Í Borgarleikhúsinu Bubbi syngur fyrir gesti þegar forsala hófst á Níu lífum. Sýningin hefur notið fádæma vinsælda enda Bubbi afar vinsæll listamaður.
Í Borgarleikhúsinu Bubbi syngur fyrir gesti þegar forsala hófst á Níu lífum. Sýningin hefur notið fádæma vinsælda enda Bubbi afar vinsæll listamaður. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Félög í eigu listamannsins Bubba höfðu samtals á þriðja hundrað milljónir í tekjur á árunum 2021 og 2022. Þá stóðu meðal annars yfir…

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Félög í eigu listamannsins Bubba höfðu samtals á þriðja hundrað milljónir í tekjur á árunum 2021 og 2022. Þá stóðu meðal annars yfir sýningar á söngleiknum Níu líf í Borgarleikhúsinu en þær hafa notið fádæma vinsælda.

Sýningarnar hófust rétt áður en kórónuveirufaraldurinn skall á með fullum þunga í mars 2020. Síðan hefur Níu líf verið meðal vinsælustu verka leikhúsanna.

Sagt var frá því á vef RÚV í byrjun júní sl., eftir sýningu númer 188, að þá hefðu ríflega 100 þúsund miðar selst á sýninguna. Sýningar standa enn yfir og á vef Borgarleikhússins er hægt að kaupa miða á fleiri sýningar. Sú síðasta, númer 225, er áformuð laugardagskvöldið 30. desember næstkomandi.

Textaverkin uppseld

Bubbi, eða Ásbjörn Kristinsson Morthens, hefur jafnframt haft tekjur af sölu textaverka á síðustu árum. Það er að segja textabrota sem sett eru fram sem myndverk. Á vef hans, bubbi.is, er líka hægt að kaupa bækur og geisladiska. Minnstu textaverkin voru 30 x 30 sm og í boði svarthvít og lituð. Jafnframt voru í boði lituð verk sem voru 60 x 60 sm. Alls voru í boði 26 verk á 35, 40 og 85 þúsund og eru þau öll uppseld, að því er segir á vef Bubba.

Þá hefur Bubbi tekjur af bókum og flutningi tónlistar sinnar við önnur tækifæri en á fjölum leikhússins.

Heldur utan um höfundarrétt

Tvö félög eru skráð á Bubba, ÁKM slf. og Morthens slf. Hið fyrrnefnda er rekstrarfélag en hið síðarnefnda heldur utan um höfundarrétt listamannsins.

Á grafinu hér til hliðar má sjá upplýsingar um helstu afkomutölur félaganna eins og þær eru birtar í ársreikningum.

Hagnaður ÁKM jókst mikið milli ára 2018 og 2019, eða úr 7,9 í 30,2 milljónir, og jókst svo enn frekar 2020 og 2021. Hann dróst svo saman 2022 og var þá 27,5 milljónir.

Gera má ráð fyrir umtalsverðum tekjum í ár enda hafa sýningar á Níu lífum verið vel sóttar.

Eigið fé eykst mikið

Eigið fé ÁKM hefur aukist mikið og var um 62,5 milljónir um síðustu áramót.

Laun og launatengd gjöld hafa numið um og yfir tíu milljónum síðan 2017. Athygli vekur að í ársreikningum fyrir árin 2021 og 2022 er getið um framleiðslukostnað, umboðslaun og þóknanir að fjárhæð tæpar 26 milljónir annars vegar og rúmar 41,7 milljónir hins vegar. En nýr umboðsmaður hóf störf hjá Bubba í árslok 2020.

Félagið Morthens slf. hefur hins vegar verið rekið með samfelldu tapi síðustu tíu ár. Athygli vekur að afskriftir leiða oft og tíðum til tapsins.

Þegar fjallað er um fjárhagslega velgengni Bubba sem listamanns á síðustu árum rifjast upp umtöluð viðskipti hans með höfundarrétt sinn á árinu 2005. Fjallað var um samning Bubba við Sjóvá í Fréttablaðinu í mars 2005 og var fyrirsögnin „Frelsi til sölu?“ Vísaði fyrirsögnin til plötu sem Bubbi sendi frá sér árið 1986 en hún er ein sú pólitískasta á ferli hans.

Borgar af skuldabréfinu

„Samningur Bubba og Sjóvár er þannig að stofnaður var sjóður sem öll höfundarréttindi og allar flytjendatekjur hans fara í. Sjóðurinn er vistaður í Íslandsbanka og Bubbi tekur svo í raun og veru skuldabréf sem Sjóvá kaupir. Sjóðurinn borgar svo af skuldabréfinu með tímanum og Sjóvá reynir að ávaxta féð á sem skynsamlegasta máta, sér í hag,“ sagði í frétt Fréttablaðsins af þessu tilefni.

Keypti réttinn til baka

Árið 2011 keypti Bubbi höfundarréttinn að lögum sínum til baka af Hugverkasjóðnum fyrir 14,3 milljónir. Fjallað var um söluna í Viðskiptablaðinu í ágúst 2012 en þar sagði að Bubbi hefði selt Sjóvá höfundarréttinn í byrjun árs 2005 og fengið stefgjöld greidd fram í tímann upp á nokkra tugi milljóna króna. „Það var Tónlistarfélagið Litur sem hélt utan um höfundarréttinn að lögum Bubba. Bókfært virði félagsins nam 37,9 milljónum króna í bókum Hugverkasjóðsins áður en það var selt,“ sagði í frétt Viðskiptablaðsins. Haft var eftir Bubba að hann myndi ekki og muni ekki vilja tjá sig um fjármál sín.

Afrakstur áratuga vinnu

Með velgengni síðustu ára er Bubbi að uppskera eftir áratuga feril sem einn þekktasti listamaður þjóðarinnar. Hann á sér því nokkrar kynslóðir aðdáenda.

Árið 2020 kom út bók um feril hans eftir Árna Matthíasson – Bubbi Morthens – ferillinn í fjörutíu ár – en í kynningarefni segir að árið 1980 „komu út tvær plötur sem breyttu rokksögunni –Ísbjarnarblús og Geislavirkir. Í kjölfarið varð Bubbi Morthens á allra vörum og hefur verið þar síðan, óhemju afkastamikill og vinsæll tónlistarmaður og sjónvarpsmaður, umdeildur og dáður.“

Bubbi varð 67 ára í sumar sem leið og hefur sem fyrr margt á prjónunum.