Þórdís Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 19. júlí 1954. Hún lést 17. september 2023 á Landspítalanum við Hringbraut.

Foreldrar Þórdísar, eða Dísu eins og hún var gjarnan kölluð, eru Magnús Jónsson frá Kambi í Reykhólasveit, f. 27. nóvember 1918, d. 3. júní 2008, og Guðlaug Bergþórsdóttir frá Reykjavík, f. 16. nóvember 1927.

Systkini Dísu eru Bergþóra, f. 7. nóvember 1944, Jón Hjaltalín, f. 2. apríl 1948, Karl Georg, f. 5. október 1949, Hilmar Þór, f. 21. júlí 1951, d. 10. ágúst 1966, og Stefán, f. 21. júlí 1959.

Fjölskyldan bjó fyrst við Sölvhólsgötu í Reykjavík en flutti síðan á Tunguveg sem varð þeirra framtíðar heimili. Á sumrum var hún við ýmis störf ásamt því að vera nokkur ár í sveit á Gróustöðum við Gilsfjörð en til Reykhólasveitar átti hún ættir að rekja.

Hinn 7. apríl 1979 giftist Dísa eftirlifandi eiginmanni sínum, Hlyni Ólafssyni, grafískum hönnuði frá Vestmannaeyjum, f. 12. ágúst 1956. Foreldrar hans eru Ólafur Haraldur Oddgeirsson frá Vestmannaeyjum, f. 30. mars 1929, d, 12. ágúst 1998, og Ragna Lísa Eyvindsdóttir frá Siglufirði, f. 6. mars 1934, d. 25. febrúar 2006.

Börn Dísu og Hlyns eru: 1) Hans Róbert, f. 29. ágúst 1985, kvæntur Guðnýju Jónasdóttur, f. 11. ágúst 1986. Börn þeirra eru Katrín Ragna, f. 30. ágúst 2016, Tómas Freyr, f. 28. febrúar 2021, og Freydís Eva, f. 11. febrúar 2023; 2) Aníta Björk, f. 22. september 1989,í sambúð með Thomas Wintle, f. 1. desember 1981.

Dísa gekk í Breiðagerðisskóla og varð gagnfræðingur frá Réttarholtsskóla 1971 og lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands 1976. Hún stundaði framhaldsnám í handlækninga- og lyflækningahjúkrun og síðar stundaði hún nám með vinnu í Endurmenntunarstofnun HÍ í stjórnun og rekstri heilbrigðisþjónustu.

Dísa stundaði íþróttir á yngri árum og lék handbolta með yngri flokkum og meistaraflokki Víkings sem markvörður og lék einnig með unglingalandsliðinu á Norðurlandamótum.

Dísa starfaði sem hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, Landakoti og handlækningadeild Borgarspítala. Þá starfaði hún sem hjúkrunarstjóri á Heilsugæslu Kópavogs. Árið 2004 var hún skipuð hjúkrunarforstjóri á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og í framhaldi af því sem forstöðumaður heimahjúkrunar Reykjavíkurborgar 2009 til loka starfsaldurs 2021.

Dísa var formaður og í stjórn Vestmannaeyjadeildar Hjúkrunarfélags Íslands Hún sat einnig í stjórn Sjúkrahúss Vestmanneyja um tíma.

Dísa tilheyrði nokkrum frábærum vinahópum í leik og starfi. Hún og Hlynur elskuðu ferðalög bæði innanlands og erlendis með góðum hópum sem þau fóru með um flestar álfur heimsins.

Barnabörnin áttu allan hug Dísu síðustu ár sem hún nýtti vel til að treysta fjölskylduböndin, hjálpa til og styðja við uppvöxt ömmubarnanna.

Þau Hlynur bjuggu fyrst í Vestmannaeyjum en hafa lengst af búið við Hraunbraut í Kópavogi.

Útför Þórdísar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 2. október 2023, klukkan 13.

Þegar fólk komst að því að ég væri tengdadóttir Dísu sagði það oftar en ekki „heppin þú“ og það var ég svo sannarlega því ég veit að ég datt í tengdólukkupottinn.

Dísa mætti með hjartað fullt af kærleik og hjálpsemi á umbrotatímum í lífi okkar í London þegar Katrín var einungis einnar viku gömul og höfum við síðan tengst miklum vináttuböndum. Hún hefur verið kletturinn minn í gegnum allar meðgöngur og fæðingarorlof og stutt mig í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Samveran yfir kaffibollanum á morgnana þegar hún var í heimsókn var tilhlökkunarefni allt fæðingarorlofið mitt í London og eftir að við fluttum heim mætti hún í kaffi þegar ég þurfti lúmskt mikið á því að halda. Oft færandi hendi með salat eða sætabrauð eða bara til að knúsa börnin og spjalla.

Fyrir okkur fjölskylduna var hún alltaf fyrsta símtal, bæði þegar þurfti að gleðjast og þegar við þurftum hjálp með eitthvað. Umhyggjusemi og kærleikur er það sem mér dettur fyrst í hug þegar ég hugsa um Dísu ásamt einstökum hæfileika hennar til að styðja og leiðbeina. Allir þessir eiginleikar hafa án efa veitt okkur þann styrk og öryggi sem við þörfnuðust til að eignast ríkidæmið sem við eigum í dag.

Börnin áttu við hana einstakt samband. Hún var amman sem leyfði þeim sem ungbörnum að lúra tímunum saman í ástríku fangi. Hún var alltaf til í að leika við þau, lék karaktera í barbíleikjum og drekaplaymó, byggði lestarbrautir og fór í bílaleik. Mikil perluframleiðsla fór fram í heimsóknum á Hraunbrautinni ásamt töfraseyðisgerð (eldhúsdrullumalli) og margt fleira. Það var endalaust hægt að dunda með ömmu Dísu. Þolinmæðin gagnvart þeim virtist endalaus enda treystu þau henni fyrir öllu og hún öðlaðist einstaka sýn inn í tilfinningaheim þeirra og skildi þau betur en flestir. Hún amma Dísa var einfaldlega best. Hjartað í mér brestur af sorg að yngri börnin fái ekki að eiga hana að sálufélaga á sama hátt og elsta dóttir okkar og að hún fái ekki meiri tíma með ömmu Dísu sinni.

Engin orð fá því lýst hversu sárt hennar verður saknað en hennar fallegu gildi og kærleikur lifir áfram í fólkinu hennar sem ég er svo heppin að fá að kalla fjölskylduna mína.

Guðný Jónasdóttir.

Við andlát Dísu systur koma margar fallegar minningar fram í hugann, frá æskuárum okkar, unglings- og fullorðinsárum eins og í fjölskylduboðum með börnum okkar eða í sumarbústað pabba okkar og mömmu fyrir vestan.

Dísa byrjaði ung að æfa handbolta í Víkingi með vinkonum sínum í Réttó og lék í marki. Henni þótti gaman í þessari íþrótt og hefur þátttaka hennar í þessari hópíþrótt og mikilvægi samheldni liðsheildar án efa komið sér vel í starfi hennar síðar meir. Hún var valin í unglingalandsliðið sem keppti 1974 á Norðurlandamóti í Noregi.

Dísa lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands og starfaði síðan innan heilbrigðisgeirans alla sína starfsævi og að sögn við góðan og verðskuldaðan orðstír. Hún stundaði framhaldsnám í handlækninga- og lyflækningahjúkrun og síðar stundaði hún nám með vinnu í Endurmenntunarstofnun HÍ í stjórnun og rekstri heilbrigðisþjónustu. Dísa starfaði sem hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, Landakoti og handlækningadeild Borgarspítala. Þá starfaði hún sem hjúkrunarstjóri á Heilsugæslu Kópavogs. Árið 2004 var hún skipuð hjúkrunarforstjóri á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og í framhaldi af því í hið vandasama starf sem forstöðumaður heimahjúkrunar Reykjavíkurborgar 2009 til loka starfsaldurs 2021. Í kóvídfaraldrinum hjálpaði hún við umönnun sjúklinga o.fl. þótt hætt væri störfum. Efast ég ekki um að hjartahlýja hennar, elskulegt viðmót og bros hafi hjálpað henni í þessum mikilvægu störfum.

Í Vestmannaeyjum kynntist Dísa eiginmanni sínum, Hlyni Ólafssyni. Þau eignuðust tvö yndisleg börn, Hans Róbert og Anítu Björk. Þau lögðu bæði stund á nám í verkfræði og starfa sem slík. Aníta Björk býr og starfar í London. Sambýlismaður hennar er Thomas Wintle. Hans Róbert býr og starfar í Kópavogi. Eiginkona hans er Guðný Jónasdóttir. Börn þeirra hjóna eru Katrín Ragna sjö ára, Tómas Freyr rúmlega tveggja ára og Freydís Eva átta mánaða. Öll voru í miklu uppáhaldi hjá ömmu sinni og afa. Dísu þótti gaman að segja frá þessum yndislegu barnabörnum sínum sem án efa sakna hennar mikið.

Dísa og Hlynur elskuðu ferðalög bæði innanlands og erlendis með góðum vinahópum sem þau fóru með um flestar álfur heimsins. Gaman var að heyra ferðasögur þeirra frá Suður-Ameríku, Suður-Afríku, Indlandi, Kína, Víetnam, o.fl. fjarlægum slóðum. Nokkrum dögum fyrir hina örlagaríku læknisaðgerð ræddi ég við Dísu í hinsta sinn en vissi þá ekki af væntanlegri aðgerð. Spurði hana hvort þau hjón væru ekki að skipuleggja nýja heimsreisu. Það varð smá þögn í símanum en svo svarði Dísa: „Jú, og það verður líklega okkar seinasta langferðalag.“ Dísa er nú lögð í sitt seinasta ferðalag. Ferðalag sem bíður okkar allra. Megi algóður Guð styðja Dísu í þeirri ferð.

Megi algóður Guð styðja Hlyn, Hans Róbert, Anítu Björk, ömmubörnin þrjú, fjölskyldu og vini Þórdísar Magnúsdóttur í sorg okkar. Minning um góða og umhyggjusama stúlku og hjartahlýja ömmu lifir í huga okkar allra.

Jón Hjaltalín Magnússon.

Það var erfitt símtal sem ég fékk á sunnudagsmorgun er Hlynur hringdi og tjáði mér að Þórdís systir mín hefði kvatt eftir erfiða nótt á Landspítalanum. Þetta var mikið reiðarslag fyrir okkur hjónin og börn okkar. Við Dísa vorum náin systkini og samband okkar ávallt gott og eftir að við stofnuðum heimili urðu fjölskyldur okkar enn nánari. Gott var að leita til Dísu sem var hörkudugleg og úrræðagóð í öllum málum. Barnabörnunum fjölgaði og hún naut þess að vera Dísa amma.

Við hörmum fráfall góðrar systur langt fyrir aldur fram. Við erum þakklát fyrir samverustundirnar yfir árin og allar heimsóknirnar. Eftir standa góðar og dýrmætar minningar.

Við Sigrún sendum Hlyni og börnum, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Margt ég vildi þakka þér

og þess er gott að minnast

að þú ert ein af þeim sem mér

þótti gott að kynnast.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðarströnd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Karl Georg (Kalli) og Sigrún.

Elsku Dísa, með þessum orðum vil ég að kveðja þig.

Það sem hún dóttir mín vann í tengdamömmulottóinu þegar hún og Hansi hófu samband sitt. Þú varst með hjarta úr gulli og hugsaðir svo vel um alla í kringum þig. Þegar við eignuðumst okkar fyrsta barnabarn hófst ómetanleg vinátta okkar á milli. Það voru ófá símtölin sem við höfum átt í gegnum tíðina að tala um sameiginlegt ríkidæmi okkar, þessi yndislegu börn sem nú þurfa að kveðja hana ömmu Dísu.

Hún sem lagaði allt ef eitthvað bilaði. Katrín Ragna sagði alltaf: „Þetta er allt í lagi, amma Dísa lagar þetta“. Það sem hún saknar ömmu Dísu og Tómas okkar talar stöðugt um þig. Freydís Eva mun heyra fallegar sögur og endurminningar frá okkur öllum hinum í framtíðinni.

Það var ómetanlegur stuðningur frá þér þegar ég missti móður mína. Fallegasta gjöfin sem ég hef fengið var fimmtugs afmælisgjöf frá ykkur hjónum. Þegar ég flutti inn í íbúðina mína voruð þið fyrst til að samgleðjast mér og komuð færandi hendi með yndislega innflutningsgjöf. Þú varst svo glöð fyrir mína hönd.

