Höfundur „Saga Völku er grípandi og áhrifarík enda vendingarnar stundum lyginni líkastar,“ segir um Völskuna eftir Nönnu Rögnvaldardóttur.
Höfundur „Saga Völku er grípandi og áhrifarík enda vendingarnar stundum lyginni líkastar,“ segir um Völskuna eftir Nönnu Rögnvaldardóttur. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Valskan ★★★★· Eftir Nönnu Rögnvaldardóttur. Iðunn, 2023. Innbundin, 419 bls.

Bækur

Ragnheiður Birgisdóttir

Í sinni fyrstu skáldsögu, Valskan, segir Nanna Rögnvaldardóttir, sem flestir þekkja sem höfund matreiðslubóka, sögu formóður sinnar Valgerðar Skaftadóttur eða Völku eins og hún er gjarnan kölluð. Ég skil vel að hana hafi langað til að segja þá sögu því ævi Völku er viðburðarík og forvitnileg. Það eitt að ung stúlka af litlum efnum hafi farið til Danmerkur til þess að læra vefnað er út af fyrir sig stórmerkilegt enda hefur maður nánast bara heyrt af ferðum einstakra yfirstéttardrengja, sem kostaðir voru til náms, út fyrir landsteinana.

Sagan hefst á æskuslóðum prestsdótturinnar Völku á norðausturhorninu en hún fæddist 1762. Hún elst upp hjá góðu fólki á Hofi í Vopnafirði og á líka góða að í nálægum sveitum. En það er ekki auðvelt að draga fram lífið á síðari hluta 18. aldar. Harðindi hrjá bændur og því reynist þrautin þyngri að hafa í sig og á. Maður sér glöggt í þessu verki hve miklu máli fjárhagurinn skiptir og hve hverfull hann getur reynst. En þrátt fyrir harðindin leggja margir kapp á að hjálpa vinum og vandamönnum eftir bestu getu og Nönnu tekst vel að sýna hvernig manngæskan skín í gegn. Sérstaklega þótti mér fallegt að lesa um karlmenn sem sýna sínum nánustu hlýju og skilning. Þær persónur hefði hæglega verið hægt að skrifa sem steríótýpíska íslenska bændadurga sem eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar en það er ánægjulegt að myndin sem dregin er upp er flóknari en svo.

Flestir karlar í fjölskyldu Völku eru prestar og bræðrum hennar ætlað slíkt hið sama. Því er lagt kapp á að kosta þá til náms en Valka situr eftir og fær aðeins að læra að lesa, ekki að skrifa eins og þeir. Ævi Völku er þó langt frá því að vera viðburðasnauð. Hún gengur ung í hjónaband, hún upplifir móðuharðindin og fleiri hremmingar, en síðar liggur leiðin til Kaupmannahafnar þangað sem ævintýrin, og áföllin, elta hana. Sagan nær allt fram til 1816, þegar Valka er rúmlega fimmtug, en ekki er ástæða til að ljóstra meiru upp um söguþráðinn enda vendingarnar oft óvæntar.

Það má ætla að Nanna hafi grúskað mikið í heimildum því hún nostrar við hvert smáatriði þegar hún byggir upp söguheiminn. Það skyldi engan undra að matargerðin fær mikið pláss, en það fá aðrir þættir líka. Henni tekst jafn vel upp með að skapa íslenskar sveitir og kóngsins Kaupmannahöfn.

Það krefst mikillar útsjónarsemi að byggja upp svo víðtækan og sannfærandi söguheim án þess að það sé á kostnað söguþráðarins. Sagan heldur athygli manns nánast allan tímann. Það er bara rétt í byrjun sem heldur margar persónur eru kynntar til sögunnar í einu og ættartölur og landafræði vefst fyrir manni. Ættartré og landakort leynast á fyrstu síðum bókarinnar sem eru þakksamlega þegin þótt þau séu ekki tæmandi. En eftir blábyrjunina er takturinn í verkinu mjög góður.

Valka er uppnefnd „valska“ (sem merkir rotta) á augnabliki sem hefur mótandi áhrif á hana og eftir það glímir hún alla tíð við „völskuna“ innra með sér: „Kannski er ég það undir niðri, kannski býr valska innra með mér og reynir að hafa áhrif á mig, en ég skal aldrei láta hana ná yfirhöndinni“ (133-134). Allir hennar brestir sameinast í hugmyndinni um völskuna, valskan og samviskan keppast við að ná yfirráðum. Þetta er tiltölulega einföld hugmynd sem nýtist til þess að lýsa innra lífi söguhetjunnar. Það hefði mátt gefa lesendum oftar kost á að túlka upp á sitt eindæmi en það kemur ekki of mikið að sök.

Bókin fjallar ekki síst um kvenlega þrá, um konuna sem kynveru, og það er mjög forvitnilegt hvernig það verður drifkraftur í lífi þessarar átjándu aldar persónu. Um hina „holdlegu fýsn“ sem hefur sett svip sinn á líf Völku og fleiri sögupersóna segir hún undir lok bókarinnar: „Það getur verið erfitt að hemja hana, jafnvel þótt prestshempan sé að veði“ (394). Frá þessu er iðulega sagt á smekklegan en þó raunsæjan hátt.

Nanna lýsir því í stuttu máli í eftirmála hvaða heimildum hún byggir á og hvar raunveruleikinn mætir skáldskapnum. Hún hefur ákveðnar vörður að styðjast við en leiðina á milli þeirra skáldar hún. „Ég fann nóg til að skapa mynd af þessari formóður minni sem mér finnst láta hana stíga ljóslifandi fram, þroskast og breytast. Er þetta rétt mynd? Örugglega ekki. Væri hún ánægð með hana? Varla að öllu leyti. En þetta er mín Valgerður og mér þykir mjög vænt um hana,“ skrifar hún (414). Til varð sterk söguhetja sem er ráðagóð og áræðin en um leið á ýmsan hátt breysk og það er einmitt það sem gerir hana trúverðuga.

Saga Völku er grípandi og áhrifarík enda vendingarnar stundum lyginni líkastar (og þá er gott að minna sig á að þær eru flestar byggðar á heimildum). Nanna hefur nostrað við Völkuna sína, sögusviðið og söguþráðinn svo úr verður vel heppnuð söguleg skáldsaga sem aðdáendur þeirrar bókmenntagreinar ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum með.