Jóhann J. Ólafsson
Jóhann J. Ólafsson
Ég hef aldrei séð neinn ráðherra tala jafn illa til skjólstæðinga sinna.

Jóhann j. Ólafsson

Í Morgunblaðið skrifar vinstri kona og ráðherra um sjávarútveginn að skv. könnun álíti 83% almennings að íslenskur sjávarútvegur sé spilltur. Ég hef aldrei séð neinn ráðherra tala jafn illa til skjólstæðinga sinna. Manni verður spurn. Hvers konar endalaus þvæla er þetta? Manni dettur helst í hug að aðeins þeir sem eiga enga aðild að málinu hafi verið spurðir.

Allir vita að íslenskur sjávarútvegur er einhver sá fremsti í heimi að gæðum, afköstum, veðmæti og launum til sjómanna. Hann hlýtur enga opinbera styrki og hefur greitt hæstu skatta fyrirtækja til þjóðfélagsins. Menn einblína á veiðigjöldin, sem bætast við alla skatta, en horfa ekki á skattasporið þ.e. alla fyrirtækjaskattana og launaskatt sem þessi atvinnuvegur skapar.

Ég var sjálfur háseti á togara hér áður fyrr. Öll áhöfnin var vinir og kunningjar. Engin spilling þar. Eigendur útgerðarinnar voru efnaðir menn sem veiddu lax. Þeir átu hann ekki sjálfir en sendu hann um borð til áhafnarinnar eins og góðir skaffarar. Ekkert baknag var í þeirra garð. Enda eintómir heiðursmenn.

Vinstri konan, sem hefur mikinn áhuga á þjóðnýtingu, fullyrðir að fiskiauðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar. „Auðlindin okkar.“ Þetta er mikill misskilningur. Þjóð er ekki lögaðili og getur ekki verið eigandi. Líklega styðst fullyrðing höfundar við 1. gr. laga nr. 138/1990: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“

Eins og fyrr getur getur þjóð ekki verið eigandi. Sá virti lögfræðingur og prófessor Sigurður Líndal taldi þessa lagagrein markleysu. Í mesta lagi getur merking þessara orða laganna verið að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu undir forræði íslensks ríkisvalds. Ef einhvern tímann hefur verið ætlunin að nytjastofnar yrðu eign ríkisins, er löngu búið að nema það úr lögum með seinni lagasetningum. Má í því sambandi benda á grein Guðrúnar Gauksdóttur lögfræðings í afmælisriti Guðrúnar Erlendsdóttur hæstaréttardómara „Eru aflaheimildir eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar?“ Samkvæmt þessari grein Guðrúnar Gauksdóttur bls. 268 eru aflaheimildir (fiskveiðikvótar) skattskyld eign, ófyrnanleg samkvæmt lögum. Kvótar ganga í arf og af þeim er greiddur erfðafjárskattur. Kvótar eru grundvöllur lánstrausts eins og aðrar eignir og þeir ganga kaupum og sölum á milli manna. Kvótaeigendur þurftu að greiða auðlegðarskatt eins og af öðrum eignum sínum. Ekki er hægt að láta menn greiða eignarskatt af eignum ríkisins. Eins og kemur fram hefur löggjafinn veitt kvótaeigendum ýmsan rétt, sem fylgir eignarrétti. Má í þessu sambandi vitna til Jóns Steinars Gunnlaugssonar fyrrverandi hæstaréttardómara: „… tel ég að ákvæðið (1. gr. l. nr. 38/1990) standist ekki, þar sem löggjafinn getur ekki ákveðið í almennum lögum að réttindi, sem uppfylla hin almennu efnislegu skilyrði til að geta talist eign í skilningi stjórnarskrárinnar, skuli ekki njóta verndar 67. gr.“ (nú 72. gr. hennar). Eigandi nýtur verndar 72. gr. stjórnarskrár til dauðadags. Við dauða eiganda færist eignin og vernd hennar til erfingja hans. Það er ólýðræðislegt að löggjafi landsins sé langstærsti eigandi eigna þjóðfélagsins. Löggjafinn ber aðeins pólitíska ábyrgð á fjögurra ára fresti. Hann þarf ekki að svara frekar en hann vill.

Í okkar lýðræðislega landi er ekki hægt að komast nær einræði.

Höfundur er stórkaupmaður.