Vinir Gói og Pálmi Gests í hlutverkum sínum í Verkinu eftir Jón Gnarr.
Vinir Gói og Pálmi Gests í hlutverkum sínum í Verkinu eftir Jón Gnarr. — Ljósmyndir/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þegar ég tók við þessu verkefni þá var skemmtileg glíma að reyna að finna út um hvað þetta verk væri. Samt var eitthvað sem greip mig, en ég þurfti að leita hvað það var sem fór af stað í maganum á mér,“ segir Hilmar Guðjónsson sem…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þegar ég tók við þessu verkefni þá var skemmtileg glíma að reyna að finna út um hvað þetta verk væri. Samt var eitthvað sem greip mig, en ég þurfti að leita hvað það var sem fór af stað í maganum á mér,“ segir Hilmar Guðjónsson sem leikstýrir Verkinu, nýju leikriti eftir Jón Gnarr, sem sýnt er í Hádegisleikhúsinu í Þjóðleikhúskjallaranum. Guðjón Davíð Karlsson, betur þekktur sem Gói, og Pálmi Gestsson eru þar í hlutverkum tveggja manna í samlitum vinnugöllum sem hafa verk að vinna. Þeir hafa unnið svo lengi saman að þeir gerþekkja hvor annan. Eða hvað?

„Þeir tveir komast ekki af stað með að vinna verkið sem þeir eiga að vinna, og af hverju klára þeir ekki setningarnar? Við þrír, ég, Gói og Pálmi, komumst að því að þetta verk fjallar að miklu leyti um það sem þeir segja ekki. Þeir eru sífellt að ýja að einhverju, þeir tala saman án þess að segja heila setningu. Elsku drengirnir, Gói og Pálmi, þeir eru búnir að standa sig frábærlega í að læra textann, sem er mikil áskorun. Jón Gnarr sagði að sig hefði lengi langað að skrifa svona leikrit, en að hann hefði ekki haft það í sér að skrifa heilt leikrit sem yrði erfitt fyrir leikara að læra. Hann nýtti tækifærið þegar þetta mátti vera svona stutt, verkið tekur ekki nema rúmar tuttugu mínútur í flutningi.“

Hilmar segir að mennirnir tveir í Verkinu, séu mjög viðkvæmir og að þetta snerti m.a. á kvíða og meðvirkni.

„Ekki fer á milli mála hversu takmarkað þeir skilja hvor annan og jafnvel sjálfa sig. Mér fannst skemmtilegt þegar ein manneskja spurði eftir sýningu: „Skilur maður eitthvað yfirhöfuð fullkomlega?“ Ég íhugaði þetta og komst að því að maður telur sig vita hvað fólk sem maður talar við sé að meina, en veit maður það alveg? Ég tek sjálfur eftir að ég og konan mín tölum oft í hálfum setningum en skiljum samt hvort annað upp á hár, eða við höldum það,“ segir Hilmar og hlær.

Hilmar segir að vissulega sé ákveðin áskorun að setja upp verk í Þjóðleikhúskjallaranum, sem er þröngt rými með litlu sviði og mörgum súlum í salnum sem skera sjónlínur.

„Samt er það skemmtileg árskorun og þegar maður er með frábæra leikara þá þarf að beita ákveðinni leiktækni. Leikararnir þurfa að vera meðvitaðir um allan hringinn í salnum og segja söguna svo allir njóti sem sitja á ólíkum stöðum. Mikil nánd er í þessu litla rými á milli áhorfenda og leikara og við það myndast áhugaverð orka, fólk sér minnstu andlitshreyfingar, jafnvel þegar nasavængir leikara bærast. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að fá að vera leikari í leikhúsi og leika alla jafna á stærra sviði, en fá líka að leika í svona hvíslleikhúsi, sem Þjóðleikhúskjallarinn er,“ segir Hilmar sem er að leikstýra í annað sinn á sínum ferli, en hann hefur verið starfandi leikari í rúman áratug.

„Ég leikstýrði Rauðu kápunni í Hádegisleikhúsinu, en mér finnst mjög skemmtilegt að leikstýra og furða mig á að þetta er önnur hlið á sama peningi. Sem leikstjóri held ég áfram að vera sviðslistamaður sem er að segja sögur og ná samtali við áhorfendur. Mér finnst mjög gaman að hafa áhrif á heildarsýninguna, sem felst í leikstjórninni. Gói og Pálmi eru vinir mínir og samstarfsfélagar og við höfum í raun unnið þessa sýningu mikið saman í flæði. Ég bý ekki til nýtt samband og mæti í hlutverki leikstjóra og fer að tala öðruvísi við vini mína, þetta er hópíþrótt og ég trúi á sameiningarkraftinn. Ég reyni að gera þetta að heildarverki okkar þriggja.“ Hilmar segir að Hádegisleikhúsið „List og súpa“ hafi fengið frábær viðbrögð þegar það fór af stað í covidinu, en varð faraldri að bráð. „Þetta er frábær möguleiki fyrir fólk, sérstaklega kvöldsvæfa, að geta mætt um miðjan dag í leikhús, fá sér hádegisverð og njóta þess að horfa á leikrit á meðan.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir