

Kannski mættu menn að staldra aðeins við í þessari nýju afstöðu og gleði og velta því aðeins fyrir sér hvert við erum að stefna með okkar háttsemi, líferni og menningu.

Það liggur auðvitað fyrir að venjulegt fólk með venjulega kynhneigð – mismunandi kynhneigð er það sem þetta snýst í meginatriðum um – er það fólk sem ber uppi mannfjölgun og framhaldstilveru mannkyns.

Það er því ansi vafasamt að ala upp ómótuð börnin okkar og unglingana við það að það að vera venjulegur sé nánast annars flokks, lítið gleðiefni; að það að vera hinsegin eða trans sé það flottasta.

Ekki er vitað með vissu hversu mikill hluti kynhneigðar sé meðfæddur, eða hversu mikinn hluta umhverfi og straumar í þjóðfélaginu marka. Hér þarf að stíga varlega til jarðar.

Eins og að framan greinir og allir vita samanstendur samfélagið af fjölmörgum, margvíslegum hópum og er mér vel við flesta eða alla, enda fjölbreytileiki eitt af einkennum sköpunarverksins, náttúrulegur og eðlilegur.

Flest sem mönnum er áskapað er því fyrir mér eðlilegt og vita flestir að menn skapa sig ekki sjálfir og fá mest af því sem þá einkennir, eðli og hneigðir, í vöggugjöf. Genin og erfðamengið ráða mikið för.

Ekki sé ég ástæðu til að hampa hópi hinsegin fólks einum sér og sérstaklega. Umfram alla aðra. Eins og þetta væri hinn eini útvaldi hópur. Nær hefði t.a.m. verið fyrir Reykjavíkurborg að byggja fleiri rampa fyrir hjólastólafólk en að mála götur og stræti hinsegin fólki til heiðurs. Verzlunarfyrirtæki í Skeifunni hefði fremur mátt lækka verð á mjólk og brauði en að mála innganginn í flannalegum regnbogalitum. Prestar hefðu mátt taka sinn tíma í að lesa biblíuna betur fremur en að standa að regnbogamálverki við sína kirkju.

Allir hafa sín sérkenni vegna sinna erfðamengja og gena, sinna hneigða, vegna síns umhverfis og hlutskiptis í lífinu, síns áhuga og síns lífskrafts, en eiga samt fullan og sameiginlegan rétt á að falla inn í samfélagið, verða og vera fullgildir samfélagsþegnar og njóta stuðnings þess.

Það er því ekkert réttlæti í því að taka þarna einn hóp út úr og hampa honum sérstaklega af opinberum aðilum, Reykjavíkurborg, öðrum bæjar- og sveitarstjórnum, skólum, kirkjum, fyrirtækjum, fjölmiðlum, fréttamönnum, verzlunum o.s.frv. Fyrir mér eru þessir tilburðir í raun í ætt við sýndarmennsku og hræsni. Menn virðast halda að þetta sé flott.

Sérstaklega finnst mér réttur opinberra aðila til þessarar „dýrkunar“ og sérmeðferðar hinsegin fólks orka tvímælis, svo ég tali ekki um forsetaembættið. Þessir aðilar ættu allir að vera hlutlausir. Fyrir þeim ættu allir hópar að hafa sömu og jafna stöðu og njóta sömu velvildar, virðingar og stuðnings.

Að lokum vil ég tjá þá tilfinningu mína að kynferðislegir tilburðir hinsegin fólks í gleðigöngum og öðru séu glyðrulegir og ómenningarlegir. Eigi ekki við. Fyrir mér eiga kynhneigð og kynferðismál að vera einkamál manna sem eiga heima í kyrrþey, ekki á torgi.

Við lifum sem betur fer í frjálsu samfélagi þar sem allir hafa rétt á að hafa og tjá sína skoðun. Ég er að nýta mér þann rétt, eins og ég geri oft. Hver og einn getur svo hugsað málið og gert upp sinn hug. Stundum tekur almenningsálitið völd og hrífur flesta eða alla með sér. Það er auðvitað vont.

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.

Höf.: Ole Anton Bieltvedt