Reykvíkingar vöknuðu upp við það að fjallahringurinn hafði gránað niður í miðjar hlíðar. Varla var mánuður liðinn frá því menn fögnuðu því að skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni hafði bráðnað á mildu en fremur síðbúnu sumri.
Reykvíkingar vöknuðu upp við það að fjallahringurinn hafði gránað niður í miðjar hlíðar. Varla var mánuður liðinn frá því menn fögnuðu því að skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni hafði bráðnað á mildu en fremur síðbúnu sumri. — Morgunblaðið/Eggert
Útlendingastofnun er með um 1.200 óafgreiddar umsóknir um alþjóðlega vernd frá fólki, sem hingað er komið frá Venesúela. Nýir úrskurðir kærunefnda útlendingamála hafa breytt stöðu þess, en fram að því fékk það sjálfkrafa vernd

30.9.-6.9.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Útlendingastofnun er með um 1.200 óafgreiddar umsóknir um alþjóðlega vernd frá fólki, sem hingað er komið frá Venesúela. Nýir úrskurðir kærunefnda útlendingamála hafa breytt stöðu þess, en fram að því fékk það sjálfkrafa vernd.

Ekki er ljóst hvort umræddur úrskurður sé afturvirkur, en hann er byggður á því að aðstæður í Venesúela séu þolanlegar, ekki þannig að gervallri þjóðinni sé bráð hætta búin líkt og áður var afstaðan.

Yfirheyrslum í Bankastrætis Club-málinu lauk fyrir héraðsdómi í svallsölum Gullhamra í Grafarholti. Urðu menn margs vísari um undirheimamenningu Reykjavíkur og svonefndan „latínó-hóp“, en eiginlega minna um atburðarásina og aðdraganda hennar.

Björn Leifsson líkamsræktarfrömuður áætlar að það kosti 10-12 milljarða króna að reisa hótel, baðlón og leikfimisal á Fitjum í Njarðvík. Hann vonast til þess að geta opnað 2026.

Lögregla og björgunarliðar kvarta undan því að fólk noti flugelda oftar en skyldi, m.a. í brúðkaupum og ámóta samkvæmum og jafnvel neyðarblys, sem valdi óþarfa útköllum og áhyggjum.

Alþjóðahafrannsóknastofnunin (ICES) leggur til fjórðungs samdrátt í veiði á norsk-íslensku síldinni.

Mjólkurverð til bænda hækkaði um 2% í tæpar 130 krónur lítrinn. Neytendur greiða liðlega 205 kr. fyrir mjólkurfernuna.

Háhyrningurinn í Gilsfirði var aflífaður þegar útséð þótti um björgun hans af grynningunum. Enginn mótmælti.

Lík uppgötvaðist í smábátahöfninni í Reykjavík, en ekki talið að þar hafi neitt misjafnt átt sér stað.

Skáldið Guðbergur Bergsson var kvaddur með viðhöfn í Hörpu.

Biðlisti Bugl hefur styst um helming frá því í upphafi árs. Þar biðu 124 börn þá aðstoðar, en núna bíða 49 þjónustu. Listinn hefur ekki verið styttri síðan 2006, en árangurinn þakka menn skipulagsbreytingu og auknum fjárframlögum.

Ánægjan er ekki jafnmikil á Suðurnesjum, en könnun á viðhorfum fólks á bráðaþjónustu í heimabyggð leiddi í ljós að suður með sjó er óánægjan með ástandið mest.

Hætt er að afgreiða eldsneyti á farartæki við Litlu kaffistofuna á Sandskeiði, en þar má enn fá lútsterkt og ilmandi kaffi.

Laxi var aftur slátrað á Djúpavogi eftir talsvert hlé eftir að ISA-veira greindist í kvíum í Ice Fish Farm í Reyðarfirði og Berufirði í vor.

Bræðurnir og kaupmennirnir í hverfisversluninni Kjötborg á Ásvallagötu í Vesturbænum íhuga að stytta afgreiðslutímann, en nýjar reglur um gjaldskyldu bílastæða gera bæði þeim og viðskiptavinunum erfitt fyrir.

Svokölluð „gullhúðun“, óþörf útvíkkun laga og reglugerða frá Evrópusambandinu í meðförum Alþingis, hefur haft í för með sér tugmilljarða króna kostnað fyrir atvinnulíf og neytendur, en ávinningurinn óljós ef nokkur. Kveður svo rammt að þessu að jafnvel Brussel blöskrar en möppudýrin í Reykjavík mala.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra boðaði breytingar á útlendingalögum til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndunum. Ólíklegt er talið að það verði stjórnarfrumvarp.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði öðru sinni frá dómi ákærulið um hryðjuverk í hryðjuverkamálinu svonefnda, sem þá verður eiginlega að finna annað heiti.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram aðgerðaáætlun í fiskeldi fram til ársins 2040 og ekki að efa að um hana mun ríkja víðtæk sátt alþjóðar líkt og annað það sem ráðherrann fæst við.

Uppnám varð í vínstúku héraðsdóms Reykjavíkur í Gullhömrum í Grafarholti, þegar aðalsakborningur í Bankastrætis Club-málinu dró játningu sína til baka. Dómarinn skammaði lögmann hans fyrir vikið, en átta ára fangelsis er krafist yfir skjólstæðingi hans.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra telur að endurskoðun á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins ætti að liggja fyrir í nóvember og telur óþarfa að hætta við borgarlínuna þótt enginn peningur sé til fyrir henni.

Kaupmáttur er á niðurleið annan ársfjórðunginn í röð. Er þá litið hjá dæmalausum uppgangi hans undanfarinn áratug, langt umfram framleiðniaukningu og langt umfram helstu samanburðarlönd.

Af því tilefni kynnti verkalýðsforystan áform um að krefjast mikilla launahækkana og fjögurra daga vinnuviku. Fari sem horfi mun dágóður hluti verkalýðsins fá núll daga vinnuviku upp úr krafsinu.

Kristrún Frostadóttir kynnti áform um ný markmið í heilbrigðis- og öldungamálum, sem hún vill hrinda í framkvæmd á næstu kjörtímabilum. Með fylgdu hreinskilnisleg loforð um 50 milljarða skattahækkanir.

Um 300 milljarða fjárfestingar eru fyrirhugaðar í fiskeldi í Ölfusi.

Undirbúningur umhverfismats og skipulagsbreytinga vegna Sundabrautar er hafinn á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar, en viðbrögð íbúa eru blendin.

33 ára maður, Anthony Milligan Guðnason, varð fyrstur frá árinu 2018 til þess að útskrifast hér á landi með sveinspróf í skósmíði.

Bergþór Ólason, annar örfárra þingmanna til þess að tjá sig um ólöglega stjórnsýslu matvælaráðherra og Samkeppniseftirlitsins (SKE), telur annað ólíklegt en að yfirstjórnendur SKE þurfi að víkja vegna hneykslisins.

Heilbrigðiseftirlitið réðst til inngöngu í afvikinn matvælalager og fargaði nokkrum tonnum af keti, kælivöru og þurrvöru, sem því leist illa á. Eftirlitið var hins vegar ófáanlegt til að segja hvaða einstaklingur eða fyrirtæki ætti í hlut eða hvert herlegheitin væru seld, sem neytendur þurfa þó nauðsynlega að vita.

Hafró lagði til að engar loðnuveiðar yrðu á þessari vertíð.

Borgarsögusafn hefur lagt til að fjórar bensínstöðvar í Reykjavík verði friðaðar, þar á meðal við Ægisíðu.

Samkeppniseftirlitið hafði Persónuvernd ekki með í ráðum við athugun sína á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi þótt þar væri vélað með persónuupplýsingar þúsunda manna.

Bjarni Felixson fótboltamaður og íþróttafréttamaður var borinn til grafar að viðstöddu fjölmenni.

Esjan gránaði niður í miðjar hlíðar hvað sem líður hnattrænni hlýnun.

Rafbílar seljast sem aldrei fyrr enda munu þeir hækka töluvert í verði um áramót.

SKE hefur ekki skilað gögnum, sem það aflaði sér með ólöglegum hætti.

Rannsókn á starfsemi tveggja vöggustofa á liðinni öld var kynnt, en ljóst er að þar sættu börn illri meðferð í takt við illa grundvallaðar kenningar fagfólks um barnauppeldi. Óljóst er hvort sanngirnisbætur verði greiddar út.

Stjórnmálaleiðtogar í Evrópu hittust í Granada á Spáni, en þar lagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mikla áherslu á að grænum orkuskiptum yrði hraðað hvað sem það kostaði og að réttlát umskipti yrðu tryggð, hvað sem það nú þýðir.

Stjórnvöld hyggjast hækka gjöld á fiskeldi verulega þó að ný skýrsla um þessa ungu og vaxandi atvinnugrein gefi ekki til kynna að hún hafi svigrúm til slíks.

Forsætisráðherra skammaði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í einrúmi fyrir að telja upp vandræði matvælaráðherra svo aðrir heyrðu. Og sagði svo frá því. Stuðlar veðbanka benda til haustkosninga.