Ná okkar menn að fagna sigri á Lúxemborg á föstudaginn?
Ná okkar menn að fagna sigri á Lúxemborg á föstudaginn? — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðlegur sjónverndardagur er á fimmtudaginn, 12. október, og dagur hvíta stafsins á sunnudaginn eftir viku, 15. október. Blindrafélagið efnir af því tilefni til sérstakrar sjónlýsingarviku. Tilgangur vikunnar er að kynna og vekja athygli á…

Alþjóðlegur sjónverndardagur er á fimmtudaginn, 12. október, og dagur hvíta stafsins á sunnudaginn eftir viku, 15. október. Blindrafélagið efnir af því tilefni til sérstakrar sjónlýsingarviku. Tilgangur vikunnar er að kynna og vekja athygli á mikilvægi sjónlýsinga, en sjónlýsingar eru að verða sífellt algengari við framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsefni, listasýningum, íþróttakappleikjum og fleiri menningarviðburðum.

Vikan hefst á morgunverðarfundi um sjónlýsingar á þriðjudaginn kl. 8:30. Á miðvikudaginn og fimmtudaginn verður maraþonáhorf í sal félagsins klukkan 16:30 á þáttaseríunni Brot – The Valhalla Murders með sjónlýsingu. Á föstudaginn kl. 18.45 verður sjónlýsing á landsleik Íslands og Lúxemborgar í undankeppni EM karla í knattspyrnu. Á laugardaginn verður sjónlýstur safnadagur, það er sjónlýsing fyrir blind og sjónskert börn, á Þjóðminjasafninu klukkan 13 undir leiðsögn en einnig verður boðið upp á sjónlýsingu á Listasafni Íslands kl. 14 undir leiðsögn. Loks verður sjónlýsing í Bíó Paradís á barnamyndinni Apastjörnunni á sunnudaginn kl. 15:00 og kvikmyndinni Svar við bréfi Helgu klukkan 17.