Margrét Hugrún nýtir gervigreind til að skapa ímyndaðar persónur.
Margrét Hugrún nýtir gervigreind til að skapa ímyndaðar persónur. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef gaman af því að skapa svona heima. Þegar ég var lítil þá rúntuðum við mamma mín heitin um bæinn og ímynduðum okkur hvernig fólk ætti heima á bak við gardínurnar.

Viltu fílakaramellu?“ spyr Margrét Hugrún blaðamann þar sem við sitjum í anddyri Háskólabíós dag einn í vikunni, en þar stendur yfir listsýning hennar sem er meðal annars forvitnileg fyrir þær sakir að allar myndirnar eru unnar í tölvu með gervigreind. Sýningin verður opin út október.

Fékk algjöra dellu

Yfir kaffibolla og fílakarmellum segir Margrét Hugrún mér frá sýningunni og hvað leiddi hana í þessar áttir.

„Núna er ég að læra mannfræði en hef verið að vinna lengi við fjölmiðla. Ég lærði margmiðlun frá 1993 til 1997 og byrjaði fljótlega að búa til vefsíður í kringum 1998 og blogga upp úr 2001. Ég hef mjög mikinn áhuga á netinu og hvernig áhrif þess hafa smitast út í þjóðfélagið,“ segir Margrét Hugrún sem stofnaði lífsstílsvefinn Pjatt.is árið 2009 og ritstýrði lengi vel.

„Upp úr áramótum fékk ég aðgang að forritinu Midjourney og fékk mikinn áhuga á þessu,“ segir Margrét Hugrún, en hún lærði ljósmyndun í Iðnskólanum fyrir um tveimur áratugum og hafði því góðan grunn í myndvinnslu. Margrét Hugrún byrjaði að prófa sig áfram og hefur nú náð góðum tökum á tækninni. Hún var því meira en til þegar henni bauðst að halda sýningu og hófst handa við að búa til myndverkin.

Enn eitt verkfærið

Heldur þú að gervigreindin muni skilja ljósmyndara eftir atvinnulausa?

„Nei, ég er sannfærð um að svo verði ekki. Það eru löngu komin alls kyns forrit sem fólk getur notað sjálft en ljósmyndarar hafa enn nóg að gera. Þessi nýju forrit eru bara viðbót. Fólk þarf að hafa ákveðna reynslu og/eða þekkingu til að svona forrit komi almennilega að gagni,“ segir hún.

„Svo er líka að verða til nýtt listform út úr þessu,“ segir Margrét Hugrún og segist einnig nota forritið til að búa til myndir byggðar á hennar eigin teikningum.

„Fyrir mér er þetta nýtt verkfæri til sköpunar. En helsta vandamálið með gervigreind er að hlutirnir eru að gerast svo hratt. Og nú er tæknin komin út á meðal almennings og það er hægt að gera slæma hluti með henni, eins og það sem er kallað „deep fake“,“ segir Margrét Hugrún og á við þegar gervigreindartækni er notuð til að setja raunverulegt fólk í neikvæðar aðstæður eða rödd þeirra jafnvel notuð til að láta þau segja eitthvað sem þau myndu aldrei segja.

„Það þarf að drífa í að setja lög og reglur og koma á eftirlitskerfi því þegar svona tól eru annars vegar þá þarf að setja mannfólkinu mörk. Það er misjafnt eftir löndum hvernig yfirvöld nálgast lagasetningar í kringum gervigreind og vonandi verður hafist handa við þetta sem fyrst hérna. “

Hefur þú trú á að gervigreind verði mannkyninu til góðs?

„Þetta er eins og með kjarnorku; fólk getur misnotað hana en hún nýtist líka til góðs. Það sem fólk er hræddast við er að gervigreindin byrji að stökkbreytast og fari að skapa sig sjálf. Það er stöðugt verið að safna stafrænum upplýsingum um okkur og hefur verið gert í gegnum leitarvélar og samfélagsmiðla síðustu tuttugu ár en „mennska“ gervigreindarinnar er mótuð úr þessum gagnabanka,“ segir Margrét Hugrún, sem hyggst leggja fyrir sig stafræna mannfræði.

„Þetta er mjög spennandi áhersla í mannfræðinni því við búum við breyttan veruleika sem hefur haft og mun hafa gríðarleg áhrif á það hvernig við mótum okkar samskipti og samfélag.“

Alls konar skringilegheit

Sýning Margrétar Hugrúnar í Háskólabíói, sem ber nafnið Þetta gerðist aldrei, var búin til í tengslum við kvikmyndahátíðina RIFF. Hún var beðin um að búa til myndir með vísun í kvikmyndir.

„Ég bjó til myndir sem gætu verið senur úr listrænum kvikmyndum sem gætu verið sýndar á RIFF og vildi hafa svipaðan tón í þeim öllum,“ segir Margrét Hugrún, en á sýningunni eru sjö myndir sem eru prentaðar á ljósmyndapappír. Hún notar hugmyndaflugið til að skapa persónur sem eiga sér einhverjar sögur.

„Ég hef gaman af því að skapa svona heima. Þegar ég var lítil þá rúntuðum við mamma mín heitin um bæinn og ímynduðum okkur hvernig fólk ætti heima á bakvið gardínurnar,“ segir Margrét Hugrún.

„Ég gef þessum persónum nöfn og líf, en þetta er allt í plati, enda skáldskapur,“ segir Margrét Hugrún og segist ætla að halda áfram að vinna í þessu listformi, meðfram öðru, en sjá má verk hennar á Instagram-síðunni allrabest. Margrét Hugrún leiðir blaðamann um sýninguna og útskýrir hugsunina á bak við myndirnar.

„Ef maður skoðar myndirnar betur gætu þær verið teknar á einhverjum tilteknum stað, en ef þú rýnir enn betur þá sérðu alls konar skringilegheit. Það er alltaf eitthvað pínu skakkt og ég gerði það viljandi,“ segir Margrét Hugrún sem gjarnan notar bæði manneskjur og dýr sem oftar en ekki eru óræðar dýrategundir sem eru blanda af nokkrum dýrum. Sömu aðferð notar hún á manneskjur.

„Í einni myndinni notaði ég mynd af vini mínum og mynd af íslenskri Instagram-stjörnu og blandaði þeim saman. Síðan breyti ég útlitinu og úr verður náungi sem á sér persónleika og sögu. Ein persónan mín til að mynda er ljóðskáld sem hlustar á þýska blásarakvartetta, hann er hálfgerður óreglumaður sem býr í Sandgerði, og er oft á milli kærasta,“ segir Margrét Hugrún og brosir.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir