Á kynningarfundi fyrr í haust vegna vinnu nokkurra starfshópa á vegum matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um sjávarútveg ræddi ráðherrann meðal annars um sátt. Sumum stjórnmálamönnum verður tíðrætt um sátt um sjávarútveg og eru það gjarnan þeir stjórnmálamenn sem hafa horn í síðu greinarinnar og vilja ala á óánægju um hana, misskilningi og öfund. Þetta er ljótur leikur, ekki síst þegar helsta undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar er annars vegar.
Svandís sagði að sér væri full alvara með að freista þess að ná meiri sátt, en sagði svo um sáttina: „Sátt er ekki áfangastaður. Sátt er ekki niðurstaða. Sátt verður ekki náð og þar með er málið búið. Sátt er vegferð. Sátt er aðferð.“ Svo bætti hún því við að sátt væri einhvers konar nálgun og að þeir mörgu sem að verkefninu komu hefðu nálgast það af miklum heilindum.
Ekki er að efa að flestir hafa unnið að verkefninu af heilindum, en í ljós hefur komið að það hafa ekki allir gert, svo sem sjá má á þeim skorti á gagnsæi, misvísandi svörum og lögbrotum sem áttu sér stað í tengslum við vinnu Samkeppniseftirlitsins fyrir matvælaráðherra. Engu að síður er gagnsæi eitt helsta áhersluatriði ráðherrans, að því er fram kom á fyrrnefndum kynningarfundi.
Í grein Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hér í blaðinu um helgina kemur fram að sú vinna sem ráðherra setti af stað og átti að einkennast af samráði, gagnsæi og faglegum vinnubrögðum hafi reynst með allt öðrum hætti. Til marks um þetta sé mikið ósætti innan greinarinnar, en um það segir Heiðrún Lind: „Öll stéttarfélög sjómanna og landvinnslufólks, auk hagsmunasamtaka í útgerð hafa fært gagnrýni sína á ferlið til sameiginlegrar bókunar: Starfsgreinasamband Íslands, Félag skipstjórnarmanna, Sjómannasamband Íslands, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök smærri útgerða. Þá sögðu Landssamband smábátasjómanna, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda og Strandveiðifélag Íslands sig frá samráði á fyrri stigum vegna óánægju með ferlið.“
Það er því augljóst að verulega vantar upp á samráðið og sáttina, enda sýndi það sig þegar leið á starfið í hópunum og einkum þegar lokaniðurstaðan var
kynnt að lítið var gert með þá vinnu sem fram hafði farið og enn minna með það sem stóð í stjórnarsáttmálanum og starfið byggðist á.
Í stjórnarsáttmálanum segir um sjávarútvegsmál: „Skipuð verður nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.“
Í stjórnarsáttmálanum segir ekkert um að matvælaráðherra eigi að leggja fram ný heildarlög um sjávarútveg eins og hún hefur kynnt og þar segir ekkert heldur um að hún eigi að fara út í tilraunastarfsemi með fyrningarleið eins og hún kynnti á fyrrnefndum fundi. Í bráðabirgðatillögum vinnuhópanna sem kynntar voru í ársbyrjun voru vangaveltur um fyrningarleið, en þegar lokatillögur hópanna voru kynntar á kynningarfundinum í ágúst kom fram að lagt væri til „að viðhalda aflamarkskerfinu í óbreyttri mynd“ og að því væri „ekki lagt til að beitt verði samninga- eða fyrningarleið“. Frá þessu greindi ráðherra ekki þegar hún engu að síður gerði tilraun með fyrningarleið að einni af sínum helstu tillögum.
Á meðan tilteknir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar gera út á fordóma gegn sjávarútveginum er hætt við að ávallt verði að finna einhverja óánægju með greinina. Sátt verður að minnsta kosti mun erfiðari við slíkar aðstæður og sátt virðist ekki sérstakt markmið þeirrar vinnu sem matvælaráðherra setti af stað í fyrra og kynnti fyrir rúmum mánuði þó að talað sé um sátt með þeim hætti sem ráðherra hefur gert.
Áherslan hefði þurft að vera mun meiri á þjóðhagslegan ávinning af fiskveiðistjórnarkerfinu og á samanburð við það sem þekkist erlendis. Á þetta er minnst í hátt í fimm hundruð blaðsíðna skýrslu nefndanna, en það fær enga athygli og er fjarri því að vera eitt af áhersluatriðum ráðherra. Þó má sem sagt finna í skýrslunni umfjöllun um mikinn þjóðhagslegan ávinning af kvótakerfinu, sem byggist á varanlegum og framseljanlegum veiðiheimildum, og afar hagfelldan samanburð á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu og kerfum annarra ríkja. Þar segir til að mynda að Ísland sé eina landið innan OECD þar sem sjávarútvegur nýtur ekki opinbers stuðnings, hann skilar þvert á móti sköttum til samfélagsins umfram aðrar greinar.
Ef stjórnmálamenn, ekki síst þeir sem gegna embætti ráðherra sjávarútvegsmála hverju sinni, legðu áherslu á kosti aflamarkskerfisins í stað þess að ýta undir ósætti mundi afstaða margra breytast. En á meðan til eru stjórnmálamenn og jafnvel stjórnmálaflokkar sem gera út á óánægjuna og ala á henni næst seint sú sátt um sjávarútveg sem ráðherrann segist vilja.