Samræður „Hversdagsleg samtöl eru eins konar samvinna þar sem báðir eða allir aðilar hafa stöðugt hlutverki að gegna.“
Samræður „Hversdagsleg samtöl eru eins konar samvinna þar sem báðir eða allir aðilar hafa stöðugt hlutverki að gegna.“ — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrirsögn pistilsins, „Bara hlusta“, tek ég traustataki frá Grace Achieng sem flutti erindi með þessari yfirskrift á málræktarþingi sem Íslensk málnefnd efndi til 28. september. Meginefni þingsins var Íslenskunám nýrra Íslendinga

Tungutak

Ari Páll Kristinsson

ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Fyrirsögn pistilsins, „Bara hlusta“, tek ég traustataki frá Grace Achieng sem flutti erindi með þessari yfirskrift á málræktarþingi sem Íslensk málnefnd efndi til 28. september. Meginefni þingsins var Íslenskunám nýrra Íslendinga. Grace hvatti áheyrendur til að hlusta vel og vandlega á alla sem leggja sig fram um að læra íslensku sem annað mál. Hún benti meðal annars á þann leiða vana að fólk skipti gjarna úr íslensku í ensku þegar skýr erlendur hreimur heyrist hjá viðmælandanum; fólk hefji jafnvel samtal við ókunnuga á ensku ef það telur sig merkja að þeir séu ekki innfæddir.

Íslenskunám aðfluttra strandar ekki endilega á því að þeir vilji ekki læra íslenskuna eða ráði ekki við hana. Það torveldar þeim námið þegar aðrir vilja ekki eða nenna ekki að hlusta. Grace Achieng sagði í erindi sínu að erlendur hreimur í íslensku samtali væri einmitt merki um þol og þrautseigju hjá viðkomandi sem gerði sér far um að þjálfa sig í íslensku.

Innfæddir geta einbeitt sér að því sem þeir vilja koma á framfæri í samtalinu, án þess að eyða orku í að rifja upp og reyna að muna reglur um framburð eða orðaröð. Þeim beita allir án umhugsunar þegar þeir tala móðurmál sitt.

Boðskapur Grace Achieng, sem hún lýsti með yfirskriftinni „Bara hlusta“, var í raun tvíþættur. Það verði að hlusta á sjónarmið innflytjenda og meta að verðleikum framlag þeirra til samfélagsins, og jafnframt brýndi hún sem sé fyrir okkur, sem fengum íslenskuna fyrirhafnarlaust með móðurmjólkinni, að hlusta með athygli og þolinmæði í samtölum dags daglega við þá sem tala íslensku sem annað mál.

Hlustun er vissulega lykilatriði í öllum samtölum hvert svo sem fyrsta mál viðmælenda er. Fólk bregst gjarna jafnóðum við orðum viðmælandans svo að úr verður eðlileg framvinda og samspil. Viðbrögðin birtast ekki síst í fasi og svipbrigðum sem sýna að verið sé að hlusta og meðtaka það sem sagt var. Og endurgjöf í venjulegu samtali getur meira að segja falist í framígripi eða samhliða tali í nokkur hundruð millisekúndur og þá einkum ef viðmælendur þekkjast vel og standa jafnfætis í því tungumáli sem notað er.

Hversdagsleg samtöl eru eins konar samvinna þar sem báðir eða allir aðilar hafa stöðugt hlutverki að gegna og ekki aðeins meðan viðkomandi hefur orðið. Í samtalsfræðum hafa komið fram hugmyndir um ákveðin lögmál um hlutverk viðmælenda og innihald og framvindu samtala. Eitt hið þekktasta er samvinnulögmálið sem lýsir meginreglum um að viðmælendur skiptast á um að koma fram með réttar og skýrar upplýsingar, og í samræmi við tilgang samtalsins. Einnig eru að verki í vel heppnuðum samtölum kurteisislögmál sem lýsa því hvernig viðmælendur halda virðingu sinni og gefa hvor öðrum eða hver öðrum nægilegt svigrúm. Grace Achieng kjarnaði líklega mikilvægt kurteisislögmál með yfirskrift sinni: „Bara hlusta“.