Kirkjufell Eftir athöfnina. Vel tókst til og góð mæting var í svitahofið.
Kirkjufell Eftir athöfnina. Vel tókst til og góð mæting var í svitahofið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listamaðurinn Tolli Morthens stóð á dögunum fyrir svitahofi fyrir fanga á Kvíabryggju. Þetta er í fyrsta sinn sem slík athöfn fer fram við fangelsi hér á landi. Þetta hefur verið stundað í bandarískum fangelsum þar sem fangar úr röðum frumbyggja fá að stunda svett sem hluta af trúariðkun sinni

Ragnhildur Helgadóttir

ragnhildurh@mbl.is

Listamaðurinn Tolli Morthens stóð á dögunum fyrir svitahofi fyrir fanga á Kvíabryggju. Þetta er í fyrsta sinn sem slík athöfn fer fram við fangelsi hér á landi. Þetta hefur verið stundað í bandarískum fangelsum þar sem fangar úr röðum frumbyggja fá að stunda svett sem hluta af trúariðkun sinni. „Þetta er rosalega stórt skref. Að hafa traust og velvild fangelsismálayfirvalda að bjóða okkur að mæta með svettið á stað eins og Kvíabryggju,“ er haft eftir Tolla.

Svitahofið er andleg athöfn sem er til þess fallin að heila bæði líkama og sál. Það á rætur sínar að rekja til menningar frumbyggja Norður- og Mið-Ameríku en hefur verið stundað hérlendis í um 50 ár. Á þeim tveimur áratugum sem Tolli hefur unnið með fangelsunum hefur hann verið með ýmsar nýjungar þar, m.a. hugleiðslu og jóga. Þetta sé þó í fyrsta skipti sem svett fær að rata þangað inn.

Í samtali við Morgunblaðið segir Tolli að vel hafi tekist til og mæting hafi verið góð. Meirihluti fanga á Kvíabryggju tók þátt í athöfninni. „Þetta var mögnuð reynsla, við vorum 14 í tjaldinu, þar af 12 fangar. Hver og einn var með mjög sterkar upplifanir og allir mjög sáttir sem gengu frá borði.“ Tolli er þaulreyndur í að nýta svitahof með fyrrverandi skjólstæðingum Fangelsismálastofnunar eftir að afplánun lýkur. „Við notum þetta mjög mikið og með frábærum árangri.“

Sögulegt skref í rétta átt

„Þetta er stórt skref í áttina að því sem við viljum sjá fangelsismál þróast út í. Að grípa einstaklingana sem koma þar inn og hjálpa þeim að skilja af hverju þeir eru staddir þarna. Við viljum hjálpa þeim að snúa til baka og verða heilir. Menn ná með þessu tengslum við sjálfa sig og sögu sína. Svitahofið er ofboðslega öflugt meðal.“

Tolli segist vera þakklátur fangelsismálayfirvöldum fyrir það traust sem honum er sýnt og stefnir á að endurtaka leikinn reglulega. Hann segir þetta endurspegla viðhorf yfirvalda að vilja færa sig í átt að mannúðar- og heilunarsjónarmiðum í málefnum fangelsa. Atburðurinn sýni að vel sé hægt að stunda svitahof samhliða þeim öryggiskröfum sem gerðar eru innan stofnananna. „Þetta er heilmikið og sögulegt skref í rétta átt sem var stigið þarna.“

Mikilvægt sé að vinna áfram með vistmönnum meðfram svettinu.Tolli leggur áherslu á mikilvægi samtalsmeðferða samhliða slíkum athöfnum. Þannig taki skjólstæðingar fangelsanna þátt í heildrænu ferli þar sem hlúð er að ferðalagi þeirra til baka í samfélagið.

Höf.: Ragnhildur Helgadóttir