Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Sennilega hefur ekkert fært mannkynið meira fram en verkaskipting. Með verkaskiptingu verður fráhvarf frá sjálfsþurftarbúskap.

Vilhjálmur Bjarnason

Sú var tíð í þjóðlegum íslenskum glæpareyfurum að smákrimmar stálu sér til matar ellegar annarrar bjargar. Fjalla-Eyvindur lagðist út og er talið að hann hafi stundað sauðaþjófnað sér til matar en ekki til auðsöfnunar. Ástir Eyvindar og Höllu er rómað yrkisefni í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar um Fjalla-Eyvind. Eigi veit ég um afkomendur Höllu en hitt veit ég fyrir víst að Fjalla-Eyvindur átti barn snemma á ævi sinni. Sagt er að afkomendur Fjalla-Eyvindar hafi verið harðduglegt fólk og á tuttugustu öldinni fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum, á meðan flokkurinn var flokkur smáatvinnurekenda og einkaframtaks.

Sennilega hefur tilgangur Otta Sveinssonar, þess er stal smjöri í Skagafirði seint á 19. öld og um er skrifað í Rauðamyrkri, verið sá að reyna að bjarga sér frá því að verða hungurmorða. Glæpamenn Íslands í fremstu röð verða ekki hungurmorða.

Þó ber þess að geta að smjör var andlag til sparnaðar og þeir sem áttu smjör, þeir voru taldir auðmenn. Vitorðsmenn Otta voru að bjarga sér en misstu vit af hræðslu við að Otti, hinn haldlagði delekvent, myndi segja frá vitorðsmönnunum. Því skáru þeir hann á háls en jörðuðu hann að hætti siðaðra manna í vígðri mold í kirkjugarðinum að Hólum í Hjaltadal. Einhverjir hældust um af glæp sínum í Vesturheimi. Þá skýrðist atburðarásin. Um þá atburðarás fjallar skáldið Hannes Pétursson í þjóðlegum glæpareyfara, skáldsögunni „Rauðamyrkur“.

Krimmar nútímans

Auðgunarbrot nútímans eru mjög fjölbreytt, og enn eiga við ákvæði Þjófabálks í Jónsbók frá 1281. Svo segir í 15. kafla Jónsbókar:

Um ábyrgð á geymslufé.

Nú selr maðr fé sitt til hirslu af trúnaði öðrum manni, þá skal sá er við tekr hirða ok varðveita sem sitt fé, þat er hann vill vel varðveita, nema hann segi þat, þá er hann tók við, at hann vildi at engu ábyrgjast. Svá er ok ef hverfr úr einni hirslu fé sjálfs hans ok þat er hann hirði.

Sennilega má jafna þessu ákvæði til þess að fjármálastofnanir taka við fé til ávöxtunar eða eignum til varðveislu. Vissulega má Landssamband íslenskra vitleysinga máta þjófabálk við kjör á innlánum í íslenskum fjármálastofnunum og athuga hvar hagsmunir heimila liggja.

Smákrimmar á Suðurnesjum

Auðvitað eru til krimmar sem hirtu það sem lá á víðavangi og var í eigu Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Það þótti hirðusemi. Það þótti snilli þegar borgaralegir starfsmenn af íslensku kyni bókfærðu vinnu íslenskra persóna, sem ekki voru til, í vinnu við þjónustu við herinn.

Einn slíkur starfsmaður ætlaði að leggja undir sig heilan stjórnmálaflokk í Reykjaneskjördæmi. Það var séð við honum, en þá gerðist viðkomandi glæpamaður á heimsmælikvarða og skildi eftir sig sviðna jörð í sveitaútibúi í virðulegum írskum banka.

Þá þóttist hann höndla með íslenska skreið í heimsviðskiptum. Seinna bættist við farmur af dufti frá Suður-Ameríku.

Samkeppni

Sennilega hefur ekkert fært mannkynið meira fram en verkaskipting. Með verkaskiptingu verður fráhvarf frá sjálfsþurftarbúskap. Með verkaskiptingu þarf meglara til að greiða fyrir viðskiptum. Það er ekki óeðlilegt að meglari fái þóknun fyrir sinn snúð, svo framarlega sem báðir hafi ábata af viðskiptum.

Verkaskipting er jafn nauðsynleg í viðskiptum innanlands sem í viðskiptum milli landa. Verkaskipting var hugleikin frumkvöðlum hagfræðinnar, þeim Adam Smith og David Ricardo.

Báðir lýstu ábata af verkaskiptingunni og Ricardo lýsti ábatanum í milliríkjaviðskiptunum þegar kaupauðgisstefnan var í algleymingi svo, að það ætti að flytja sem mest út en sem minnst inn.

Forsenda þess að verkaskipting skili ábata fyrir neytendur er sú að framleiðendur vöru og þjónustu komi ekki saman til að níðast á viðskiptavinum sínum, neytendum.

Samkeppniseftirlit

Seðlabankinn hafði eitt sinn það hlutverk að stuðla að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta. Nú er það hlutverk Samkeppniseftirlitsins að framleiðsluþættir séu nýttir.

Það að hindra samkeppi á markaði með vöru og þjónustu er glæpur. Sá er munur á beinum þjófnaði eins og á Keflavíkurflugvelli og samkeppnisbrotum að tjónþoli í samkeppnisbrotum er ekki einn ákveðinn aðili. Brotaþoli í samkeppnisbrotum er heil þjóð eða samfélag.

Glæpamaður Íslands nr. 1 getur ekki réttlætt samkeppnisbrot með því að hann hafi tapað fjandann ráðalausan í tilraunum sínum til heimsyfirráða og því ætlað sér að endurheimta tapið á saklausum íslenskum neytendum.

Forsenda nauðasamninga við lánardrottna getur aldrei verið tilræði við neytendur.

Og sá sem einnig stundar flutningastarfsemi á samkeppnismarkaði getur ekki útskýrt samkeppnisbrot með gamansemi.

Til að Samkeppniseftirlit verði virkt þarf að:

- efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Þessum markmiðum skal náð með því að:

- vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri

- vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum

- auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum

- stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur

Ef fulltrúar kjósenda telja að regluverk sé of flókið til að vinna að hagsmunum neytenda þýðir það að hagsmunir framleiðenda vöru og þjónustu séu æðri hagsmunum neytenda. Það getur aldrei orðið nema í hugum vitfirringa. En þeir eru til! Vandinn í málsvörn kann að vera sá að kunna ekki að þegja yfir nógu mörgu.

Vonir og óskir

Samkeppnisbrot íslenskra skipafélaga er alvarlegur glæpur gegn íslenskum neytendum. Glæpurinn er ekki huglægur. Hann snýst um lífskjör. Það er von mín og ósk að þær stofnanir sem fjalla um áfrýjun úrskurðar Samkeppniseftirlits hafi hugrekki og manndóm til að meta varnarræður vitfirringa þegar í réttarsal kemur. Hagsmunir sem eru undir í þessu máli eru lífskjör á Íslandi. Þau eru æðri hagsmunum íslenskra iðjuhölda.

Ekki eru allar dyggðir fólgnar í andliti málflutningsmanna. Hinir þjóðlegu glæpir Otta Sveinssonar og Eyvindar Jónssonar eru hjóm eitt í samanburði við samkeppnisbrot vorra daga.

Fegurð og mannlíf

Fegurðin og mannlífið eru tveir elskendur sem fá ekki að hittast.

Samráð og samkeppnishindranir koma í veg fyrir bætt mannlíf og að elskendur hittist.

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason