Rjúpa Ófriður af mannavöldum blasir við rjúpu 20. okt.-21. nóv. nk.
Rjúpa Ófriður af mannavöldum blasir við rjúpu 20. okt.-21. nóv. nk. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Rjúpnaveiðar verða heimilar 20. október til 21. nóvember nk. samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem kunngjörð var í gær

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Rjúpnaveiðar verða heimilar 20. október til 21. nóvember nk. samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem kunngjörð var í gær. Er hún í samræmi við tillögu Umhverfisstofnunar þar um.

Veiðarnar verða takmarkaðar að því leyti að í hverri viku má aðeins veiða frá föstudegi til þriðjudags innan tímabilsins, en veiði er bönnuð miðvikudaga og fimmtudaga. Áfram er lagt bann við sölu rjúpu, hvort heldur er til endursöluaðila eða annarra.

Í fréttatilkynningu er haft eftir ráðherranum að hann bindi vonir við nýja stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rúpnastofninn, sem unnið er að. Þeirri vinnu sé ekki lokið og verði fram haldið í vetur. „Ég bind miklar vonir við að stjórnunar- og verndaráætlun og nýtt stofnlíkan muni gera veiðistjórnun fyrir rjúpuna gegnsærri og fyrirsjáanlegri í framtíðinni,“ segir Guðlaugur Þór, en með nýju líkani er m.a. ætlunin að efla faglegan grunn veiðistjórnunar.

Þar segir einnig að stefna stjórnvalda sé að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær og að veiðimenn stundi hóflega veiði til eigin neyslu.

Bent er á að verndarsvæði rjúpu á Suðvesturlandi sé hið sama og áður, en hafin sé vinna við endurskoðun þess.