Kattakona Solveig og Skjalda kisan hennar sem kemur úr Skagafirði. Solveig er mikill dýravinur og á aðra kisu sem heitir Leia prinsessa, en hún fylgdi með íbúðinni þegar hún keypti hana. Solveigu er líkt við kött í einu ljóðanna.
Kattakona Solveig og Skjalda kisan hennar sem kemur úr Skagafirði. Solveig er mikill dýravinur og á aðra kisu sem heitir Leia prinsessa, en hún fylgdi með íbúðinni þegar hún keypti hana. Solveigu er líkt við kött í einu ljóðanna. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef alltaf haft rosalega mikla tjáningarþörf, en ég var samt ekkert að einbeita mér að skrifum hér áður. Ég fékk svolítinn aulahroll ef ég skrifaði eitthvað þegar ég var yngri,“ segir Solveig Thoroddsen, ljóðskáld, myndlistarkona,…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hef alltaf haft rosalega mikla tjáningarþörf, en ég var samt ekkert að einbeita mér að skrifum hér áður. Ég fékk svolítinn aulahroll ef ég skrifaði eitthvað þegar ég var yngri,“ segir Solveig Thoroddsen, ljóðskáld, myndlistarkona, fjallagarpur, æðarbóndi, kennari og leiðsögumaður, en í sumar sendi hún frá sér sína aðra ljóðabók, Að innan erum við bleik. Fyrri bókin hennar, Bleikrými, vakti verðskuldaða athygli.

„Ég fór mjög seint af stað í þessu öllu saman, listsköpuninni, ég fór fyrst í kennaranám, var að vinna í fiski og kom víða við, en fór loks í myndlistarnám þegar ég var komin fast að fertugu. Eftir það fór ég í meistaranám en í Listaháskólanum var boðið upp á valfög meðfram myndlistarnáminu og ég valdi að fara í skapandi skrif hjá Guðrúnu Evu Mínervudóttur rithöfundi. Hún lagði fyrir okkur ritlistarverkefni og ég bara leysti þau. Orðin hafa heillað mig í gegnum tíðina og í þessum tímum hjá Guðrúnu Evu opnaðist fyrir mér að semja ljóð, en þá var ég 44 ára. Ætli ég sé ekki svolítið seinþroska,“ segir Solveig og bætir við að hún hafi alla tíð lesið mjög mikið. „Ég elska ljóð. Í grunnskóla vorum við látin læra ljóðin í bláu bókinni, Skólaljóðunum, en ég kann þá bók enn alla utanbókar,“ segir Solveig og hlær.

Hlýtt og fallegt leg gimbrar

Í ljóðum nýju bókarinnar kemur Solveig víða við, í sláturhúsi, í útilegu, í firði úti í landi, á fjöllum og við fossa, í mosa, á börum, uppi í rúmi og á fleiri stöðum. Þar bregður m.a. fyrir tófum, hreindýrum, hröfnum, tígrisdýrum og köttum. Þar er líka ástin í öllum sínum ólíku myndum, erótíkin sjóðheita, höfnun og hamfarir. Ljóðabækurnar báðar kallast á í bleika litnum, þær bera báðar titil þar sem sá bleiki kemur fyrir og yrkisefnið er áþekkt. Nýja bókin er líka hábleik.

„Við erum öll bleik að innan, viðkvæm, og það er gott að vera meðvitaður um að allir eru að fást við eitthvað og berjast við eitthvað. Fyrir utan bleika litinn þá er nýja bókin ekkert þematengd, þetta er bara það sem á daga mína drífur, endurspeglun á því. Bleiki liturinn er lika vísun í að maður og náttúra eru eitt, því þó við séum orðin náttúrufirrt þá erum við öll með bleikan kjarna. Bleikur er enginn sérstakur uppáhaldslitur hjá mér, en mér finnst bleikur pínu fyndinn og mótsagnakenndur litur. Hann er mjög markaðsvæddur og klisjulegur, en samt rosalega lífrænn, mikill kjarni í honum,“ segir Solveig og bætir við að teikning hennar á bókarkápu vísi til ljóðsins Hvar er Guð? sem fjallar um lítið bleikt leg sem Solveig eitt sinn handlék.

„Þetta leg hafði óvart orðið eftir í gimbrarskrokk í sláturhúsi þar sem ég var að vinna. Dýralæknirinn vinkona mín hóaði sérstaklega í mig til að sýna mér þetta fallega, hlýja og raka leg, svo fullkomlega skapað. Þetta fór ekki úr huga mér og mér þykir sérlega vænt um þetta ljóð. Allt er þetta mótsagnakennt, því ég er mikill dýravinur en ég borða samt kjöt, en það skiptir mig máli hvaðan kjötafurðin kemur og hvernig hefur verið hlúð að og farið með skepnurnar. Ég heillast mjög af þessum grunnatvinnugreinum, búskap og sjómennsku, og mig hefur alltaf langað að fara á sjó og ég hef unnið í fiski. Þegar ég vann í sláturhúsum þá gerði ég það með stæl, manni hleypur kapp í kinn og andrenalínið er á fullu. Ég tók á móti skrokkunum og var því eiginlega í eróbikki allan daginn. Það er mikil stemning að vera hluti af svona vertíð sem sláturhúsvinna er. Því miður er ég ekki að vinna í sláturhúsi þetta haustið, því ég starfa núna við kennslu, en ég sakna þess svolítið, þetta er rosalega góð líkamsrækt og mér líður alltaf mjög vel úti á landi. Ég eignaðist góða vini og kunningja á Kópaskeri þegar ég vann í slátúrhúsinu þar. Þangað fór ég tvö haust í röð en ég vann líka tvö haust í sláturhúsinu á Húsavík. Ég er mikil sveitastelpa í hjarta mínu þó ég sé alin upp í Reykjavík og ég bíð eftir að geta flutt upp í sveit, það kemur að því einn daginn.“

Hvatvís en líka íhugul

Solveig segir að efnið sem hún yrki um í nýju ljóðabókinni sé allskonar uppsafnað sem hún hafi verið að íhuga inni í sér.

„Svo kemur stundin þegar það er tilbúið að fara á blað. Grunnhugmyndin að hverju ljóði kemur yfirleitt öll í einu og á ólíklegustu stöðum á ólíklegustu tímum, stundum þegar ég er lögst á koddann og er að fara að sofa, í sturtu eða þegar ég er að keyra úti á þjóðvegum. Þetta eru stundirnar þegar ég sóna út, oft í ástandinu milli svefns og vöku, þá er eins og opnist fyrir eitthvað. Að lesa texta annarra ljóðskálda örvar mig líka mjög til dáða og vekur mér andagift. Þegar ég dvaldi eitt sinn í Davíðshúsi á Akureyri með afmarkaðan tíma til að skrifa, þá tók ég vinnuna alvarlega. Ég vaknaði snemma á morgnana og fór strax að skrifa, enda er ég öflugust á þeim tíma dagsins. Ég fínpússa alltaf eitthvað og læt liggja, en ég breyti ekki miklu. Þó ég sé vissulega mjög hvatvís, þá er ég kannski líka íhugul.“

Ástin, hjartað og kynlífið

Solveig kemur í nokkrum ljóðum inn á hamfarahlýnun jarðar. „Ég er almennt mjög lífsglöð og ég lifi ekki í ótta, en þessi ógn, hnattræna hlýnunin og hörmungarnar sem hún hefur í för með sér, er eitthvað sem við verðum að vera meðvituð um og bregðast við. Það þarf að gera eitthvað róttækt strax. Mér finnst ógnvekjandi hvernig hagsmunaaðilar og stjórnmálamenn geta flækt hlutina og tafið fyrir því sem verður að gera. Ég vinn mikið með þetta í myndlistinni minni, manninn gagnvart náttúru í samhengi við umhverfisvernd.“

Í báðum ljóðabókum Solveigar er mikil náttúrutenging, enda segist hún alltaf hafa sótt mikið í náttúruna.

„Þó ég sé Reykvíkingur þá var ég svo heppin að alast upp neðst í Fossvoginum þar sem er skógrækt. Þar er líka óræktarsvæði og lækur og þarna var mín ævintýraveröld bernskunnar. Ég er heilluð af skógarbotnum sem eru fullir af dulúð og yfirnáttúru,“ segir Solveig sem hleypir lesendum nærri sér í sumum ástarljóðunum, bæði með tilfinningar og líkama. Þar eru heitar fallegar tilfinningar en líka erfiðar, höfnun og annað slíkt, og heilmikið af kynlífi. Fannst henni ekkert mál að birta þetta á prenti?

„Nei nei, en ég er ekkert að ræða þessi einkamál mín á kaffistofum,“ segir Solveig og hlær. „Ég fæ smá kjánahroll við að lesa þetta núna, því ég er löngu komin út úr þessu tiltekna sambandi sem ljóðin segja frá. Núna þykir mér bara vænt um það og ég þarf ekkert að tala meira um það, en ég þurfti að tala um það á þeim tíma sem ég orti þessi ljóð og ég stend með því.“

sýnishorn úr ljóðabók

KAFFIPÁSA

Sterk lærin sem fletjast út

á klósettsetunni

eru 1. flokks;

stinnir, ílangir vöðvar,

hjúpaðir þunnu fitulagi.

Svo mikið hef ég lært

af kjötsmatsmanninum.

Þó er ég ekkert unglamb lengur.