Snertir marga Samkvæmt erlendum rannsóknum standa um 135 manns að hverjum einstaklingi sem sviptir sig lífi.
Snertir marga Samkvæmt erlendum rannsóknum standa um 135 manns að hverjum einstaklingi sem sviptir sig lífi. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is „Erindið mitt snerist um það hvers virði mannslíf er og þá í rauninni í samhenginu, hver er kostnaður samfélagsins af hverju sjálfsvígi og ofan á það hverju skila sjálfsvígsforvarnir og hver er ávinningurinn fjárhagslega,“ segir Tómas Kristjánsson, doktor í sálfræði og fræðslustjóri Píeta-samtakanna, spurður út í erindi sitt á málþingi samtakanna sem haldið var á miðvikudaginn.

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Erindið mitt snerist um það hvers virði mannslíf er og þá í rauninni í samhenginu, hver er kostnaður samfélagsins af hverju sjálfsvígi og ofan á það hverju skila sjálfsvígsforvarnir og hver er ávinningurinn fjárhagslega,“ segir Tómas Kristjánsson, doktor í sálfræði og fræðslustjóri Píeta-samtakanna, spurður út í erindi sitt á málþingi samtakanna sem haldið var á miðvikudaginn.

Vinna að íslenskri rannsókn

Tómas segir að verið sé að vinna að rannsókn í Háskóla Íslands þar sem meistaranemar í sálfræði reikna út kostnaðinn fyrir Ísland.

„Markmiðið er að nota aðferðafræðina úr þessum erlendu rannsóknum, sem ég studdist við á málþinginu, til þess að reikna þetta fyrir Ísland, þannig að við fáum íslenskar tölur. Hlutverk nemendanna er að skoða mismunandi líkön af svona útreikningum, velja hvað passar best við Ísland og ná svo í tölurnar fyrir Ísland og reikna út kostnaðinn við eitt sjálfsvíg á Íslandi er. Það er svo margt sem hefur áhrif á tölurnar, til að mynda atvinnuleysi, verðbólga, skattprósentur, hversu mikið ríkið niðurgreiðir menntun og hvert meðal-menntunarstig er, hversu lengi fólk vinnur, meðaltekjur, hversu mikið ríkið greiðir af heilbrigðisþjónustu og hversu mikið fólk nýtir hana hefur áhrif þannig að það er svolítið varasamt að taka bara erlendar tölur, þess vegna þarf að gera þetta hér á Íslandi líka.“

Að sögn Tómasar sýna rannsóknir að kostnaður vegna hvers sjálfsvígs hlaupi á hundruðum milljóna króna.

„Það eru tölur þarna frá 430 til 530 milljónum króna en við þurfum að fá þessar tölur á Íslandi líka til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir, eins og stjórnmálamenn og aðrir, um hvað á að verja miklum peningum í sjálfsvígsforvarnir, hverju þær skili og þess háttar.“

Hvert sjálfsvíg snertir marga

Spurður nánar út í kostnaðinn við hvert sjálfsvíg og hvernig hann sé reiknaður út segir Tómas ýmsa þætti spila inn í útreikningana.

„Ef við tölum bara um beinan kostnað þá er það meðal annars í töpuðum skatttekjum yfir líf einstaklingsins og þá þarf að reikna það út frá því hvað fólk sé gamalt, hvað það vinnur lengi og hvert atvinnustigið í landinu er, meðaltekjur og skattprósentur. Skatttekjur eru risastór partur en það er líka mikill kostnaður fólginn í sjálfsvígi fyrir fyrirtæki, þá í þjálfun nýrra starfsmanna því starfsmannavelta kostar meiri þjálfun og minni framleiðni.“

Þá segir hann rannsóknir sýna að í kringum hvern einstakling, sem taki eigið líf, standi 135 aðilar sem verði fyrir beinum áhrifum, þó mismiklum.

„Nánasti hringurinn er mun líklegri til að detta út af vinnumarkaði, fara á örorku, fara í veikindaleyfi, þurfa endurhæfingalífeyri en það er gríðarlegur kostnaður sem fylgir því vinnutapi sem er þá bæði að það þarf að borga annaðhvort örorkubætur eða endurhæfingarlífeyri eða úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Svo líka þá í töpuðum skatttekjum frá þeim einstaklingum þannig að það eru margir þættir sem eru teknir inn,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að þessi þáttur verði einnig skoðaður á Íslandi.

Ekki nægar sjálfsvígsforvarnir

Inntur að lokum eftir því hvort honum finnist nægur peningur settur í sjálfsvígsforvarnir hér á landi segir Tómas það langt í frá.

„Nei, algjörlega ekki. Í öðrum málaflokkum erum við að setja svo miklu meira fjármagn í forvarnir. Umferðaröryggisáætlun fær 750 milljónir á ári, og það deyja um 8-9 í umferðarslysum árlega miðað við tölur síðustu ára, en sjálfsvígsforvarnir, og það er meira að segja nýbúið að auka fjármagnið, fá 40 milljónir og það deyja 40 á ári sem þýðir að það er sett 1 milljón í forvarnir fyrir hvert andlát í sjálfsvígum en það eru settar 100 milljónir í umferðaröryggi fyrir hvert andlát sem verður í umferðinni.“