Aðdáandinn Jimi eltir Sigur Rós víða um heim. Hann varð stjörnusleginn þegar hann fékk að hitta alla meðlimina baksviðs í fyrra.
Aðdáandinn Jimi eltir Sigur Rós víða um heim. Hann varð stjörnusleginn þegar hann fékk að hitta alla meðlimina baksviðs í fyrra. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hressó í Austurstræti beið blaðamanns Jimi McCluskey frá Glasgow, en hann hefur sérstakt dálæti á íslenskri tónlist. Íslenska hljómsveitin Sigur Rós er þar í sérlegu uppáhaldi en hann heyrði fyrst í henni kvöld eitt fyrir nærri aldarfjórðungi

Á Hressó í Austurstræti beið blaðamanns Jimi McCluskey frá Glasgow, en hann hefur sérstakt dálæti á íslenskri tónlist. Íslenska hljómsveitin Sigur Rós er þar í sérlegu uppáhaldi en hann heyrði fyrst í henni kvöld eitt fyrir nærri aldarfjórðungi. Það varð ekki aftur snúið.

Elska allar plöturnar þeirra

„Ég var að keyra heim seint um kvöld og í útvarpinu voru spiluð tvö lög eftir Sigur Rós, af annarri plötu þeirra. Lögin vöktu áhuga minn og seinna sá ég að þeir væru að spila í Edinborg. Þetta var árið 1999,“ segir Jimi og dreif sig auðvitað á tónleikana.

Jimi, sem vinnur á daginn í vískíverksmiðju og sem plötusnúður í hjáverkum, varð alveg heillaður um leið af tónlist Sigur Rósar.

„Ég hef nú verið að fylgja bandinu á túrum þeirra og verð alltaf sorgmæddur eftir hvern túr því ég vona alltaf að þeir haldi áfram að starfa saman sem band. Ég fer alltaf þegar þeir spila í Glasgow og Edinborg og oft fer ég þrjú kvöld í röð. Ég fæ aldrei nóg. Nú er konan mín farin að koma með og í raun öll fjölskyldan mín. Ég hef elt hljómsveitina víðar, til Amsterdam og til London,“ segir hann og nefnir að hann hafi einnig séð Jónsa í Amsterdam þegar hann var á sólótúr.

„Ég hef séð rúmlega tuttugu tónleika á þessum árum og geymi alla miðana. Ég kom til Íslands fyrst árið 2013 til að sjá þá spila en er nú hér í sjöunda sinn,“ segir hann.

„Ég elska allar plöturnar þeirra.“

Algjörlega stjörnusleginn

Jimi var að vonum spenntur að fá að hitta átrúnaðargoð sín og sú ósk hefur ræst.

„Ég hitti fyrst Orra í Edinborg fyrir framan tónleikahöllina og árið 2007 hitti ég Gogga og Jónsa og spjallaði aðeins við þá. Ég hitti svo Jónsa eitt sinn þegar hann var einn á túr og hann elskaði minn skoska hreim. Ég hef svo hitt Orra nokkrum sinnum í viðbót og nýlega hitti ég Hauk Holm, pabba Gogga, og hans fjölskyldu. Það var í fyrra,“ segir hann og segir frá hvernig það vildi til.

„Ég var á tónleikunum í Glasgow og hafði haft með mér stóra bók sem ég vildi fá áritaða; bók sem Sigur Rós gaf út löngu fyrr. Ég sat við gangveginn og konan mín sat hinum megin við ganginn. Ég sá laus sæti rétt hjá og í hléi ákvað ég að færa mig þangað. Þar sat Haukur og ég spurði hann hvort við mættum setjast þar og hann játaði því. Hann fór svo að spjalla við mig og ég sagði honum að ég hefði fylgt eftir hljómsveitinni frá ’99. Ég nefndi við hann að ég vildi fá bókina áritaða og hann reddaði því að ég færi svo baksviðs að hitta meðlimina. Ég var algjörlega stjörnusleginn,“ segir Jimi og brosir.

Ætlar að fá fleiri húðflúr

Ást og aðdáun Jimi á hljómsveitinni má glögglega sjá á líkama hans. Á baki hans má finna þrjú nokkuð vegleg húðflúr sem eru allt myndir frá plötuumslögum Sigur Rósar. Einnig má finna eitt minna á handarbaki hans.

„Ég elska hönnunina á þessum plötum og þessar myndir og ákvað því að húðflúra þær á mig,“ segir hann.

„Hérna sérðu aðeins í engilinn,“ segir hann og dregur aðeins niður kragann á bolnum til að sýna blaðamanni, en síðar sýndi hann mynd af bakinu á sér svo hægt væri að sjá dýrðina betur.

„Ég ætla að fá mér fleiri Sigur Rósar-húðflúr,“ segir Jimi.

Fleiri íslenskar hljómsveitir, tónlistarmenn og tónskáld hafa vakið áhuga Jimi, eins og Hildur Guðnadóttir, Jóhann Jóhannsson, Múm, Sykurmolarnir og Björk.

„Ég hef farið á tónleika með Björk og ætlaði að koma þegar hún átti að spila hér en þeim tónleikum var frestað.“

Hoppípolla í brúðkaupi

Fjölskyldan hefur sannarlega smitast af Jimi, því þegar dóttir hans gifti sig ómaði Sigur Rósar-lag í brúðkaupinu.

„Í staðinn fyrir brúðarmarsinn spilaði strengjasveit lagið Hoppípolla og ég fór nánast að gráta. Dóttir mín sagði að hún ætti frekar að tárfella en ég,“ segir hann og brosir.

„Þetta var alveg stórkostlegt. Öll fjölskyldan hlustar nú á Sigur Rós og vinir mínir líka.“

Jimi kom nú í stutta helgarferð og segist hafa hitt Hauk, konu hans Guðnýju og son þeirra Starra, sem einnig er tónlistarmaður og spilar í hljómsveitinni Virgin Orchestra. Jimi er að sjálfsögðu farinn að fylgjast með þeirri hljómsveit.

„Þau spiluðu nýlega í Glasgow og Edinborg í litlum klúbbum og ég fór að sjá hljómsveitina. Þau er alveg frábær. Ég hef líka spilað bæði Sigur Rós og Virgin Orchestra þegar ég er að vinna sem plötusnúður,“ segir hann.

„Á næsta ári ætla ég að reyna að ferðast meira og elta hljómsveitina þangað sem hún spilar.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir