Arndís Sigríður Árnadóttir fæddist 12. nóvember 1940. Hún lést 8. september 2023.

Útför Arndísar fór fram 29. september 2023.

Þarna birtist hún í gættinni, gekk hæglátlega inn, kinkaði kolli til starfsfólks og bauð fallega góðan daginn – sveif í áttina til mín með mjúkum hreyfingum ballerínunnar – kankvíst bros og blik í auga. Við hittumst til að leggja línurnar, skipuleggja framhaldið og setja tímaramma, en tími var annars orð sem sjaldan var nefnt okkar á milli. Ástríða fyrir efninu knúði okkur áfram en eftir því sem við komumst lengra áfram þeim mun meira bættist við. Hún hafði rýmri tíma núna, útkoma bókanna tveggja í sjónmáli, bókin hennar um Svein Kjarval og Saga MHÍ, samvinnuverkefni með fleirum. Við ætluðum báðar að bretta vandlega upp ermarnar í vetur, hittast fljótlega aftur og staðráðnar í því að hittast á áhugaverðari stað og ekki síst með betra bakkelsi. „Heyrumst í október þegar við Jón erum komin til baka,“ skrifaði hún mér síðan í tölvupósti.

Það voru þrjár ferðir væntanlegar á næstu tveimur mánuðum og hún vílaði ekki fyrir sér að ætla að hlaupa í skarð og halda erindi á þingi hönnunarsagnfræðinga í Ósló í októberlok. Hún hvatti mig til þess að reyna að slást í för, hvað það yrði nú gaman! Rétt rúmri viku síðar frétti ég að hún væri látin. Ekkert benti til þessa þegar við hittumst, glæsileg eins og alltaf, glöð og spennt fyrir væntanlegum ferðalögum. Það var samt margt sem þyrfti að leysa og skoða betur þegar við færum á fullt aftur. Við ræddum fagið og stöðu þess í víðu samhengi, um heima og geima eins og svo oft áður, fjölskyldur og afkomendur sem henni var annt um. Þetta var árangursríkur og um leið ljúfur fundur og mér afar dýrmætur.

Saman unnum við að rannsókn og ritun á íslenskri hönnun með skorpum og hléum – grunnur að bók í vinnslu og skrif nokkuð á veg komin. Samvinna okkar og vinátta spannar töluvert langan tíma en sérsvið okkar, hönnunarsagan, tengdi okkur saman. Við áttum gott og gefandi samstarf þótt komið hafi fyrir að við tækjumst á um aðferðir, efnistök og nálgun, en alltaf voru málin settluð og leyst. Formlega fór verkefnið af stað upp úr samvinnu okkar við stjórnun sýningarinnar Óvænt kynni, innreið nútímans í íslenska hönnun, í Hönnunarsafninu fyrir tíu árum. Leiðir okkar höfðu þó áður legið saman í ýmsum öðrum verkefnum, gjarnan tengdum safninu enda varð það oft bækistöð vinnu og funda og samvinna og samskipti við starfsfólk þar mikil og góð.

Arndís var sérlega vandvirk og nákvæm og einstaklega vel að sér í fræðunum með fjölbreytilega menntun sem nýttist vel, bæði grunn í hönnun og bókasafnsfræði, hennar vettvangur til fjölda ára áður en hönnunarsagan yfirtók. Hún var alltaf virk og með verkefni í gangi, oftast nokkur í einu, var lifandi og áhugasöm og vel inni í málum. Hún var mér fyrirmynd í mörgu og hennar mun ég sakna sárt sem kollega á okkar fámenna fræðasviði. Söknuðurinn er þó sárastur hjá Jóni og fjölskyldunni og þeim sendum við Ágúst okkar hlýjustu kveðjur. Far vel, elsku Arndís og takk fyrir einstök kynni.

Elísabet V. Ingvarsdóttir.

Kveðja frá MR '60

Það er afar sorglegt að setjast niður til að kveðja skólasystur okkar Arndísi Árnadóttur, degi eftir að við komum heim úr ferð MR '60 til Frakklands.

Addí, eins og við kölluðum hana alltaf, var í bekkjarráði MR '60, og þau skipulögðu þessa ferð eins og aðrar sem bekkurinn hefur farið í saman undanfarinn áratug.

Í þetta skipti varð Addí bráðkvödd þegar við vorum að ganga út af De Gaulle-flugvellinum en ferðinni var heitið til Normandí.

Arndís var bókasafnsfræðingur og starfaði lengst af við uppbyggingu listbókasafns en þegar nálgaðist venjubundin starfslok lauk hún meistaranámi í hönnunarsögu við De Montford-háskólann í Leicester.

Þar lét hún þó ekki námsferli sínum lokið heldur hóf doktorsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hennar, „Nútímaheimilið í mótun“, kom út 2011.

Allt til dauðadags var Arndís virk í sínu fagi. Setti upp margar listsýningar, sem voru vel sóttar, og hélt áfram skriftum, var með þrjár bækur í vinnslu þegar hún lést.

En listaheimurinn var ekki eina áhugsvið Arndísar. Fyrir ári bauð hún bekkjarsystkinum sínum sem voru á ferðalagi að koma við í sumarbústað fjölskyldunnar. Þar kom smekkvísi hennar og fegurðarskyn vel í ljós. Bústaðurinn stendur í landi Suðurkots í Grímsnesi. Þar sem áður voru melar og móar hefur verið ræktaður undurfagur skógur. Enda voru þau hjónin mikið áhugafólk um skógrækt og voru félagar í Skógræktarfélaginu.

Arndís tók ávallt virkan þátt í félagslífi okkar skólasystkinanna, svo nú er skarð fyrir skildi. Eftir standa margar góðar minningar, sem eru mikils virði. Það finnum við æ betur þegar árunum fjölgar.

Blessuð sé minning hennar.

Við í MR '60 sendum Jóni, Böðvari, Ágústu og Einari og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd skólasystkina í MR '60,

Bjarney Kristjánsdóttir.

Hugleiðingar við sviplegt fráfall Arndísar Árnadóttur. Við höfum þekkst lengi, ég minnist hlýlegrar framkomu Arndísar er hún kom og færði mér blóm og lét falleg orð falla um látna dóttur mína Valgerði. Á kortinu stendur: Hún var svo einstök hún Vala. Þessi eftirmæli Arndísar passa að mínu mati sérstaklega vel við hana sjálfa. Lengi störfuðum við saman í stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar, hún var traustur ritari og lagði oft til góðar tillögur. Starfaði við stjórnar- og sjálfboðastörf félagsins, sem við báðar höfum lagt að baki, en alltaf sömu góðu skógræktarfélagarnir. Einar Örn, sonur hennar, starfar nú í stjórn félagsins. Skógræktarfélag Íslands skipuleggur árlega áhugaverðar utanferðir um náttúru og menningu sem við höfum tekið þátt í og fram undan er ferð til Króatíu.

Arndís var innanhússhönnuður og sjálfstætt starfandi fræðimaður, gaf hún út árið 2011 fræðibók á því sviði, Nútímaheimilið í mótun – fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970, í upphafi íslenskrar hönnunarsögu, fróðleg lesning. Áður var Arndís farsæll forstöðumaður bókasafns Myndlista- og handíðaskóla Íslands sem nú er Listaháskóli Íslands. Þar starfaði dóttir mín hjá Arndísi um tíma.

Arndís var einstaklega smekkleg kona og eiga þau Jón fallegt heimili, nú síðari ár í Urriðaholti.

Með innilegri samúð til eiginmanns og fjölskyldu,

Erla Bil Bjarnardóttir, fv. formaður Skógræktarfélags Garðabæjar.

Það er ekki á neinn hallað þegar því er slegið föstu að Arndís Árnadóttir bjó yfir meiri þekkingu og innsýn í íslenska hönnunarsögu en nokkur annar. Hún var tengd Hönnunarsafni Íslands frá stofnun þess, sem starfsmaður í skráningu, sýningarstjóri ýmissa sýninga, fyrirlesari, fræðimaður og félagi. Á safninu hafði hún undanfarin ár haft aðstöðu til að vinna að verkefnum tengdum rannsóknum á íslenskri hönnunarsögu og undirbúningi á útgáfum því tengdum.

Árið 2011 lauk hún við doktorsverkefni sitt, Nútímaheimilið í mótun: fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970 úr Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Verkefnið var gefið út á bók sem reynst hefur okkur í Hönnunarsafninu nokkurskonar biblía og er ómetanlegt framlag til rannsókna á íslenskri hönnunarsögu. Áður hafði Arndís byggt upp af glæsibrag bókasafn Myndlista- og handíðaskóla Íslands, sem síðar varð að Listaháskóla Íslands, en hún var lærður bókasafnsfræðingur. Arndís var fagmanneskja fram í fingurgóma og vandaður rannsakandi. Hún vann ötullega að uppbyggingu þekkingar á hönnunarsögu Íslendinga allt fram á síðasta dag og skilur eftir sig einstaklega mikilvægt framlag.

Við gátum alltaf leitað til hennar með vangaveltur og spurningar tengdar gripum sem buðust safninu eða varðandi nöfn sem við þekktum ekki nægilega vel. Yfirleitt gat hún leyst úr málunum eða bent okkur á réttar brautir. Ein stærsta sýning sem Arndís vann að sem sýningarstjóri fyrir safnið var yfirlitssýningin Það skal vanda sem lengi á að standa um Svein Kjarval húsgagnahönnuð, sem sett var upp árið 2021. Vinnan við sýninguna og við bókina um Svein, sem er nú væntanleg, var skemmtileg og gefandi í samstarfi við Arndísi.

Okkur er minnisstæður glampinn í augunum þegar Arndís komst í eitthvað óvænt og áhugavert varðandi rannsóknarefni sín. Endalaus áhuginn, vönduð og skipulögð vinnubrögð einkenndu hana alla tíð. Hún átti það til að brýna okkur til dáða og jafnvel mætti segja að stundum segði hún okkur til syndanna þegar henni þótti nóg um eða að hægt gengi með einhver mál. Það var þó brosið og glettnin sem réð ríkjum í okkar samskiptum. Arndís var glæsileg kona og okkur fyrirmynd í því að láta ekki hluti eins og aldur skilgreina okkur. Heldur að gera það sem kveikir hjá okkur áhuga og vekur glampa í augum.

Þegar Arndís féll frá var hún á lokametrunum með tvær bækur, á leið í ferðalag til Frakklands með Jóni eiginmanni sínum og samstúdentum úr MR og ætlaði svo á ráðstefnu um skógrækt í Kanada. Eftir það var ferðinni heitið til Oslóar á ráðstefnu fræðimanna í hönnunarsögu. Hún var full tilhlökkunar.

Arndís var og er hluti af Hönnunarsafni Íslands, við erum þakklátar fyrir góð og gefandi kynni.

Hugur okkar er hjá fjölskyldu Arndísar og þá sérstaklega Jóni en þau voru mjög samrýmd hjón.

Sigríður og Þóra í Hönnunarsafni Íslands.

Á sunnudagsmorgni settist ég við bókahilluna mína og tók út bók af handahófi. Fyrir valinu varð Nútímaheimilið í mótun. Ég fletti bókinni, doktorsritgerð Arndísar, og varð hugsað til hennar og þeirra heimilda sem hún sagðist hafa safnað og ætti eftir að vinna úr. Þetta er falleg bók og fróðleg, frumkvöðlaverk og mikilvægt framlag til íslenskrar hönnunarsögu. Ég hlakkaði til að sjá framhaldið. Tveimur tímum síðar frétti ég snöggt andlát Arndísar.

Arndís var fræðimaður og fagmanneskja fram í fingurgóma. Ég var svo heppin að njóta leiðsagnar hennar á þrjá vegu, sem nemandi í bókasafnsfræði, sem myndlistarnemandi og bókasafnsnotandi og sem samstarfsmaður. Hún var framúrskarandi kennari, hafsjór af fróðleik á sínu sviði og góð fyrirmynd. Það var gaman í tímum hjá henni. Hún hafði einstakt lag á að vekja áhuga og af því hef ég reynslu bæði sem nemandi og að fylgjast með henni aðstoða aðra bókasafnsgesti. Til viðbótar við hefðbundinn skipulagðan safnkost safnaði hún gögnum og skjölum, vissi hvar alls kyns torfundnar upplýsingar væri að finna og hvar ætti að leita. Hún naut þess að miðla upplýsingum.

Arndís var menntuð í lista- og hönnunarsögu, innanhússhönnun og bókasafnsfræði. Menntun hennar var einstaklega góður grunnur fyrir að starfa og stýra listbókasafni. Það var því mikill happafengur fyrir Myndlista- og handíðaskóla Íslands (MHÍ) að ná í jafn hæfan og áhugasaman starfsmann þegar farið var að skipuleggja bókasafnsþjónustu skólans árið 1974. Arndís lagði metnað í að gera allt sem best úr garði og byggja upp, stundum við þröngan kost, fyrirmyndar bókasafn og upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara skólans, auk allra annarra sem þangað leituðu. Bókasafn MHÍ varð síðar megingrunnurinn að bókasafni Listaháskóla Íslands undir hennar stjórn.

Arndísi var umhugað um að bæta aðgang að listupplýsingum í því skyni að auðvelda rannsóknir og fræðslu. Hún tók virkan þátt í samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Sem dæmi má nefna efnisorðaskrá yfir myndlist og skyldar greinar og skrá yfir söfn, stofnanir og einstaklinga sem eiga töluvert safn bókverka. Þá ritstýrði hún skrá yfir íslenskar listheimildir fyrir gagnasafnið BHA (Bibliography of the History of Art) og tók virkan þátt í norrænu samstarfi listbókasafna (ARLIS/Norden) en bókasafn MHÍ var að hennar frumkvæði aðili að samtökunum frá stofnun 1986.

Arndís var glæsileg kona með fágaða framkomu. Hennar verður minnst sem einnar af frumkvöðlum í stétt bókasafnsfræðinga hér á landi. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Gunnhildur Kristín Björnsdóttir.

Arndís S. Árnadóttir var glæsileg kona, há og grönn, ávallt smekklega klædd og yfir henni mikil reisn. Hún var mikill fagurkeri og hafði næmt auga fyrir hönnun og handverki. Áhugi hennar á því sviði og á sögunni að baki hverjum hlut leiddi hana áfram í námi og starfi; í innanhússhönnun í Bandaríkjunum, í MA-námi í hönnunarsögu í háskóla á Englandi og doktorsnámi í sagnfræði. Doktorsritgerð sína varði hún árið 2011, sjötug að aldri. Ritgerðin, „Nútímaheimilið í mótun – fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970“, kom út á bók og er fjársjóður fyrir þá sem hafa áhuga á húsgagnahönnun og hönnunarsögu.

Arndís hefur á undanförnum árum sett upp sýningar í Hönnunarsafni Íslands og flutt erindi, meðal annars um húsgagnahönnun Sveins Kjarval. Á næstunni lítur dagsins ljós bók um Svein sem er afrakstur rannsóknarvinnu hennar.

Önnur bók sem Arndís hefur unnið að síðustu ár er saga Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þar starfaði hún í mörg ár á bókasafni skólans og bar hlýhug til nemenda sem hún kynntist á þessum árum.

Arndís var ættrækin og samband hennar og Tryggva bróður hennar var mjög náið. Í samvinnu við dóttur Tryggva, Guðrúnu, ritaði hún fræðigreinar í bók um ættföður þeirra sem heitir „Lífsverk, þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar“. Bókin er mikið listaverk og ber vináttu og frændsemi þeirra Guðrúnar fagurt vitni.

Arndís ræktaði líka vináttu- og fjölskyldubönd með Jóni eiginmanni sínum. Þau voru samrýmd og samhent hjón og glöddust með fjölskyldu og vinum við hátíðleg tækifæri. Arndís innréttaði heimili þeirra á einstaklega smekklegan hátt. Hlutir og húsgögn fengu töfraljóma eins og veitingar sem voru valdar og fram bornar af smekkvísi.

Töfrar eru orð sem líka má nota um sælureit þeirra hjóna á bökkum Hvítár í Árnessýslu. Þar stunduðu þau skógrækt og hafa gróðursett trjáplöntur í þúsundatali á áður gróðurlausu landi sem nú er orðið að fallegum og fjölbreytilegum skógi. Í sveitinni buðu þau til afmælisveislu Nonna ár hvert í júlí og Addí fór þá gjarnan með gesti í gönguferðir um landareignina, rifjaði upp æskuminningar og sagði frá því sem fyrir augu bar. Mikill skógræktaráhugi dró þau Nonna í ferðalög til annarra landa með skógræktarfólki og þann 23. þessa mánaðar var fyrirhuguð ferð til Króatíu.

Útivist, hreyfing og hollt mataræði voru meðal þess sem Addí hafði áhuga á. Ung að árum lærði hún ballett í Þjóðleikhúsinu og síðustu árin var hún í sundleikfimi sem hún lét vel af. Við minnumst pílagrímsgöngu sem við fórum í með henni fyrir nokkrum árum, göngu frá Apavatni í Skálholt. Í hennar augum var hækkandi aldur engin fyrirstaða. Lífsverk Arndísar er mikið og merkilegt enda var hún sístarfandi og eljusemi hennar einstök.

Að leiðarlokum minnumst við ánægjulegra samverustunda, góðra, vel valinna gjafa og hlýhugar sem Addí sýndi okkur og fólkinu okkar alla tíð. Við nutum líka í gegnum tíðina góðrar aðstoðar hennar við innanhússhönnun, bæði á heimili og á vinnustað.

Við biðjum Guð að blessa minningu Arndísar S. Árnadóttur.

Anna og Viðar.