Francis Lee með gullskóinn árið 1972; hann skoraði þá 33 mörk fyrir Manchester City.
Francis Lee með gullskóinn árið 1972; hann skoraði þá 33 mörk fyrir Manchester City. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Francis Lee var milljarðamæringur. Það sætir svo sem engum tíðindum, við erum jú að tala um afburðamann í ensku knattspyrnunni. Nema hvað Lee var upp á sitt besta fyrir 50…

Francis Lee var milljarðamæringur. Það sætir svo sem engum tíðindum, við erum jú að tala um afburðamann í ensku knattspyrnunni. Nema hvað Lee var upp á sitt besta fyrir 50 árum þegar innkoma leikmanna var öllu lakari en í dag. Ugglaust hefur hann haft fyrir salti í grautinn meðan á ferlinum stóð, og jafnvel rjómaslettu líka, en auð sinn byggði hann upp eftir að skórnir voru komnir á hilluna. Og hvernig þá? Með sölu klósettpappírs. Nei, hættu nú alveg! Jú, jú, góðir hálsar, það er dagsatt.

Frumkvöðlaeðlið kom raunar löngu fyrr upp í Lee, en þegar hann var táningur fékk hann lánaðan lítinn vörubíl í nálægu brugghúsi til að safna saman úrgangspappír og fara með í endurvinnslu. Hlýtur hann ekki þar með að hafa verið langt á undan sinni samtíð? Þetta var í kringum 1960. Eftir að sparkferlinum lauk setti hann á laggirnar fyrirtækið FH Lee Ltd. Til að forðast misskilning þá stendur FH ekki fyrir Fimleikafélag Hafnarfjarðar, eins og við eigum að venjast hér við nyrstu voga, heldur Francis Henry, en það var kappinn skírður. Fyrst um sinn sérhæfði fyrirtækið sig í endurvinnslu á pappír og flutningum en færði síðan út kvíarnar og fór að framleiða klósett- og eldhúspappír og plastfilmur. Lee seldi fyrirtækið árið 1984 á 8,35 milljónir punda og nam hagnaðurinn 6 milljónum punda eða ríflega milljarði króna. Já, ekki er upp á blessaðan klósettpappírinn logið. Enda þarfaþing.

Francis Henry Lee fæddist í Westhoughton, Lancashire, árið 1944 og hneigðist snemma til tuðrusparks. Hann var aðeins 16 ára þegar hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Bolton Wanderers árið 1960. Stillti sér þá upp í framlínunni við hlið goðsagnarinnar Nats Lofthouse, sem var 19 árum eldri. Báðir settu þeir ‘ann í 3:1-sigri á Manchester City. Alls gerði Lee 92 mörk í 189 deildarleikjum fyrir Bolton áður en hann var keyptur til Manchester City árið 1967. „Lokabitinn í púslið,“ sagði Joe Mercer knattspyrnustjóri eftir að hafa hóstað upp metfé í sögu félagsins, heilum 60 þúsund pundum. Hvað ætli Erling Haaland sé lengi að þéna þá upphæð í dag? Tvo tíma?

Mercer hafði lög að mæla og City varð enskur meistari um vorið, í annað sinn í sögunni og í fyrsta skipti í 31 ár. Skaust fram úr erkifjendunum í Manchester United á lokametrunum – sem var alls ekki verra. Lee átti heldur betur sinn þátt í afrekinu, skoraði til að mynda 16 mörk, þar af eitt í lokaleiknum gegn Newcastle, þar sem titillinn var geirnegldur. Af öðrum köppum í liði þeirra Borgara þennan vetur má nefna Mike Summerbee, Colin Bell og Neil Young. Nei, Óli Palli, það er ekki þinn maður. Þessi Neil Young var enskur miðherji sem lagði heil 19 mörk á vogarskálarnar meðan City marseraði í átt að þeim stóra. Ekki er vitað hvort hann hélt lagi.

Lee Won Pen

Upp rann raunar blómaskeið á Maine Road. City varð bikarmeistari árið eftir og bæði deildarbikar- og Evrópumeistari bikarhafa vorið 1970. Tveir Skjöllar duttu líka í hús, 1968 og 1972. Meistaratitilinn vann liðið þó ekki aftur fyrr en 2012. Lee var áfram lykilmaður og það var einmitt vítaspyrna hans sem tryggði Evrópubikarinn gegn Górnik Zabrze. Lee var afkastamikil vítaskytta, á til að mynda Englandsmetið yfir mörk skoruð úr vítum á einu tímabili, 15 kvikindi veturinn 1971-72. Hann var líka lunkinn við að sækja þau og hlaut að launum viðurnefnið Lee Won Pen (Lee krækti í víti).

Stundum þótti Lee fara heldur auðveldlega í grasið sem fór ekki vel í harðjaxla þessa tíma. Þannig létu þeir Norman „leggjabrjótur“ Hunter hnefana tala í frægum leik veturinn 1975-1976. Lee var þá genginn í raðir Derby County en Hunter lék að sjálfsögðu með Leeds United. Hópur manna gekk á milli og báðir fengu reisupassann og var til öryggis fylgt hvorum til síns búningsklefa. Hefðu þeir lent í sama rýminu „væri ég líklega að koma út á reynslulausn núna,“ lét Lee hafa eftir sér löngu seinna. „Þetta var enginn leikaraskapur,“ bætti hann við. „Hann ýtti í öxlina á mér, sló mig síðan og sprengdi á mér vörina með gullhringnum sínum.“ Sauma þurfti fjögur spor í vörina á Lee sem úrskurðaður var í fjögurra vikna bann í framhaldinu.

Hafið þið ekki séð þessa rimmu skora ég á ykkur að fara þegar í stað á YouTube; þið þurfið raunar að staðfesta áður en þið horfið að þið séuð lögráða og ekki viðkvæmar sálir. Ég bíð á meðan.

Jæja, velkomin aftur! Alvöru bardagi, ekki satt? B-O-B-A! En Lee lék sumsé með Derby síðustu árin. Kom þangað haustið 1974, ósáttur við söluna og launaði City að sjálfsögðu lambið gráa (eða hrútinn gráa, Derby-liðið ber það gælunafn) með því að skora sigurmarkið í fyrsta sinn sem liðin mættust eftir það. Stóð svo uppi sem Englandsmeistari með Derby um vorið. Muniði hver stýrði Derby-liðinu þann vetur? Nú segja ábyggilega allir (nema Víðir Sig. og Heimir Karls) Brian Clough, en það er rangt. Það var Skotinn Dave Mackay. Clougharinn gerði Derby að meisturum 1972 en hætti ári síðar.

Lee lék 80 leiki á tveimur árum fyrir Derby og skoraði í þeim 30 mörk. Hann kvaddi með kurt og pí á lokadegi mótsins 1976, með tveimur mörkum í 6:2-útisigri á Ipswich Town. Þá var hann 32 ára sem þóttu bara prýðileg slitgæði á þessum árum, þegar leikir voru fleiri og vellir mun þyngri, jafnvel eins og gömlu kartöflugarðarnir heima yfir háveturinn. Þetta var líka löngu áður en orð eins og „mataræði“ og „jóga“ höfðu heyrst.

Lee lék 27 landsleiki fyrir England og gerði 10 mörk. Hann náði einu stórmóti, HM í Mexíkó 1970, og varð þar fyrsti Englendingurinn til að fá áminningu á HM – fyrir að sparka í Félix markvörð Brassanna.

Árið 1994 keypti Lee hlut í Manchester City og varð í kjölfarið stjórnarformaður félagsins. Stefnan sem hann rak galt þó afhroð og hann hvarf frá borði fjórum árum síðar – með örlítið laskað orðspor. En allt er það gleymt nú þegar Lee er kvaddur hinstu kveðju. Banamein hans var krabbamein.