„Það sem átti að vera hófleg bók endar í bók með 800 tilvísunum og aragrúa af heimildum,“ segir Pálmi.
„Það sem átti að vera hófleg bók endar í bók með 800 tilvísunum og aragrúa af heimildum,“ segir Pálmi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann barðist fyrir hugsjónum sínum sem byggðust á því að lifa í sátt við náttúruna, stunda heilbrigða hreyfingu og borða hollan mat. Á þessum tíma þótti þetta algjörlega fáránlegt en í dag, hundrað árum síðar, þykir þetta sjálfsagt mál.

Jónas Kristjánsson var landsþekktur héraðslæknir frá aldamótum til síðari heimsstyrjaldar. Á síðari hluta ævinnar áttu náttúrulækningar hug hans allan. Pálmi Jónasson, sagnfræðingur og fréttamaður, hefur skrifað veglega ævisögu Jónasar, sem er langafi hans; Að deyja frá betri heimi.

Spurður um þennan titil segir Pálmi: „Þessi orð eru grundvallarlífsspeki Jónasar, að við eigum að bæta heiminn.

Í fyrsta tölublaði tímaritsins Heilsuvernd sem Jónas stofnaði og var gefið út í hálfa öld er ávarp frá Jónasi þar sem hann fer yfir hugsjónir sínar. Lokaorðin eru: „Takmark allra þarf að vera það, að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í.““

Bókin um Jónas er mikil að vöxtum, sem var ekki ætlunin í upphafi. „Upphaflega hugmyndin var að gera hóflega bók á grundvelli þeirra gagna sem menn héldu að væru til. Ég fór á héraðsskjalasöfn, rannsakaði kirkjubækur, bréfasöfn, tímarit, blöð og bækur og í ljós kom að það var miklu meira til en talið hafði verið í upphafi. Þetta varð meiri vinna og miklu meira verk en ráðgert var í upphafi. Það sem átti að vera hófleg bók endar í bók með 800 tilvísunum og aragrúa af heimildum,“ segir Pálmi.

Dó vegna vanþekkingar

Jónas fæddist í torfbæ á Snæringsstöðum í Svínadal í Húnavatnssýslu árið 1870. „Þegar hann var ellefu ára gamall var móðir hans nýbúin að eignast áttunda barnið. Hún veiktist og dó frá öllum barnaskaranum. Þetta hafði mikil áhrif á Jónas, sérstaklega af því að hann heyrði lækninn segja að það hefði mátt koma í veg fyrir dauða hennar með eðlilegum sóttvörnum. Þegar Jónas uppgötvaði þarna, nýorðinn ellefu ára, að mamma hans hefði dáið vegna vanþekkingar þá strengdi hann þess heit að verða læknir og tilgangurinn var að koma í veg fyrir að ung börn misstu mæður sínar að óþörfu,“ segir Pálmi.

„Svo tók við hörmungaskeið hér á landi og stór hluti þjóðarinnar gafst upp og flutti til Bandaríkjanna og Kanada. Pabbi Jónasar veiktist og dó, heimilið var leyst upp og eiginlega allir í fjölskyldunni fóru vestur um haf. Jónas ákvað að láta reyna á þann draum sinn að verða læknir og tókst það á endanum. Hann varð læknir 1901 og þá urðu kaflaskil og við tóku ár fram að seinni heimsstyrjöld þar sem hann var hin mikla hetja sem reið um fjallvegi í vonskuveðri til að bjarga mannslífum. Á þessum tíma voru í hverju þorpi fjórar kanónur: sýslumaðurinn, presturinn, læknirinn og ríkasti kaupmaðurinn.“

Pálmi segir Jónas hafa verið hundrað árum á undan sinni samtíð. „Það eru hundrað ár síðan hann hélt mikinn fyrirlestur hjá Framfarafélagi Sauðárkróks sem síðan var gefinn út en þar setti hann kenningar sínar um náttúrulækningar fram með mjög skipulögðum hætti.

Hann barðist fyrir hugsjónum sínum sem byggðust á því að lifa í sátt við náttúruna, stunda heilbrigða hreyfingu og borða hollan mat. Á þessum tíma þótti þetta algjörlega fáránlegt en í dag, hundrað árum síðar, þykir þetta sjálfsagt mál.

Stóri draumur hans alla tíð var að koma í veg fyrir sjúkdóma. Honum fannst erfitt sem læknir að þurfa alltaf að leiðrétta og laga mistök þegar miklu vænlegra væri að koma í veg fyrir að fólk yrði veikt með heilsusamlegu líferni.

Hann notaði aldrei tilbúinn áburð, sykur og hvítt hveiti var eitur í hans huga og sama átti við um kaffi og ekki síst áfengi og tóbak. Hann var mikið á fjöllum og uppi á öræfum. Hann var í guðspekifélaginu og fór á miðilsfundi. Hann talaði mikið um guð og trú án þess að vera kirkjurækinn. Hann var leitandi sál sem fyrst og fremst trúði á náttúruna sem græðandi alheimsafl. Maðurinn og inngrip hans í náttúruna var hið eyðandi afl.“

Kallaður skítalæknir

Jónas varð að þola mótlæti og andstöðu vegna áherslna sinna. „Ég rek þá gagnrýni sem hann varð fyrir í samfélaginu og innan Náttúrulækningafélagsins en þar voru miklar deilur alla tíð um hvert ætti að stefna,“ segir Pálmi. „Jónas var kallaður arfalæknirinn eða skítalæknirinn og hugmyndir voru uppi um að reka hann úr læknafélaginu fyrir boðskapinn og gagnrýni hans á lækna fyrir að auglýsa sígarettur í Læknablaðinu.

Hann var sagður vera á móti landbúnaði og rollum í landinu og orðaður við nasisma og Hitler. Ég komst í mörg bréfasöfn. Þar á meðal er bréfasafn Íslendingafélagsins í Þýskalandi sem var mjög hallt undir nasisma og sendi Adolf Hitler árnaðaróskir á afmæli hans og fékk til baka undirskrifað þakkarbréf frá Hitler. Jónas var í sambandi við formann félagsins en í bréfasöfnum þess er hvergi að finna nokkuð sem bendlar Jónas við aðdáun á Hitler eða nasismann.“

Jónas varð héraðslæknir á Fljótsdalshéraði um aldamótin og á Sauðárkróki frá 1911. Hann lauk starfsferli sínum rétt fyrir seinni heimsstyrjöld og flutti þá frá Sauðárkróki til Reykjavíkur ásamt eiginkonu sinni Hansínu Benediktsdóttur.

Síðustu tuttugu ár ævi sinnar kynnti hann náttúrulækningastefnuna. Hann hafði jafnframt læknisstörfum boðað hreinlæti, hollustu og hreyfingu en gerði það nú með skipulegum hætti og innan vébanda Náttúrulækningafélags Íslands, sem hann hafði stofnað á Sauðárkróki árið 1937. Að frumkvæði Jónasar tók Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði til starfa árið 1955.

„Það sést á mynd af honum 85 ára gömlum við opnun Heilsustofnunarinnar, þar sem hann ljómar af stolti, að ævistarfið er fullkomnað,“ segir Pálmi.

Bókinni lýkur þegar Jónas Kristjánsson lést 90 ára gamall á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. En dó hann frá betri heimi?

„Að hans mati gerði hann það klárlega,“ segir Pálmi. „Hann barðist fyrir hugsjónum sínum um heilbrigt líf í sátt við náttúruna og vildi reisa heilsuhæli og það tókst. Hann náði ansi mörgu fram sem hann stefndi að.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir