Gran Canaria Friðrik, Björg, Marta Kristín og Kári Jón á ensku ströndinni.
Gran Canaria Friðrik, Björg, Marta Kristín og Kári Jón á ensku ströndinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Friðrik Skúlason fæddist 7. október 1963 í Reykjavík og hefur búið þar alla tíð. „Ég hef mest verið í Hlíðunum, en fyrstu árin voru í Norðurmýrinni og Ljósheimum

Friðrik Skúlason fæddist 7. október 1963 í Reykjavík og hefur búið þar alla tíð.
„Ég hef mest verið í Hlíðunum, en fyrstu árin voru í Norðurmýrinni og Ljósheimum. Ég átti líka heima á Egilsgötu eftir að ég flutti að heiman og við hjónin vorum eitt árið í Breiðholti en erum búin að eiga heima í Hlíðahverfinu í tæp 30 ár. Það er mitt hverfi. Á sumrin var ég oft í sumarbústað foreldra minna í Helgadal nálægt Gljúfrasteini.“

Friðrik gekk í Háteigsskóla, sem þá nefndist Æfingadeild Kennaraskólans, og síðar Langholtsskóla Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og BS-prófi í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Hann stundaði líka nám í sálfræði.

„Þegar ég fór í MH þá ætlaði ég að verða efnafræðingur en svo rakst ég á tölvurnar og þá varð ekki aftur snúið. Ég hafði ekki kynnst tölvunum fyrr, en þá voru einkatölvur ekkert komnar í almenna notkun. Ég var að vissu leyti heppinn með að þetta var við upphaf tölvubyltingarinnar.“ Meðfram háskólanáminu vann Friðrik hjá Reiknistofnun HÍ.

Friðrik hóf að framleiða og selja hugbúnað 1987 – þekktustu forritin voru ritvilluleitunarforritið Púki og ættfræðiforritið Espólín.

„Púkinn er í raun unninn upp úr BS-verkefninu mínu. En svo varð þetta það mikill bisness og tók svo mikinn tíma að ég kláraði aldrei sálfræðina. Ég átti alltaf eftir eina einingu í henni og BA-verkefnið auðvitað.“

Ættfræðiáhugi Friðriks er genetískur og því varð Espólín-forritið til. „Forfaðir minn skrifaði mikla ættfræðibók í kringum 1670 og langafabróðir minn var þekktur ættfræðingur og faðir minn og Sigurður dýralæknir föðurbróðir eru í þessu líka.“

Ættfræðiforritið Espólín þróaðist síðar yfir í samstarfsverkefni með Íslenskri erfðagreiningu, en afrakstur þess varð Íslendingabók, sem flestir landsmenn þekkja. Friðrik er ennþá umsjónarmaður þess. „Espólín-forritið leysti ákveðin vandamál sem voru til staðar, að leyfa mönnum að koma ættfræðigögnum sínum á tölvum á þægilegan hátt sem tók tillit til íslenskra aðstæðna. Erlendu ættfræðiforritin voru sem dæmi hönnuð með ættarnöfn í huga.“

Friðrik stofnaði síðan með eiginkonunni hugbúnaðarfyrirtæki á sviði tölvuöryggismála, en helsta vara þess var veiruleitarforritið Lykla-Pétur (F-PROT). Það fyrirtæki var síðan selt 2012. „Ég byrjaði 1989 að skrifa lítið veiruleitarforrit og það þróaðist yfir í að við vorum með 50 starfsmenn og mörg stórfyrirtæki og menntastofnanir sem viðskiptavini um allan heim. Það voru um milljón notendur á einhverjum tímapunkti. Ég er ekki alveg hættur að vinna, er áfram að halda við þessari tækni, þótt breytingar hafi orðið á eignarhaldinu. Fyrirtækið heitir Varist og er nátengt Opnum kerfum.“

Eftir að þau hjónin seldu fyrirtækið hafa þau ferðast talsvert mikið, bæði innanlands með hundinn sinni, Torres, og erlendis.

„Málið er að öll þessi ár sem við hjónin rákum fyrirtækið, og í raun var það nú Björg sem rak fyrirtækið, ég bara vann þarna, þá höfðum við ósköp lítinn tíma fyrir frí.

Meðal staða sem við höfum heimsótt eru Angkor Wat í Kambódíu og Páskaeyjan, en mig hafði langað til að koma þangað frá því að ég var krakki. Þessi staður er mjög út úr og svo við nefnum fleiri slíka staði þá fórum við til St. Kilda á síðasta ári. Það er mjög sérstakur staður. Síðustu ferðir voru stór ferð um Suður-Ameríku, við vorum í Japan í vor og á næstunni er ferð til Indónesíu og Ástralíu.“

Friðrik var heiðraður sem „tölvumaður 20. aldar“ árið 1999, en að verðlaununum stóðu Rafiðnaðarsamband Íslands, Landssamband íslenskra rafverktaka, Íslenska álfélagið, Tölvuheimar, Rafiðnaðarskólinn og Viðskipta- og tölvuskólinn. Hann hlaut upplýsingatækniverðlaun Skýrslutæknifélagsins árið 2010 og var sömuleiðis gerður að heiðursfélaga þess. Hann hlaut einnig riddarakross fálkaorðunnar fyrir framlag sitt á sviði upplýsingatækni.

Áhugamál Friðriks eru sum hver óvenjuleg, eins og að leita uppi nýjar plöntur úr fjarlægum heimshornum sem geta þrifist á Íslandi, eða að aðstoða fólk við að hafa uppi á ættingjum sínum með DNA prófum, eða að setjast niður og spila hlutverka- eða borðspil með félögum sínum, en það hafa þeir gert í 35 ár.

„Við erum með nokkra landskika hér og þar á landinu. Ég á skógræktarsvæði í Borgarfirði og góðan sumarbústað í Bláskógasveit, rétt hjá Skálholti. Það er heilmikið gróðursett þar en plönturnar sem ég er að leita uppi eru fyrst og fremst mögulegar garðplöntur. Ég hef fundið plöntur m.a. frá Eldlandinu í Suður-Ameríku, Kamtsjatka og Himalajafjöllunum.“

Fjölskylda

Eiginkona Friðriks er Björg Marta Ólafsdóttir, f. 27.4. 1963, viðskiptafræðingur. Þau eru búsett í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Foreldrar Bjargar voru hjónin Ólafur Björgúlfsson, f. 14.9. 1928, d. 5.5. 2006, skrifstofustjóri Tryggingastofnunar ríkisins, og Marta Áslaug Marteinsdóttir, f. 27.9. 1930, d. 29.5. 2015, kaupmaður í Reykjavík.

Dóttir Friðriks og Bjargar er Marta Kristín, f. 17.1. 1996, óperusöngkona. Sambýlismaður: Kári Jón Sigurðsson, í meistaranámi. Þau eru búsett í Vínarborg.

Bróðir Friðriks er Sigurður Darri Skúlason, f. 25.1. 1973, tölvufræðingur í Portúgal.

Foreldrar Friðriks eru hjónin Skúli Jón Sigurðarson, f. 20.2. 1938, síðast framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar flugslysa, og Sjöfn Friðriksdóttir, f. 7.10. 1936, kennari. Þau eru búsett í Reykjavík.