Björn Jónas Þorláksson
Björn Jónas Þorláksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Okkur finnst sorglegt ef fólk upplifir skömm gagnvart notkun á heyrnartækjum. Því heyrnartæki breyta lífi margra og upphefja lífsgæði til fyrra horfs

Björn Jónas Þorláksson og Halla B. Þorkelsson

Varst það þú sem uppgötvaðir heyrnarskerðingu hjá sjálfum þér eða var það fjölskyldumeðlimur, vinur eða vinnufélagi sem benti þér varfærnislega á að kannski gæti verið sniðugt að láta mæla heyrnina?

Við erum að tala um feimnismál. Sem varðar svo marga Íslendinga.

Mörg okkar skella skollaeyrum við ábendingum annarra eða vitneskju okkar sjálfra um versnandi heyrn. Við reynum að hlaupa undan þeirri hugmynd að um eðlilega hrörnun sé að ræða sem ekki þarf að skammast sín fyrir. Okkur dettur jafnvel í hug að virði okkar á markaði kunni að vera í hættu ef við sýnum sjálfum okkur – hvað þá öðrum – að við verðum ekki alltaf ung og hraust með öll skilningarvit eldhress líkt og í hraustri og ungri manneskju. Yfir sum okkur leggst sorg og öryggisleysi.

En það er ekkert að óttast. Það er til lausn. Í stað þess að skammast okkar fyrir að fá að þroskast eðlilega megum við í raun þakka fyrir að fá að eldast en fyrsta skref í því að takast á við heyrnarskerðingu getur verið að komast út úr ákveðinni afneitun. Oft blasir lausnin við ef við bara þorum að bera okkur eftir henni. Notkun á heyrnartæki.

Kannski ímyndar sér einhver með skerta heyrn núna að aðrir hafi fordóma gagnvart þeim sem nota heyrnartæki. Hið rétta er að fæstir hugsa þannig enda er notkun heyrnartækja orðin mjög algeng.

Gaman er að segja frá því að samkvæmt reynslu Heyrnarhjálpar gengur flestum sem glíma við heyrnarskerðingu mjög vel að tileinka sér ný tæki og tækni. Það sem mestu varðar er að lífsgæði geta blómstrað á ný með hjálp heyrnartækja eftir kannski langt tímabil af pukri og dempuðum upplýsingum, í raun takmörkuðum skilningi.

Okkur finnst sorglegt ef fólk upplifir skömm gagnvart notkun á heyrnartækjum. Því heyrnartæki breyta lífi margra og upphefja lífsgæði til fyrra horfs. Þess vegna skiptir aðgengi að heyrnarmælingum og heyrnarfræðingum gríðarlegu máli. Er orðið tímabært að heilbrigðiskerfið taki sér tak er kemur að þjónustu og niðurgreiðslum, enda varðar heyrnarskerðing tugþúsundir landsmanna og alltaf fleiri og fleiri eftir því sem hlutfall eldri borgara hækkar í samfélaginu.

Landsbyggðin hefur orðið út undan er varðar stillingu á heyrnartækjum. Átaks er þörf í þeim efnum.

Okkar reynsla er að samræða jafningja á milli geti verið valdeflandi og við hjá Heyrnarhjálp erum til staðar fyrir ykkur. Þetta og fleira til ætlum við að ræða á ráðstefnu sem fram fer þriðjudaginn 10. október næstkomandi í Nauthóli, þar sem Bubbi Morthens og Jón Gnarr verða meðal fyrirlesara. Þeir skammast sín ekkert fyrir að hafa misst heyrn, enda þurfa þeir þess ekki. Fleiri áhugaverð erindi verða flutt og boðið í lokin upp á pallborðsumræður.

Allir velkomnir.

Halla er formaður Heyrnarhjálpar en Björn er rithöfundur og blaðamaður sem styður við átak samtakanna.