Norðurljós Blikandi norðurljós eru mikið sjónarspil og verða brátt sýnileg.
Norðurljós Blikandi norðurljós eru mikið sjónarspil og verða brátt sýnileg. — Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson
Fólk kemur víða að úr heiminum til Íslands til að njóta litadýrðar norðurljósanna. Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland, segir að norðurljósaskoðun sé orðin mjög stór hluti af vetrarferðamennsku á Íslandi

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Fólk kemur víða að úr heiminum til Íslands til að njóta litadýrðar norðurljósanna. Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland, segir að norðurljósaskoðun sé orðin mjög stór hluti af vetrarferðamennsku á Íslandi. „Hún er lykilþáttur í að gera Ísland að ferðamannalandi allt árið og sveiflujafnar komu ferðamanna milli sumars og veturs. Við höfum verið að bjóða upp á norðurljósaferðir í samstarfi við aðra, jeppaferðir sem eru farnar á kvöldin. Norðurljósaspá og skýjahuluspá er skoðuð áður en haldið er af stað,“ segir hann. Ef aðstæður þykja ekki vænlegar er fólki gefinn kostur á að bóka annan dag til að horfa til himins eða að fá endurgreitt.

Vænlegast er að leita ljósanna utan höfuðborgarinnar. „Þar sem það er dimmt.“ Dæmi er einnig um að siglt sé út á sundin til að njóta norðurljósanna. Tímabilið hefst um miðjan október og stendur út apríl. „Dagsbirtan stýrir því en þetta er mjög mikilvægur þáttur í að laða fólk til landsins því þetta er einstakt.“ Kaup á annarri afþreyingu og þjónustu skila sér einnig inn í hagkerfið. „Veturnir hjá okkur eru orðnir stærri en sumarið.“

Veður og aðstæður ráða eðli málsins samkvæmt því hvort ferðamenn ná að sjá norðurljósin dansa yfir landinu. „Þau vekja mikla lukku þegar aðstæður eru góðar en vonbrigðin geta líka verið mikil ef fólk kemur á þeim tíma þar sem engar aðstæður eru til að sjá norðurljós. Það eru dæmi um að fólk sé að koma oftar en einu sinni eða tvisvar til landsins í þeirri von að sjá norðurljós. Fólk sér eitthvað töfrandi við ljósin sem því finnst að það verði að upplifa. Það eru ekki margir staðir í heiminum þar sem þú getur séð þau.“

Samtök ferðaþjónustunnar vinna nú að því að uppfæra gögn um umfang norðurljósaferðamennsku á Íslandi en allt að 3.000 erlendir ferðamenn fara í norðurljósaferðir hér á landi á ári. Fallegt vetrarkvöld kallar á a.m.k. 40 rútur og 40 leiðsögumenn með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á hagkerfið.