Ágúst Stefánsson fæddist í Neskaupstað 9. ágúst 1952. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 4. september 2023 eftir langvarandi veikindi.

Foreldrar Ágústar eru Stefán Ágústsson loftskeytamaður, f. 7. febrúar 1927, d. 6. desember 2008, og Lilja Bjarnadóttir, f. 24. ágúst 1928, en hún lifir son sinn.

Ágúst var elstur systkina sinna en þau eru Guðrún, Sigrún Anna, Bjarni Vilhelm og Sigurborg Kristín.

Ágúst giftist Stefaníu Emmu Ragnarsdóttur árið 1978. Saman eignuðust þau fjögur börn en leiðir þeirra skildi árið 1987. Börn þeirra eru: 1) Vilborg Ragna, gift Brynjólfi Jóni Baldurssyni. Börn þeirra eru Baldur Orri, Stefán Breki og Viktor Darri. 2) Tryggvi, giftur Chompu Ágústsson. Barn þeirra er Amphalika. 3) Lilja Rún, sambýlismaður hennar er Hafþór Sveinsson. Börn þeirra eru Andri Snær, Emma Rakel og Margrét Ylva. 4) Anna Karen, sambýlismaður hennar er Guðmundur Kristján Gunnarsson, barn þeirra er óskírð stúlka, f. 2023.

Ágúst gekk að eiga núverandi eiginkonu sína, Juthamat Kitty Stefánsson, árið 2018. Saman eiga þau Elsubet Evu, f. 2017, en fyrir á hún tvö börn, þau Ideu og Andrew.

Ágúst bjó í Neskaupstað fyrsta aldursárið sitt en flutti svo til Reykjavíkur ásamt foreldrum sínum. Bjuggu þau á Langholtsvegi og síðar í Efstasundi. Ágúst gekk í Vogaskóla og í Langholtsskóla þar sem hann lauk grunnskólagöngu. Ungur hóf hann störf sem háseti á Gullfossi sem sigldi til Norðurlanda. Ágúst starfaði lengi hjá álverinu í Straumsvík áður en hann flutti til Svíþjóðar árið 1989. Í Svíþjóð starfaði hann m.a. annars hjá Volvo í Gautaborg. Ágúst bjó í Svíþjóð til ársins 2001 en þá flutti hann heim til að vera nærri fjölskyldu sinni.

Útför Ágústar fór fram í Digraneskirkju hinn 18. september 2023.

Elsku pabbi, það var ótrúleg seigla í þér í veikindum þínum og þú barðist fram á síðasta dag því þér þótti erfitt að kveðja fólkið þitt svona fljótt.

Þú varst mjög stoltur af börnum þínum og það leyndi sér ekki. Þú fylgdist vel með fólkinu þínu og ég fann hvað þér fannst gaman að fá fréttir og myndir af fótboltamótum hjá mínum gaurum enda varstu mikill áhugamaður um fótbolta.

Þú elskaðir að hlusta á tónlist og man ég vel þegar þú komst eitt sinn heim frá útlöndum með plötuna Thriller handa mér og plakat af Michael Jackson sem ég hélt mikið upp á. Einnig komstu með leðurjakka sem ég sá strax að var mjög vandaður en unglingurinn ég kunni ekki alveg að meta hann. Það kom ekki að sök því Boggu litlu systur þinni fannst hann geggjaður og fékk að eiga hann í staðinn. Mér fannst spennandi að fá þessar gjafir frá útlöndum enda ekki eins algengt þá og í dag að fara út fyrir landsteinana. Þú varst ekki maður margra orða en samt vissi maður alltaf hvað þér þótti vænt um fólkið þitt. Þú áttir alltaf falleg og snyrtileg heimili þrátt fyrir að hafa ekki mikið á milli handanna. Sjálfur varstu alltaf vel tilhafður og passaðir að vera alltaf nýklipptur.

Þú hafðir mjög gaman af því að taka ljósmyndir og varst oft og tíðum með myndavélina uppi og áttir stórt safn af myndum af okkur börnum þínum. Einnig varstu duglegur að taka myndir í jólaboðum og öðrum viðburðum í fjölskyldunni. Þú varst lunkinn við að elda góðan heimilismat og man ég sérstaklega eftir sunnudagshryggnum og steiktum kjúklingi og ekki má gleyma heimatilbúnu karamellunum, heita súkkulaðibúðingnum og brauðsalötunum sem þú bjóst stundum til enda mikill sælkeri. Þú varst ótrúlega fyndinn og kunnir alltaf að læða inn góðu gríni þegar maður átti síst von á. Meira segja síðustu dagana þína á spítalanum þá gastu gantast þrátt fyrir að eiga erfitt með að tala.

