Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Sveimur þjófa út og inn. Yxnalæti í kúnni. Ber á hófum hesturinn. Hamsleysi í frúnni. Úlfar Guðmundsson á þessa lausn: Forðast gjarnan þjófa gang. Gengur kýr til móts við fang

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Sveimur þjófa út og inn.

Yxnalæti í kúnni.

Ber á hófum hesturinn.

Hamsleysi í frúnni.

Úlfar Guðmundsson á þessa lausn:

Forðast gjarnan þjófa gang.

Gengur kýr til móts við fang.

Gang á hófa hrossið tók.

Hamagangur frúna skók.

Helgi R. Einarsson leysir gátuna:

Þjófagangur geisar hér.

Að ganga fylgir kúnni.

Á hreinum gangi hestur fer,

en hamagangur á frúnni.

Guðrún B. svarar:

Þjófagangur, gallað sprang,

um gangmál kýrin rokkar,

hesturinn með hreinan gang,

hamagangur okkar.

Þórunn Erla á Skaganum segir: Hér kemur lausn á vísnagátunni – það var töluverður „mishæðar-gangur“ á þessari smíð:

Gersemum í músagangi týnum.

Gangmál kúnna er beiða þær.

Hesturinn hófdýr á gangþófum sínum.

Hamagangur er fæstum kær.

Þessi er skýring Guðmundar:

Þjófagangur út og inn.

Yxnalæti gangur hér.

Á hófum gang ber hesturinn.

Hamagangur í frúnni er.

Þá er limra:

Í göngur hann Guðni fer

og gangnaforingi er.

Um grundir og börð

og giljaskörð

hann gengur fram af sér.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Myrkt þó sé að morgni dags,

mér á lappir kem ég,

heilann brýt og leita lags,

létta gátu sem ég:

Spákonu ég nefni nú.

Hér nafn á beini finnur þú

Á stræti lítinn stein ég fann.

Stúlkuheiti vera kann.

Að vanda fylgir smotterí með lausn Helga:

Veisla

Við karl sinn sagði kerla,

sem ku víst heita Erla:

„Í kvöldmat þú

minn kæri nú

færð kartöflur og sperðla.“

Ýmsir ástarfundir
útum koppagrundir
valda því
um borg og bý
að börnin koma undir.
Halldór Blöndal