Áslaug Júlíusdóttir fæddist 10. september 1950. Hún lést 20. september 2023.

Útför hennar fór fram 5. október 2023.

Vegna mistaka við vinnslu þessarar minningargreinar um Áslaugu Júlíusdóttur sem birtist 5. október ser hún birt aftur. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Í dag kveðjum við góða og trygga vinkonu okkar með trega. Vinátta okkar og þar með saumaklúbburinn spannar yfir tæplega 60 ár.

Áslaug var brosmild og alltaf kát og glöð. Hún var góður félagi, róleg, yfirveguð og lítillát og hafði góða nærveru. Jákvæðni hennar sýndi sig vel í veikindum hennar.

Hún hafði valið sér rétt ævistarf, því hún var kennari af lífi og sál, bar hag nemenda sinna mjög fyrir brjósti. Það kom vel í ljós að það var gagnkvæmt þegar hún hitti þá á förnum vegi, hvort sem það voru núverandi eða fyrrverandi nemendur. Hafði hún gaman af því að segja sögur af uppátækjum þeirra í orði og verki.

Sýndi hún okkur vinkonunum og fjölskyldum okkar mikinn áhuga og vildi fá að fylgjast með hvað allir hefðu fyrir stafni í það og það skiptið, enda bar hún mikla umhyggju fyrir öðrum.

Það var alltaf líf og fjör hjá okkur þegar við hittumst, hvort sem var í Húsafelli um verslunarmannahelgi, úti á Jersey þar sem hún vann eitt sumar með Kötu eða þegar við komum allar saman með mökum okkar.

Áslaug var fróðleiksfús og sótti allmörg námskeið á hinum ýmsu sviðum í gegnum tíðina.

Við sendum innilegar samúðarkveðjur til systkina hennar og fjölskyldna þeirra.

Saumaklúbburinn,

Katrín, Guðrún (Dúrý), Ósk, Stefanía, Þóra Hrönn og Auður.

Okkur langar til að minnast nokkrum orðum Áslaugar Júlíusdóttur, góðrar vinkonu okkar, sem lést 20. september. Fréttin um lát hennar kom eins og reiðarslag þótt vitað væri að hverju stefndi.

Það mun hafa verið fyrir liðlega þrjátíu árum að við vinkonurnar þrjár, Áslaug, Herdís og Kari, fórum að hittast reglulega í sundlaugunum í Laugardal. Við birtumst að vori og stunduðum sundlaugarnar af kappi yfir sumartímann, sem varð vettvangur góðra og gleðiríkra samverustunda. Það var synt, legið í sólbaði, spjallað og drukkið kaffi. Alltaf sól og sumar í þá daga. Fastir sundlaugargestir kölluðu okkur farfuglana, þar sem heimsóknum okkar í sundlaugina fækkaði á haustin en jukust á vorin. Einni venju höfum við vinkonurnar þrjár haldið sumar jafnt sem vetur, við hittumst á hverjum sunnudagsmorgni í sundi.

Tvisvar á þessum árum var eitthvert leiðindaveður hér heima svo að Áslaug og Kari drifu sig í hoppferð til Spánar. Lentu í bæði skiptin á sama stað á Spáni og á sama hóteli. Þar komst á yndisleg morgunvenja. Áslaug vaknaði snemma, var enda A-manneskja, fór í bakaríið, keypti brauð, lagaði kaffi, lagði á borð og þá var tímabært að vekja Kari, sem er B-manneskja.

Lúxuslíf hjá B-manneskjunni!

Áslaug og Kari fengu eins árs orlof samtímis og fóru báðar í nám erlendis. Áslaug fór til Kaupmannahafnar og Kari til Oslóar ásamt Söru dóttur sinni. Farnar voru nokkrar ferðir á milli landanna, enda fínasta ferja sem siglir á milli borganna.

Áslaug var hæglát, dagfarsprúð, vönduð og góð manneskja. Hún var umtalsfróm og gott var að eiga hana að vinkonu. Hún glímdi við erfið veikindi síðustu tvö árin og þá sýndi hún hvað í henni bjó, mikið æðruleysi og ekki bar hún tilfinningar sínar á torg frekar en endranær.

Við söknum góðrar vinkonu og hugsum með hlýju til allra góðu stundanna sem við áttum saman. Hún skilur eftir sig skarð sem ekki verður fyllt.

Við biðjum algóðan Guð að blessa minningu Áslaugar. Aðstandendum hennar sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Herdís Svavarsdóttir og Kari Ólafsdóttir.

Hún Áslaug vinkona okkar hefur kvatt. Brottför hennar bar fyrr að en nokkurn grunaði því þrátt fyrir að hún hefði um nokkurt skeið átt við veikindi að stríða voru bundnar vonir við að tekist hefði að vinna á þeim bug. Svo reyndist ekki vera og ekki varð við vágestinn ráðið er hann lagði til atlögu á ný nú síðla sumars. Enginn ræður sínum næturstað.

Við áttum samleið í Kennaraskóla Íslands á sjöunda og áttunda áratugnum og síðan um langt árabil sem samkennarar í Kópavogsskóla. Hún var fjarri því að vera sú sem mest fór fyrir en skilaði ávallt sínu og var vel liðin af samstarfsfólki og nemendum.

Það var þó ekki fyrr en eftir starfslok okkar beggja að vinátta okkar og samskipti fóru vaxandi og við áttuðum okkur betur á að við áttum prýðilega saman. Gagnkvæmar heimsóknir urðu fastur liður í tilverunni. Við fórum gjarnan með vinkonum saman á tónleika og fleiri viðburði og ávallt var notalegt að setjast niður með henni yfir kaffibolla og rabba um daginn og veginn. Hún var býsna tíður gestur hjá okkur Guðmundi í Lundinum síðustu árin og ávallt aufúsugestur. Hún var bjartsýn og glaðsinna, hógvær í skoðunum og felldi ekki dóma yfir samferðamönnum. Lét aðra um það.

Fyrir um tveimur árum flutti hún af Seltjarnarnesinu í nýja, yndislega íbúð við Austurhlíð í Reykjavík og hugði gott til búsetunnar þar og nálægðar við þá þjónustu við eldri borgara, sem var í nágrenninu. Hún sýndi okkur stolt sitt nýja heimili og hafði ríka ástæðu til. Því miður fékk hún ekki að njóta íbúðarinnar nema stuttan tíma en naut þess virkilega meðan var.

Komið er að kveðjustund. Að leiðarlokum er okkur hjónum ljúft að þakka fyrir góðar stundir og góð kynni. Hennar verður sárt saknað. Fjölskyldu hennar sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu minnar góðu vinkonu.

Anna M. Gunnarsdóttir.

Það var mikil og góð samheldni og vinátta milli nágrannanna á Kvisthaga 1. Alltaf þegar ég og foreldrar mínir þurftum að bregða okkur af bæ út á land eða til útlanda þótti Ingu og Júlíusi sjálfsagt að líta eftir okkar helmingi hússins, taka blöð og póst og hugsa um bílinn. Þetta speglaðist líka í okkur börnunum. Ég var ein í öðrum enda hússins, þau fimm í hinum endanum, og við vorum að sumu leyti eins og einn stór systkinahópur, og vináttan náin og eilíf, og engu breytti, þótt þau giftust og tvístruðust jafnvel um lönd og álfur, og börn bættust í hópinn.

Nú kveð ég eitt þeirra, hana Áslaugu, sem er farin yfir í land ljóss og friðar, langt um aldur fram. Við hittumst ekki mjög oft, eftir að hún fór af Kvisthaganum, og ég fluttist þaðan líka, en hvenær sem okkar fundum bar saman á götu eða annars staðar, og þótt langur tími liði í milli, þá tókum við jafnan tal saman og áttum góðar samræður að venju.

Áslaug hafði góða nærveru og var yfirleitt rólynd og yfirveguð í skaplyndi, aldrei nein æsingamanneskja, og því alltaf indælt að hitta hana. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma séð hana skipta skapi, hvað sem yfir dundi, þótt hún gæti verið ákveðin og föst fyrir, ef því var að skipta, auk þess að vera vel skipulögð, sem hefur eflaust komið sér vel í kennarastarfinu. Hún var líka traust og trú vinum sínum. Hún gat oft verið glettin og skopast góðlátlega að mönnum og málefnum. Það voru góðir tímar. Við náðum því vel saman, þrátt fyrir það, hversu ólíkar við vorum á margan hátt, en vissum vel, hvar við höfðum hvor aðra.

Nú verða þetta minningarnar einar, góðar minningar sem ylja þegar hennar verður minnst, þótt þeim fylgi óhjákvæmilega söknuður.

Á þessari kveðjustund bið ég Guð að blessa hana, þar sem hún er nú, með kærri þökk fyrir langa, góða og gjöfula viðkynningu, vináttu og tryggð, og votta systkinum hennar og fjölskyldum þeirra mína innilegustu samúð.

Blessuð sé minning minnar kæru æskuvinkonu.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir.

Áslaug vinkona mín lést 20. september sl. Það er erfitt að kveðja kæra vinkonu, margar hugsanir koma upp. Þar er vert að minnast margra góðra og skemmtilegra samverustunda. Við fórum oft á kaffihús og fengum okkur kaffi og tertusneið með miklum rjóma. Alltaf var stutt í brosið og hláturinn hjá henni.

Við vorum saman í saumaklúbb í yfir 55 ár, þar var mikið hlegið og minna um handavinnu síðari árin. Saumaklúbburinn ásamt mökum fór í sumarbústaði og út að borða, þá var ávallt glatt á hjalla. Síðustu árin eftir að við hættum báðar að vinna hittumst við oftast tvisvar í viku eða oftar, fórum í gönguferðir, bingó, tókum stundum strætó niður í miðbæ og fórum á kaffihús, málverkasýningar og djasstónleika á Jómfrúnni, sem Áslaug hafði mjög gaman af.

Þegar við vorum heima hjá henni kom hún ávallt með fréttir af systkinabörnum sínum og þeirra börnum sem henni þótti svo ótrúlega vænt um, einnig hafði hún óþreytandi áhuga á hvernig allir í kringum hana hefðu það.

Gangi hún á Guðs vegum.

Við fjölskylda mín söknum hennar.

Þakka allar samverustundirnar og innilegar samúðarkveðjur til systkina og fjölskyldna þeirra.

Katrín (Kata) vinkona.

Í dag verður kær vinkona mín hún Áslaug Júlíusdóttir borin til grafar. Hvernig má það ver að hún sé farin með svona skömmum fyrirvara? Hún fékk greiningu rúmum mánuði áður en hún lést, en hún bar sig vel og sýndi mikið hugrekki í veikindum sínum.

Við höfum þekkst frá því við vorum saman í bekk í Melaskóla og síðan í Hagaskóla. Eftir grunnskóla fórum við í Kennaraskólann og má segja að við höfum verið vinkonur í meira og minna 65 ár. Hin síðari ár höfum við eflt vináttuna þar sem við vorum báðar orðnar einar á báti.

Við höfum haft mikla ánægju af að sækja námskeið á vegum FEB í fornsögum, þar hefur skólasystir okkar úr Kennaraskólanum hún Sigurlaug verið með okkur og mikið höfum við hlegið og skemmt okkur saman, til gamans kölluðum við okkur Laugurnar þrjár. Við höfum farið í margar stórkostlegar ferðir í tengslum við fornsögurnar innanlands og í sumar til Færeyja. Einnig höfum við farið í nokkrar ferðir erlendis sem hafa verið mjög ánægjulegar og kom svo vel fram í öllum þessum ferðum hve vel hún naut þess að ferðast. Hún var alltaf einstaklega jákvæð og glaðleg sem endurspeglaðist í öllu hennar viðmóti. Aldrei heyrði ég hana hallmæla nokkurri einustu manneskju, enda var hún vinamörg.

Okkar síðasta ferð var nú í byrjun júní með Húsmæðraorlofi Reykjavíkur til Ítalíu þar sem við skemmtum okkur konunglega með öllum þessum yndislegu konum og hún naut sín að fullu. Engan grunaði þá að hún ætti svo stutt eftir – engin veit sína ævina fyrr en öll er.

Það er með miklum söknuði að ég kveð mína kæru vinkonu.

Hvíl í friði elsku Áslaug.

Fjölskyldu hennar votta ég mína dýpstu samúð.

Áslaug Þorsteinsdóttir.

Í dag fylgi ég samstarfskonu minni og vinkonu hinsta spölinn. Ég kynntist henni haustið 1996 þegar ég hóf störf í Kópavogsskóla.

Áslaug helgaði lífsstarf sitt bōrnum. Byrjaði austur á landi og gætti barna frænku sinnar í nokkur sumur og á unglingsárum fór hún eitt sumar til Englands til að líta eftir tveimur enskum drengjum.

Að lokinni grunnskólagōngu í Mela- og Hagaskóla fór hún í Kennaraskólann og útskrifaðist þaðan með kennara- og stúdentspróf eftir 4ra ára nám eins og þá var siður. Síðar bætti hún við sig sérkennaraprófi frá KHÍ.

Að námi loknu hélt hún út á land ásamt Jóhanni fyrrverandi eiginmanni sínum sem hún hafði kynnst í Kennaraskólanum. Þau hófu kennsluferilinn á Steinsstōðum í Skagafirði og síðan á Hallormsstað. Þau fluttu sig svo á höfuðborgarsvæðið og þar kenndi Áslaug á ýmsum stöðum.

Haustið 1981 hóf hún störf í Kópavogsskóla og starfaði þar í tæp 40 ár. Eftir að hún lauk formlega starfi tók hún að sér forfallakennslu, viku og viku. Hún var kennari af lífi og sál.

Áslaug kenndi bæði sérkennslu og bekkjarkennslu. Hún var farsæll kennari og nemendur hennar voru vinnusamir og góðir félagar. Ég tel að það megi þakka hve natin hún var við þá og bar virðingu fyrir þeim. Hún kenndi þeim með framkomu sinni að virða og styðja við það jákvæða hjá hverjum og einum. Oft mátti sjá nemendur hennar faðma hana innilega. Hún hafði óþrjótandi þolinmæði fyrir þá og tók þátt í leik þeirra og námi. Kennarastarfið hentaði henni fullkomlega.

Áslaug fór í námsleyfi til Kaupmannahafnar haustið 1995 og lagði stund á sérkennslufræði.

Hún keyrði Skódann fullan af farangri austur á Seyðisfjörð og sigldi út með Norrænu til Danmerkur. Þegar til Danmerkur kom ók hún frá Hirtshals til Kaupmannahafnar og þegar hún nálgaðist borgina ákvað hún að keyra á eftir leigubíl sem hún vonaðist til að færi í miðborgina sem og hann gerði. Hún fann gott bílaplan þar sem hún lagði bílnum og svaf í honum fyrstu nóttina. Um morguninn ók hún þangað sem hún var búin að fá leigt herbergi og lagði bílnum eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Áslaug var víðfōrul innanlands og utan. Henni þótti gaman að ferðast og fór ein síns liðs ef þannig stóð á. Í vor fór hún í síðustu utanlandsferðirnar til Færeyja og Ítalíu. Við fórum í nokkrar ferðir saman, meðal annars til Danmerkur, Belgíu, Spánar, Sviss og Svíþjóðar. Hún var góður ferðafélagi og alltaf til í að sjá eitthvað nýtt og nýta tímann vel.

Áslaug stóð fast á sínum ákvörðunum, þeim varð ekki haggað. Hún var glöð, forvitin og útsjónarsōm. Hún leitaði að því jákvæða í fari fólks og var vinur vina sinna. Hún hafði mikið dálæti á fjölskyldu sinni og var stolt af uppruna sínum, bæði reykvískum og austfirskum.

Áslaug greindist með illvígt krabbamein fyrir tveimur árum og fór í stranga meðferð. Í júlí á þessu ári var svo ljóst að meinið hafði tekið sig upp aftur og ekkert varð við ráðið.

Ég vil fyrir hönd samstarfsfólks og samferðafólks hennar í Kópavogsskóla þakka fyrir samfylgdina. Öll minnumst við hennar með hlýhug.

Birna Vilhjálmsdóttir.