Laugardalur Fanndís Friðriksdóttir úr Val sækir að Maríu Evu Eyjólfsdóttur úr Þrótti í leik liðanna í Laugardalnum á laugardaginn.
Laugardalur Fanndís Friðriksdóttir úr Val sækir að Maríu Evu Eyjólfsdóttur úr Þrótti í leik liðanna í Laugardalnum á laugardaginn. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Breiðablik og Stjarnan berjast um annað sæti Bestu deildar kvenna í fótbolta og í leiðinni sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili, allt til loka leiktíðarinnar. Það var ljóst eftir sigra beggja liða í næstsíðustu umferðinni á laugardag

Besta deildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Breiðablik og Stjarnan berjast um annað sæti Bestu deildar kvenna í fótbolta og í leiðinni sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili, allt til loka leiktíðarinnar. Það var ljóst eftir sigra beggja liða í næstsíðustu umferðinni á laugardag.

Breiðablik hafði betur gegn FH á heimavelli, 3:1. Stjarnan gerði góða ferð til Akureyrar og vann Þór/KA með sömu markatölu. Hulda Hrund Arnarsdóttir gerði tvö marka Stjörnunnar. Breiðabliki nægir stig gegn Íslandsmeisturum Vals í lokaumferðinni til að tryggja sér annað sætið, á meðan Stjarnan þarf að vinna Þrótt úr Reykjavík og treysta á að Breiðablik misstígi sig.

Eftir hræðilegt gengi hjá Breiðabliki eftir tapið óvænta gegn Víkingi úr Reykjavík í bikarúrslitum hefur liðið nú hrokkið í gang á síðustu stundu og unnið tvo leiki í röð. Blikar misstu af Evrópusæti á síðustu leiktíð, nokkuð sem þeir ætla ekki að endurtaka.

Í þriðja leik laugardagsins skildu Reykjavíkurliðin Þróttur og Valur jöfn, 1:1. Elín Metta Jensen skoraði gegn sínu gamla liði og fagnaði vel. Bryndís Arna Níelsdóttir, markahæsti leikmaður deildarinnar, jafnaði fyrir Val. Er hún komin með 15 mörk í sumar, fimm mörkum meira en Agla María Albertsdóttir.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson