Fundvís Feðginin Harpa og Þór með myntina fornu sem þau fundu á ferð sinni um Þjórsárdal á dögunum.
Fundvís Feðginin Harpa og Þór með myntina fornu sem þau fundu á ferð sinni um Þjórsárdal á dögunum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Ég fór nú bara að hlæja og sagði við pabba að það myndi ekki nokkur maður trúa þessu, að tveir þjóðminjaverðir væru saman á ferð og fyndu grip sem þennan,“ segir Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég fór nú bara að hlæja og sagði við pabba að það myndi ekki nokkur maður trúa þessu, að tveir þjóðminjaverðir væru saman á ferð og fyndu grip sem þennan,“ segir Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður.

Harpa var á göngu um Þjórsárdal á dögunum ásamt föður sínum, Þór Magnússyni fyrrverandi þjóðminjaverði, þegar hún rakst á forna mynt sem virðist vera minnst þúsund ára gömul. Uppruni myntarinnar hefur ekki verið staðfestur en frumrannsóknir benda til þess að hún sé frá tímum Haraldar blátannar sem var konungur Danmerkur á árunum 958 til 987.

Harpa segir í samtali við Morgunblaðið að þau feðgin hafi ætlað að fara upp í Þjórsárdal í allt sumar en létu loks slag standa í liðnum mánuði. Hún kveðst hafa átt erindi þangað upp eftir enda er hún að taka sæti í hússtjórn Þjóðveldisbæjarins og vildi rifja upp kynni sín af staðnum. Ekki þótti henni síðra að njóta samvista við föður sinn og hlusta á staðarlýsingar hans og fleira þar. „Við fórum víða en það var auðvitað hann sem valdi þá átt sem við fórum í þegar við römbuðum á peninginn. Ég var bara að elta hann,“ segir Harpa kímin.

Harpa segist hafa séð eitthvað skína út undan sér, lítið og hringlaga, og þreif það upp. „Þetta var fislétt mynt. Ég rétti pabba hana og þorði varla að segja neitt og hélt kannski að þetta væri einhver spilapeningur eða það væri einhver að gera at í okkur því á augabragði áttaði ég mig á hversu absúrd þetta gæti litið út! Hann sagði hins vegar strax að þetta væri eitthvað merkilegt og var furðu rólegur þegar hann tilkynnti mér að myntin væri örugglega minnst þúsund ára gömul.“

Harpa gætti þess að taka margar myndir af staðnum og skráði allar upplýsingar vel hjá sér eins og fólki er ráðið að gera sem finnur muni sem þennan. Þá hafði faðir hennar samband við Anton Holt sem stýrði myntsafni Seðlabanka Íslands um árabil, hann er ekki á landinu en tók undir við skoðun ljósmyndar að myntin virtist gömul og mögulega dönsk eða norsk. Myntir sem þessi finnast örsjaldan að sögn Hörpu og er um svokallaðan lausafund að ræða. „Við fyrstu skoðun teljum við að myntin sé frá Haraldi blátönn og því þúsund ára gömul. Hún á eftir að fara í skoðun hjá myntsérfræðingum og greina þarf málminn en Þjóðminjasafnið mun leita til systursafns á Norðurlöndunum með slíka greiningu. Við fáum þetta þá vonandi staðfest síðar,“ segir Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður.

Fara þarf varlega ef fólk finnur forngripi

Getur verið hluti af stærri fundi

Forngripir sem finnast á víðavangi eru eign íslenska ríkisins. En til forngripa teljast allir manngerðir hlutir 100 ára og eldri sem fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó, segir Rúnar Leifsson forstöðumaður Minjastofnunar. Hann segir að ef fólk finnur forngrip á víðavangi eigi strax að hafa samband við Minjastofnun Íslands. „Helst á ekki að taka gripinn upp þar sem hann getur verið hluti af stærri fornleifafundi. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að gripurinn sé á sínum stað þegar fornleifafræðingar koma að því hægt er að fá mun meiri upplýsingar ef fornleifafræðingarnir sjá í hvaða samhengi gripurinn er í jörðinni. Jarðvegurinn sem gripurinn finnst í hefur að geyma jafn mikilvægar upplýsingar og gripurinn sjálfur. Hins vegar, ef gripurinn er í hættu, til dæmis vegna þess að hann liggur í fjöru eða það er hætta á að hann týnist aftur, má taka hann með sér en alltaf ætti að reyna að skrá nákvæmlega hvar hann fannst, t.d. með gps-staðsetningu og ljósmynd, góðri lýsingu á umhverfinu eða með því að merkja staðinn á einhvern hátt.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon