Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson
Samkeppniseftirlitið hefur enn ekki endurgreitt sautján og hálfa milljón króna, sem því höfðu þegar verið greiddar vegna ólögmætrar verktöku SKE gegn greiðslu að beiðni Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra við athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi

Samkeppniseftirlitið hefur enn ekki endurgreitt sautján og hálfa milljón króna, sem því höfðu þegar verið greiddar vegna ólögmætrar verktöku SKE gegn greiðslu að beiðni Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra við athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi.

„Endurgreiðsla á greiðslum matvælaráðuneytisins vegna þess samnings sem þú spyrð um er í ferli,“ svarar Páll Gunnar blaðamanni, en fer ekki nánar út í það hvað endurgreiðslan útheimti. Úrskurður um að athugunin væri ólögmæt féll fyrir átján dögum, en þegar daginn eftir lýsti SKE því yfir að forsendur verktakasamningsins væru brostnar. Páll Gunnar segir að SKE muni upplýsa nánar um það og sitthvað fleira eftir helgi.

Páll Gunnar staðfesti að tiltekin fyrirtæki hefðu, líkt og Morgunblaðið greindi frá í gær, krafist þess að SKE skilaði gögnum, sem safnað var í hinni ólöglegu athugun, eða eyddi þeim eftir atvikum. „Þær beiðnir eru til meðferðar,“ segir hann og gerði ráð fyrir niðurstöðu eftirlitsins um það eftir helgi.

Að sögn Páls Gunnars var fundur í stjórn SKE á föstudag fyrir viku þar sem fjallað var um athugunina og úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála um ólögmæti hennar og beitingu SKE á dagsektum í þágu annars stjórnvalds. Annað vildi hann ekki segja um fundinn, en Morgunblaðið hefur lagt fram upplýsingabeiðni um fundargerðir. Páll Gunnar segir hana í vinnslu og að svara megi vænta eftir helgi.

Áhöld hafa verið um hverjir sitji í raun í stjórn SKE; einn stjórnarmaður kvaðst hafa sagt af sér, en var áfram sagður í stjórninni á vef SKE. Páll Gunnar staðfesti að Katrín Helga Hallgrímsdóttir hefði sagt sig úr stjórn frá og með 1. september. Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra hefði ekki enn skipað stjórnarmann í hennar stað, en að svo stöddu taki varamenn sæti hennar, þær Ragnhildur Jónsdóttir og Helga Reynisdóttir, en þriðji varamaðurinn er einnig óskipaður. Upplýsingar um þetta á vef SKE voru uppfærðar í gær.