Mér þykir vænt um að samskipti okkar voru meiri í seinni tíð. Ég viðurkenni það að mér fannst fyrst óttalegt vesen þegar þú sagðir mér að ég ætti von á systkini, þá 43 ára gömul. En Elsa bræddi okkur öll um leið og hún kom í heiminn enda algjört krútt. Ekki þótti mér heldur leiðinlegt að fá tækifæri til að kaupa stelpuföt handa henni.

Það var gaman að fylgjast með hvað Elsa gaf þér mikinn tilgang og gleði og þú varst sennilega hamingjusamari síðustu ár en mörg ár á undan og er ég glöð að hafa orðið vitni að því. Það var skemmtilegt að fá fyrirspurnir frá þér um ýmis ráð varðandi Elsu hvort sem það var uppeldisráð eða veikindaráð og fann ég hvað þér fannst gott að leita til okkar systra enda langt síðan þú varst í þessum sporum.

Ég er þakklát að hafa verið við hlið þér þegar þú tókst þinn síðasta andardrátt. Þetta voru erfiðir dagar en samt fallegir á sinn hátt. Ég kveð þig sátt í hjartanu og við munum gera allt til að styðja og styrkja Elsu og Kitty.

Guð geymi þig.

Þín dóttir,

Ragna.

Elsku pabbi.

Það er skrýtið að setjast niður og skrifa þessi minningarorð. Tilhugsunin um að ég eigi ekki eftir að sjá þig aftur er virkilega sár og skrýtin. Það verður skrýtið að koma á Selfoss til ykkar og þú verður ekki þar, búinn að reiða fram gómsætt skinkusalat með kaffinu. Í síðustu heimsókn minni til ykkar sá maður hvað þú varst orðinn veikur, lúinn og þreyttur enda lungnaþemban virkilega farin að láta finna fyrir sér. Þú sem varst alltaf til í mannfögnuði og þvælast til Reykjavíkur treystir þér varla lengur út úr húsi. Sú tilfinning sem kom yfir mig þennan umrædda dag var ekki góð, kannski væri ekki svo mikið eftir, samt hélt maður alltaf í vonina. Þú gafst okkur alltaf ástæðu til að vera bjartsýn því sama hversu oft þú lentir upp á spítala í öndunarstoppi síðustu árin þá komstu alltaf í gegnum það og komst jafnvel hressari til baka. Síðasta innlögnin á spítalann var eitthvað öðruvísi og veltum við því fyrir okkur við systur hvort við værum orðnar svo sjóaðar í þessu og að þú yrðir örugglega kominn heim eftir nokkra daga. Því miður var það ekki raunin og þú kvaddir okkur fallega mánudagsmorguninn 4. september sl. Eftir sit ég þakklát fyrir að hafa verið hjá þér þessa síðustu daga þína, þrátt fyrir að þeir hafi verið erfiðir.

Á tímamótum sem þessum þá sit og skoða gamlar myndir ásamt því að hlusta á þá tónlist sem minnir mig á þig, Kim Larsen, Phil Collins og Tommy Nilsen, og rifja upp þann tíma sem við áttum saman. Sumar minningar eru brösóttar og kenni ég Bakkusi um þær en ég ætla bara að staldra við góðu stundirnar. Heimsókn okkar til þín í Svíþjóð, rúntur um sveitir Íslands þegar þú komst í heimsókn. Einnig man ég hvað þú varst duglegur að senda mér bréf í pósti meðan þú bjóst úti og upplýstir okkur um stöðu mála og kannaðir hvað væri að frétta af okkur. Þér fannst gaman að ferðast og veit ég að þú hefðir viljað ferðast mikið meira um Ísland með Kitty og Elsubet en því miður bauð heilsan ekki upp á það.

Þú varst ekki duglegur að láta í ljós tilfinningar þínar en maður sá það á þér hvað þú varst stoltur af okkur börnunum þínum, elskaðir okkur öll og þú hefðir svo innilega viljað gefa meira af þér og eiga meiri tíma með okkur og þá sérstaklega Kitty og Elsubet. Þú varst virkilega þakklátur fyrir fjölskyldu þína. Þakklæti kemur fyrst og fremst upp í hugann þegar ég hugsa um okkar samband. Ég á eftir að sakna þess að spjalla við þig á Facebook um daginn og veginn og taka á móti lúmsku bröndurunum þínum sem alltaf komu þegar maður átti síst von á, þú varst sannarlega húmoristi af bestu gerð. Ég er þakklát fyrir hvað Kitty hugsaði vel um þig allan þann tíma sem þið áttuð saman og sérstaklega eftir að þú varst orðinn svona veikur. Þær mæðgur sannarlega lýstu upp tilveru þína.

Elsku pabbi, ég veit að þú ert kominn á góðan og fallegan stað þar sem þú þarft ekki að hafa áhyggjur af neinu. Elsabet og Kitty eru og verða í góðum höndum og við munum passa upp á þær.

Hvíldu í friði elsku pabbi – ég elska þig.

Meira á www.mbl.is/andlat

Þín dóttir,

Lilja Rún.