Anna Kristín Hannesdóttir er þýðandi og skrifar stundum um bækur sem hún hefur lesið og setur inn á instagram- reikninginn @bokahillan.
Anna Kristín Hannesdóttir er þýðandi og skrifar stundum um bækur sem hún hefur lesið og setur inn á instagram- reikninginn @bokahillan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á bókasöfnum reyni ég að vera dálítið ævintýragjörn og velja út í bláinn, en skáldsögur eða ljóð verða oftast fyrir valinu. Mér finnst fyndnar sögur fyndnar, alltaf sátt þegar ég get skellt upp úr. Ævisögulestur hefur líka unnið mikið á, eða bækur…

Á bókasöfnum reyni ég að vera dálítið ævintýragjörn og velja út í bláinn, en skáldsögur eða ljóð verða oftast fyrir valinu. Mér finnst fyndnar sögur fyndnar, alltaf sátt þegar ég get skellt upp úr. Ævisögulestur hefur líka unnið mikið á, eða bækur byggðar á sönnum frásögnum fólks sem hefur lifað tímana tvenna eða við aðstæður sem eru mér framandi. Gott dæmi er Frjáls eftir Leu Ypi sem ég las í sumar.

Fyrir nokkrum árum ákvað ég að ég hlyti að geta lesið á dönsku og keypti mér kort í Norræna húsinu. Þegar það var farið að ganga nokkuð vel bætti ég norskunni við. Norskan er auðvitað bara íslensk danska, ekkert mál. Með þessu móti hef ég auðgað lestrarupplifunina og er komin með marga norræna höfunda sem ég fylgist með og sendi reglulega hvetjandi hugskeyti (skrifið meira!). Ég vil nefna áhrifaríka bók eftir norska höfundinn Jan Grue sem gefin var út á íslensku fyrir tveimur árum, en það er Ég lifi lífi sem líkist ykkar. Jan er með hrörnunarsjúkdóm og var ekki ætlað langt líf, en hefur blessunarlega afsannað spár lækna og er nú verðlaunaður rithöfundur og heiðursborgari Oslóborgar. Í bókinni segir hann frá lífi sínu, og komnar eru tvær aðrar bækur sem mynda þríleik.

Eins og mörgum finnst mér gott að lesa krimma. Ég nefni höfunda eins og Evu Björgu Ægisdóttur og Pierre Lemaitre sem topphöfunda. Stephen King vel ég oft með mér í ferðalög.

Ég tek ljóðabækur af handahófi og uppgötva oft frábær skáld. Ísland pólerað eftir Ewu Marcinek var frábær, einnig Mars eftir Sunnevu K. Sigurðar, snilld virðist leka úr pennanum hjá Brynju Hjálmsdóttur og Gerður Kristný er í uppáhaldi. Ef þú vilt smásögur mæli ég með Getnaði eftir Heiðu Vigdísi sem kom út í fyrra.

Af rithöfundum sem skrifa á ensku held ég mikið upp á bandarísku höfundana Lily King og Elizabeth Strout sem skrifa afar fallega og stúdera mannlegt eðli. Fay Weldon var frábær og þessa dagana er ég að lesa eftir hana bókina Life force frá 1992.

Að lokum mæli ég með að allir lesi Frankensleiki eftir Eirík Örn fyrir börnin sín á bóka-aðventunni. Hláturþerapía!