2007 Mohammadi hefur verið meira og minna í fangelsi í 20 ár.
2007 Mohammadi hefur verið meira og minna í fangelsi í 20 ár. — AFP/Behrouz Mehri
Narges Mohammadi hlaut friðarverðlaun Nóbels í gær fyrir baráttu sína gegn kúgun kvenna í Íran. Mohammadi er 51 árs blaðamaður og er nú í fangelsi í Teheran. Hún hefur varið stórum hluta undanfarinna tveggja áratuga í fangelsi fyrir baráttu sína…

Narges Mohammadi hlaut friðarverðlaun Nóbels í gær fyrir baráttu sína gegn kúgun kvenna í Íran. Mohammadi er 51 árs blaðamaður og er nú í fangelsi í Teheran. Hún hefur varið stórum hluta undanfarinna tveggja áratuga í fangelsi fyrir baráttu sína gegn lögbundinni slæðunotkun kvenna í Íran og dauðarefsingu. Verðlaunin koma í kjölfar mikilla mótmæla í Íran eftir að ung kona, Mahsa Amini, sem var af kúrdískum uppruna, var handtekin fyrir að brjóta strangar reglur um höfuðslæðu og lést í gæsluvarðhaldi.

Berit Reiss-Andersen, formaður norsku nóbelsnefndarinnar, biðlaði til stjórnvalda í Íran um að láta Mohammadi lausa við afhendingu verðlaunanna í gær. „Hugrekki sitt og baráttu hefur hún goldið dýru verði. Hún hefur verið handtekin þrettán sinnum, sakfelld fimm sinnum og dæmd samanlagt til fangelsisvistar í 31 ár auk 153 vandarhagga,“ bætti hún við.

Leiðtogar Frakklands, Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins fögnuðu verðlaununum í gær. Fjölskylda Mohammadi sagði verðlaunin „sögulegt og djúpstætt augnablik fyrir baráttu íbúa Írans fyrir frelsi“. Stjórnvöld í Íran sendu hins vegar út yfirlýsingu eftir afhendinguna þar sem var harmað að verðlaunin væru veitt konu sem hefði margsinnis brotið lög lands síns og sögðu nóbelsnefndina pólitíska.

Mohammadi er einn fimm friðarverðlaunahafa Nóbels sem hafa verið verðlaunaðir meðan þeir sitja í fangelsi. Í fyrra hlaut Hvít-Rússinn Ales Bialiatski verðlaunin, ásamt mannréttindasamtökum í Úkraínu, Liu Xiaobo frá Kína hlaut verðlaunin 2010, Aung San Suu Kyi frá Mjanmar 1991 og Carl von Ossietzky árið 1935.