Slóvakía Robert Fico formaður Smer-SD fagnar sigri eftir þingkosningar á laugardaginn.
Slóvakía Robert Fico formaður Smer-SD fagnar sigri eftir þingkosningar á laugardaginn. — AFP/Vladimir Simicek
Óumdeildur sigurvegari þingkosninganna í Slóvakíu á laugardag er flokkurinn Smer-SD, undir forystu Roberts Ficos, sem hlaut 23 prósent greiddra atkvæða. Fico, sem dáist mjög að Vladimír Pútín og valdstjórn hans, barðist eindregið gegn frekari herstuðningi Slóvaka við Úkraínu í kosningabaráttu sinni

Þorlákur Einarsson

thorlakur@mbl.is

Óumdeildur sigurvegari þingkosninganna í Slóvakíu á laugardag er flokkurinn Smer-SD, undir forystu Roberts Ficos, sem hlaut 23 prósent greiddra atkvæða. Fico, sem dáist mjög að Vladimír Pútín og valdstjórn hans, barðist eindregið gegn frekari herstuðningi Slóvaka við Úkraínu í kosningabaráttu sinni. „Slóvakía og Slóvakar eiga við stærri vandamál að stríða en Úkraínu,“ sagði hann á laugardag.

Fráfarandi stjórnvöld í Slóvakíu hafa verið einir öflugustu bandamenn Úkraínu og gæti hér verið um nokkur tímamót að ræða. Forseti Slóvakíu, Zuzana Caputova, sagðist ætla að fela Smer-SD og formanni hans Rebert Fico umboð til stjórnarmyndunar. Smer tryggði sér 42 sæti í kosningunum á laugardag á 150 manna þjóðþinginu. Ljóst er að leita þarf til fleiri flokka til stjórnarmyndunar. Einn slíkur flokkur gæti verið Hlas-SD sem kom fram á sjónarsviðið árið 2020 sem klofningsflokkur út úr Smer. Flokkurinn hefur 27 þingsæti að baki sér. Formaður flokksins, Peter Pellegrini, varð forsætisráðherra árið 2018 eftir að Fico sagði af sér í kjölfar gríðarlegra mótmæla um land allt. Upptök þeirra voru morðin á blaðamanninum Jan Kuciak og unnustu hans Martinu Kusnirova.

Blaðamaðurinn hafði afhjúpað tengsl á milli ítölsku mafíunnar og flokksins Smer-SD í grein sem birtist að honum látnum. Grein Kuciaks beindi sjónum að Mariu Troskova, fyrrverandi sýningarstúlku sem varð aðstoðarkona Ficos, og tengdi saman ítalska viðskiptajöfra, mafíuna í Kalabríu og Troskova, og þannig innsta hring forsætisráðherrans.

Þótt Fico hafi hrökklast frá völdum hélt hann þingsæti sínu en hefur haldið sér að mestu til hlés undanfarin fimm ár. Hann átti áður í stormasömu sambandi við fjölmiðla, kallaði margan blaðamanninn „hóru“ og öðrum illnefnum. Að þessu sinni átti hann í litlum samskiptum við blaðamenn, en höfðaði þess í stað til kjósenda með myndböndum sem hann birti á Facebook, YouTube og Telegram.

Ýmsir fagna sigri Ficos, þar á meðal forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, sem sagði á X (áður Twitter): „Sjáið hver er kominn aftur! Til hamingju, Robert Fico, með óumdeildan sigur í þingkosningunum í Slóvakíu. Alltaf gott að vinna með föðurlandsvini. Ég hlakka til!“

Komist Fico til valda er lítils stuðnings þaðan til Úkraínu að vænta. Fico hefur enn fremur sagt að ef svo vilji til að Pútín komi til Slóvakíu þá verði hann ekki handtekinn þar í landi, þótt alþjóðleg handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur honum.

Höf.: Þorlákur Einarsson