— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hvað er á döfinni? Við vorum að byrja með Kvöldstund með Kanarí í Tjarnarbíói og verðum þar með blöndu af sketsum, uppistandi, spuna og tónlist. Það eru fjórar sýningar á dagskrá og svo bætum við við sýningum eftir þörfum

Hvað er á döfinni?

Við vorum að byrja með Kvöldstund með Kanarí í Tjarnarbíói og verðum þar með blöndu af sketsum, uppistandi, spuna og tónlist. Það eru fjórar sýningar á dagskrá og svo bætum við við sýningum eftir þörfum.

Hver stendur að sýningunni?

Við erum sex í leikhópunum Kanarí sem gerði Kanaríþættina á RÚV. Okkur langaði að gera sýningu fyrir framan áhorfendur því það er svo gaman að fá áhrifin strax. Við gerðum því fjölbreytta sýningu þar sem mismunandi grínform koma saman, sem hefur ekki verið gert áður á Íslandi. Það er alltaf stutt í næsta atriði og hröð skipti, þannig að það er eitthvað fyrir alla.

Þið eruð þá með æfða sketsa?

Já, og við reynum svolítið að koma hinum á sviðinu í vandræði. Við til dæmis sömdum brandara sem einhver annar á sviðinu á að lesa en fær ekki að sjá fyrirfram. Þannig að við reynum að koma hvert öðru á óvart.

Hvernig gekk frumsýningin?

Alveg sjúklega vel. Fólk grét alveg úr hlátri. Sýningin er fyrir breiðan aldur; þó ekki börn. Hún er alveg tilvalin fyrir vinahópa, fjölskyldur og vinnufélaga að koma á saman og hlæja.

Er eitthvert þema?

Í raun ekki, nema að uppsetningin er eins og í kvöldspjallþætti í Bandaríkjunum. Við skemmtum svo inni í þeim strúktúr.

Hvað er fleira í gangi í þínu lífi?

Ég er líka í Improv Ísland sem sýnir nú á miðvikudagskvöldum í Þjóðleikhúskjallaranum og hef gaman af hvoru tveggja. Svo er ég svolítið að veislustýra og er líka með útvarpsþátt á Rás 2 sem heitir Hljóðvegur 1 og er á laugardögum. Þetta er léttur dægurmálaþáttur.

Þú ert þá sjálfstætt starfandi leikkona?

Ég veit ekki hvað ég á að kalla mig, en ég er ekki lærð leikkona, heldur spunaleikkona. Ég skrifa og leik og geri bara það sem mér finnst skemmtilegt.

Kanarí mætir í Tjarnarbíó í haust með glænýja sýningu sem er blanda af sketsum og spjallþætti eftir röð uppseldra sýninga í Þjóðleikhúsinu og tvær þáttaraðir á RÚV. Miðar fást á tix.is.