Hátíð Bros var á brá þess fólks sem sótti afmælishátíð Ásgarðs.
Hátíð Bros var á brá þess fólks sem sótti afmælishátíð Ásgarðs. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Margt var um manninn nú um helgina þegar haldið var upp á 30 ára afmæli handverkstæðisins Ásgarðs í Mosfellsbæ. Meðal gesta á hátíð sem efnt var til í félagsheimilinu Hlégarði voru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson,…

Margt var um manninn nú um helgina þegar haldið var upp á 30 ára afmæli handverkstæðisins Ásgarðs í Mosfellsbæ. Meðal gesta á hátíð sem efnt var til í félagsheimilinu Hlégarði voru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og svo fjölmargir velunnarar starfseminnar.

Í Ásgarði, sem hefur aðsetur í Álafosskvos í Mosfellsbænum, vinna 37 manns. Starfsgeta fólksins er mjög mismunandi en allir, fatlaðir sem ófatlaðir, taka þátt í ferlinu frá hugmynd að tilbúinni vöru. Hvar og hvernig hver og einn getur tekið þátt í vinnuferlinu er einstaklingsbundið en álit hvers og eins skiptir máli. Markmiðið með framleiðslunni er þó jafnan að geta búið til fallega smíðisgripi sem fólki finnst aðlaðandi, vegna þess að varan er handunnin, vel gerð og einstök. Örvandi umhverfi sem hentar hverjum og einum er útgangspunkturinn í starfi Ásgarðs

Mikil áhersla er lögð á fjölbreytt verkefni sem gera kröfur til starfsfólks í handverksmiðjunni. Að það virki eigin sköpunarkraft og nái í daglegu starfi sínu að stíga feti framar en fötlun þeirra gefur tilefni til, segir Ásgarðsfólk. Í lok dagsins sé mikilvægt að geta með stolti sýnt vel unnið verk sem komi öðrum til góða. sbs@mbl.is