Þó kynni okkar nái ekki yfir mörg ár finnst mér ég alltaf hafa þekkt þig. Þú varst mikilvæg í fjölskyldunni okkar, hugsaðir alltaf svo hlýtt og fallega til allra.

Þú mættir alltaf hlaðin gjöfum þegar þið komuð heim frá Spáni sem voru fyrir alla. Alltaf komstu með veitingar í allar veislur að ógleymdum blómvendi á veisluborðið.

Þegar við vörðum síðasta gamlárskvöldi saman, knúsuðumst við og skáluðum fyrir nýju ári og bjartri framtíð allra sem vorum með okkur á Sunnubrautinni.

Kæri Hlynur, ég vona að þú öðlist æðri styrk til að takast á við þetta mikla áfall í lífi þínu. Elsku Aníta, Hansi og fjölskylda, ég votta ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Erla Stefanía Magnúsdóttir.

Með sorg í hjarta kveðjum við elsku Dísu frænku. Dísa var okkur systkinum afar kær og í huga okkar var hún kletturinn í fjölskyldunni, litla systir pabba með stóra hjartað.

Við fórum ekki varhluta af hlýju og væntumþykju Dísu í okkar garð, áhuga hennar og Hlyns á því sem á daga okkar og barna dreif. Samheldni þeirra hjóna var mikil og höfðu þau einstaklega góða nærveru.

Við minnumst Dísu af sömu hlýju og við gerum til ömmu Þórdísar sem á jafnframt einstakan stað í okkar hjarta. Hláturinn, hlýjan, mjúka faðmlagið og hrekkvísa brosið sem náði til augnanna.

Elsku Hlynur, Hans Róbert og Guðný, Aníta og Thomas og ömmubörnin þrjú, okkar hugur er hjá ykkur. Megi góður Guð umvefja ykkur í sorginni og hlýjar minningar um yndislega eiginkonu, mömmu, tengdamömmu og ömmu styrkja ykkur og ylja.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðasta blund.

Margs er að minnast,

margs er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Hilmar Þór, Inga Dís og Guðlaug Björk.

Elsku Þórdís, kæra vinkona.

Okkur setti hljóðar sunnudaginn 17. september þegar Guðfinna hringdi og sagði: „Hún er dáin, hún Þórdís er dáin.“ Eigum við enn erfitt með að trúa því að hafa þig ekki lengur með okkur.

Margs er að minnast, en það sem sameinaði okkur í byrjun var starfið. Síðar hittumst við reglulega á veitingastöðum/kaffihúsum og áttum skemmtilegar stundir saman yfir góðum mat og drykk. Var þá iðulega búið að ganga frá því að við gætum verið á staðnum í 4-5 klst.

Mikið var skrafað, hlegið og allt rætt milli himins og jarðar, eins og hvað var efst á baugi í þjóðfélaginu, hvað var efst á baugi í hjúkrun, ferðalögin vítt og breitt um heiminn, börnin og barnabörnin og svo varst þú vel að þér í réttindamálum hjúkrunarfræðinga og var því oft leitað til þín með þau mál.

En nú er komið að leiðarlokum og með kærleika kveðjum við þig, kæra vinkona, þín verður sárt saknað, en þú verður ávallt með okkur í hjarta.

Hlynur, Hans, Aníta og fjölskyldur, okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Björg og Margrét.

Við kynntumst Dísu fyrir rúmum 40 árum en þá kom hún, handboltastelpan og nýútskrifaður hjúkrunarfræðingurinn, til starfa á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Það var ekki asi í kringum hana Dísu en það fór ekki á milli mála að þar fór leiðtogi. Hún var vel skipulögð og lipur í mannlegum samskiptum, stöðug eins og klettur enda var hún fljótlega orðin deildarstjóri á handlækningadeildinni. Hún starfaði við stjórnunarstörf næstum allan sinn starfsferil sem spannaði yfir fjóra áratugi. Hún naut virðingar innan hjúkrunarstéttarinnar og samstarfsfólks fyrir störf sín. Eftir að fjölskyldan flutti upp á land tók Dísa við starfi yfirmanns heimahjúkrunar, síðast í Reykjavík.

Það er birta yfir minningu þess tíma sem við áttum saman í Eyjum. Þar bundumst við sterkum vináttuböndum. Þegar tími gafst til þá var hann nýttur til leiks og gleði.

