Kelsey Grammer og Frasier Crane hafa átt samleið í tæp fjörutíu ár.
Kelsey Grammer og Frasier Crane hafa átt samleið í tæp fjörutíu ár. — AFP/Monica Schipper
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frasier vinur okkar Crane er aftur kominn til Boston; þar sem við gengum fyrst í fangið á honum árið 1984 – á Staupasteini sáluga. Nú hyggst hann söðla um og endurnýja kynnin við einkason sinn, Frederick

Frasier vinur okkar Crane er aftur kominn til Boston; þar sem við gengum fyrst í fangið á honum árið 1984 – á Staupasteini sáluga. Nú hyggst hann söðla um og endurnýja kynnin við einkason sinn, Frederick. En hvað er a'tarna? Sonurinn stekkur ekki hæð sína af hamingju þegar sá gamli mætir á svæðið – býsna fjarri því raunar. „Ég veit ekki hvað er að gerast með son minn. Hann er kominn með kærustu sem ég hef ekki einu sinni heyrt um og þegar ég sagðist vilja verja meiri tíma með honum sagði hann bara nei,“ trúir Frasier félögum sínum fyrir, örlítið áhyggjufullur. Þá gellur í gömlum skólabróður hans: „Hefurðu velt fyrir þér þeim möguleika að hann hati þig?“ Þið munið hið fornkveðna, vinur er sá er til vamms segir.

Þessi nýja þáttaröð af Frasier hefur göngu sína vestur í Bandaríkjunum í næstu viku, 19 árum eftir að þeirri fyrstu lauk. Kelsey Grammer, sem leikur Frasier sem fyrr, hefur talað um „þriðja þátt“ í lífi Frasiers og vísar þar til þess að hann hafi fyrst komið fram í Staupasteini og síðan fyrstu seríunni af Frasier. Báðir þessir myndaflokkar nutu gríðarlegrar lýðhylli og hafa í huga margra goðsögulega stöðu. Enginn gamanþáttur í sögunni hefur hlotið fleiri Emmy-verðlaun en Frasier, 37, og 107 tilnefningar.

Einmitt þess vegna eru ýmsir nú smeykir; ekki síst í ljósi þess að gamla gengið hans Frasiers er í þessari lotu víðsfjarri. Bebe Neuwirth, sem leikur fyrrverandi eiginkonu Frasiers, Lilith, og Peri Gilpin, sem fer með hlutverk vinkonu hans Roz Doyle, verða að vísu með í mýflugumynd en þar með er það upp talið. John Mahoney, sem lék föður Frasiers, er látinn og hvorki tókst að telja David Hyde Pierce, sem lék Niles, né Jane Leeves, sem túlkaði húshjálpina ómetanlegu Daphne Moon, á að snúa aftur.

Kostulegur karakter

Með fullri virðingu fyrir hinum munar mest um Niles, bróður og kollega Frasiers. Hann er með kostulegri karakterum sjónvarpssögunnar, fráhrindandi í snobbi sínu og yfirvisku en um leið sympatískur í viðkvæmni sinni og seinheppni. Er þetta ekki eins og að gera þátt um Batman án Robins eða Butch Cassidy án The Sundance Kid? Tja, segið þið mér!

En úr því gamla gengið vantar er ábyggilega klókt að færa sögusviðið milli borga og skipta inn á nýju fólki. Frederick kom lítillega við sögu í gömlu þáttunum en nú er hann vaxinn úr grasi og við vitum ekki meira um hann en pabbi hans sjálfur. Og hver er þessi dularfulla stúlka, Eve, sem býr með honum? Með hlutverk þeirra fara Jack Cutmore-Scott og Jess Salgueiro.

Ef marka má stikluna, sem vísað er í hér í upphafi, mætir Alan Cornwall, skólabróðir Frasiers og nú prófessor, af krafti til leiks. Nicholas Lyndhurst leikur hann. Allt bendir til þess að háskólinn, þar sem hann kennir, komi til með að spila stóra rullu. Svo verður þarna David nokkur Crane, sonur Niles og Daphne, sem einmitt fæddist undir lok fyrstu seríunnar. Hvoru ætli hann líkist meira, móður sinni eða föður? Hlutverkið er í höndum Anders Keiths. Loks má nefna Oliviu, sem er yfir sálfræðideildinni við téðan háskóla. Toks Olagundoye leikur hana.

Nýr heimur, nýtt líf

Þið sjáið á þessu að við erum ekki beint að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið heldur fylgja Frasier eftir í nýjum ævintýrum. „Þetta er nýr heimur, nýtt líf,“ hefur miðillinn Today eftir Kelsey Grammer. „Frasier fer aftur til Boston, á stað þar sem honum finnst eins og hann hafi ekki alveg slegið í gegn forðum daga. Nú langar hann að leggja hann að fótum sér.“

Strax kemur fram að Frasier hafi í grunninn ekkert breyst, „bara þetta almenni“, eins og Cornwall prófessor orðar það, sposkur á svip. Snobbið hefur klárlega ekki orðið eftir í Seattle, eins og aumingja Frederick kemst að raun um þegar hann ætlar að hlamma sér í sófann hjá pabba sínum. „Ekki setjast þarna, þetta eru Christian Lacroix-púðar,“ hljóðar Frasier upp yfir sig. „Þannig að ekki má sitja í sófanum?“ spyr Frederick gáttaður. „Nei, ekki í gallabuxum!“

Í annarri senu eru feðgarnir heima hjá Frederick og Frasier leggur til að þeir skáli. „Ég á viskí, efsta hilla,“ segir Frederick. „Það dugar ekkert minna,“ svarar faðir hans, stoltur af pilti. „Nei,“ leiðréttir Frederick, „ég meina að flaskan er í efstu hillunni, í grænni plastflösku.“ Það reynist sumsé vera einhver ódrekkandi ruddi.

Annar menningarheimur

Þrátt fyrir að eiga svona fágaða (lesist: uppskrúfaða) foreldra er Frederick greinilega fulltrúi annars menningarheims í þáttunum, ekki ósvipað og Marty afi hans áður. Gaman verður að sjá hvernig samskiptum þeirra feðga vindur fram og hvort Frederick verður jafn lunkinn að svara fyrir sig og gamli maðurinn. Hundurinn Eddie verður fjarri góðu gamni.

Það er Paramount+ sem frumsýnir Frasier vestra á fimmtudaginn en alls stendur fyrsta serían saman af 10 þáttum. Ekkert hefur verið gefið út um framhaldið enda veltur það ábyggilega öðru fremur af viðtökum. Einhver íslensku sjónvarpsstöðvanna hlýtur að grípa boltann á lofti fyrr en síðar.

Jæja, þá er bara að blanda salatið og hræra eggin.

Nálægt því að vera met

Kelsey Grammer fæddist árið 1955. Hann sló fyrst í gegn í hlutverki Frasiers í Staupasteini eða Cheers á árunum 1984-1993. Þá fékk Frasier sinn eigin þátt sem gekk til ársins 2004. Grammer hefur því leikið Frasier í tæp 40 ár sem er nálægt því að vera met í sjónvarpi. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna gegnum tíðina, þar á meðal sex Emmyjur og þrjá Gullhnetti, og á sína stjörnu á Hollywood Walk of Fame.

Grammer lærði sína list í Juilliard og hóf ferilinn sem Shakespeare-leikari á sviði á Broadway, fyrst í Macbeth og síðan Óþelló. Hann lét einnig snemma að sér kveða í söngleikjum.

Mest hefur farið fyrir Grammer í sjónvarpi gegnum tíðina en hann hefur líka leikið í fjölmörgum kvikmyndum.