Á góðviðrisdegi að sumarlagi kom upp sú hugmynd að skreppa í Þórsmörk. Guðrún Gunnarsdóttir, yndisleg stúlka frá Hvolsvelli, átti frænda sem lánaði okkur bústað í Húsadal. Engin var Landeyjahöfn á þessum tíma og var flogið upp á Hellu í lítilli flugvél og samið um að Loftur flugmaður kæmi á ákveðnum tíma að sækja okkur til baka. Veður var gott og við nutum fegurðarinnar og félagsskaparins.

Þegar haldið var til baka fórum við um borð í litlu vélina og hún rann af stað í flugtakið. Vélin var komin á góða ferð, Landeyjarnar blöstu við og nálguðust hratt þegar farið var yfir öryggisatriðin. Dyr flugvélarinnar voru ekki alveg lokaðar, höfðu aðeins fallið að stöfum. Þeim var snarlega lokað með einu handtaki og svipbrigðalaust. Þetta var ferð sem oft hefur verið rifjuð upp.

Í Eyjum stofnuðum við saumaklúbb sem hefur verið starfandi í nær fjóra áratugi. Það fer lítið fyrir handavinnunni en þess í stað eru líflegar samræður, umhyggja og góður matur aðalsmerki klúbbsins. Einu sinni á ári er handavinnusýning og þá er eiginmönnunum boðið, enda eru þeir fullir eftirvæntingar að upplifa aðalsmerki klúbbsins sem er gleði bundin minningum, velvilja og hlýju.

Dísa var alltaf traust og góð vinkona og við munum sakna hennar mikið. Minningin um hana lifir, en skarð hennar verður ekki fyllt.

Dísa kynntist Hlyni Ólafssyni, eftirlifandi eiginmanni sínum, í Eyjum. Þau hafa alltaf verið sem eitt í hverju verkefni sem þau hafa fengið og stutt hvort annað. Við vottum Hlyni og börnum þeirra, þeim Hans Róbert og Anítu Björk, tengdabörnum, barnabörnum og móður Dísu okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Dísu.

Anna, Guðmunda,
Guðný, Hjördís,
Halldóra, Odda
og Steinunn.

Elsku Dísa vinkona, nú er komið að kveðjustund sem við höfðum aldrei rætt en ræddum svo margt annað. Það eru breyttir tímar fram undan en ég er svo óendanlega þakklát fyrir okkar dýrmætu vináttu og trygglyndi. Ég er sérstaklega þakklát fyrir stundina sem við áttum daginn áður en þú kvaddir svo óvænt.

Mér finnst ég svo lánsöm að hafa kynnst ykkur Hlyni fyrir hartnær 40 árum. Við sáumst fyrst sem vinnufélagar og bjuggum í sama stigagangi í nokkur ár á Reynimelnum og fluttum síðan báðar í Kópavog. Fljótlega urðum við nánar vinkonur, sem hefur enst síðan. Það hefur alltaf verið gott að leita til þín, hvort sem það var vinnutengt eða persónulegt, því þú varst svo úrræðagóð og góður hlustandi.

Ég dáðist að því hvað þú áttir alltaf gott með að umgangast fólk, unga sem aldna, á jafnréttisgrundvelli. Þú varst yndisleg félagsvera og áttir marga vinahópa og til dæmis þá vorum við fjórir fyrrverandi vinnufélagar sem hittumst ársfjórðungslega og áttum frábærar stundir saman. Ég dáðist líka að því hvað þú varst mikill listunnandi og dugleg að heimsækja söfn á Íslandi og oft fóruð þið Hlynur utan til að kynnast list og menningu fjarlægra landa.

Síðast en ekki síst varst þú mikil fjölskyldumanneskja og mikið fór ömmuhlutverkið þér vel. Þú varst alltaf mjög gjafmild og ávallt þegar þú fékkst eitthvað lánað hjá mér þá skilaðir þú því aftur og þá fylgdi alltaf einhver gjöf með, sem þakklæti fyrir.

Nú kveð ég þig kæra vinkona og ég á mikið eftir að sakna allra
samverustundanna okkar en góð og falleg minning lifir í hjarta mínu.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til þín elsku Hlynur og fjölskyldunnar allrar. Dísu verður alltaf minnst af miklum hlýhug hjá mér og minni fjölskyldu.

Guðfinna Jónsdóttir.