Jón Helgi Björnsson
Jón Helgi Björnsson
Allar ár þar sem villtur íslenskur lax hefur átt óðul sín í þúsundir ára eru í hættu.

Jón Helgi Björnsson

Undanfarna daga hafa landeigendur og leigutakar lagt nótt við nýtan dag við að hreinsa upp norskan eldislax úr ám frá Eyjafirði til Borgarfjarðar. Ekki beint verkefni sem menn hafa haft áhuga á að vinna með öðrum haustverkum. Enda eru senurnar eins og úr myndinni Stella í orlofi þegar norskir kafarar snorkla í ánum í leit að húsdýrum landa sinna.

Landssamband veiðifélaga hefur árum saman varað við og barist gegn uppbyggingu á eldi á frjóum norskum eldislaxi í opnum sjókvíum. Reynslan af fyrri eldisbylgjum kenndi okkur að alltaf sleppur fiskur úr kvíum. Nágrannar okkar í Noregi og Skotlandi hafa einnig varað okkur við að þrátt fyrir góð áform um að halda eldisdýrunum í kvíum sleppur alltaf verulegt magn.

Erfðamengun staðreynd

Nýlega kom út skýrsla Hafrannsóknastofnunar vegna erfðasýna sem tekin voru af villtum laxi á árunum 2014 til 2019 en þau sýna verulega erfðamengun í ám nærri eldissvæðunum en einnig í ám sem liggja fjarri eins og Laxá í Aðaldal og Víðidalsá. Vert er að hafa í huga að á þessum árum var umfang eldisins tæplega einn tíundi þess sem leyft er í dag. Það kemur auðvitað ekki á óvart en í Noregi er þriðjungur laxastofna með alvarlega erfðamengun og annar þriðjungur með verulega erfðamengun eftir áratuga eldi þar.

Horft til skýrslunnar þá er augljóst að litlu laxastofnarnir í suðurfjörðum Vestfjarða eru að breytast í norska blendingsstofna á ótrúlega fáum árum. Augljóst er að þeim verður ekki bjargað úr þessu og hverfa endanlega. Sömu örlög munu bíða laxastofnanna í Ísafjarðardjúpi en kýrskýrt er að sambýli við þrjár milljónir frjórra laxa mun ganga af stofnum sem telja tugi til örfárra hundraða dauðum. Auðvitað var öllum ljóst sem til þekkja að það að hleypa laxeldi í Ísafjarðardjúp var pólitísk ákvörðun frekar en að hún byggðist á einhverju vitlegu mati á þoli laxastofnanna fyrir slíkri innrás.

Það sem tapast

Í hverri á er einstakur laxastofn sem þróast hefur í 10.000 ár og aðlagast umhverfinu. Þetta getur verið aðlögun að botngerð, hitastigi árinnar, hvort staðsetningin er vestanlands eða austan. Aðlögun laxins miðar að því að tryggja viðgang stofnsins og hámarka afraksturinn miðað við umhverfið. Erfðamengun, þegar hún nær ákveðnu umfangi, eyðir stofnunum. Þannig getur stofn sem lifað hefur í 10.000 ár horfið á örfáum árum. Verði slíkt tjón þá eru það náttúruverðmæti sem koma ekki aftur og gæti tekið 10.000 ár að þróa á ný ef stofninn á annað borð kemur til baka.

Nýlegt sleppislys þar sem sluppu 3.600 laxar af 82.000 úr einni sjókví hefur valdið því að eldislax hefur gengið upp í 40 laxveiðaár, sumar jafnvel í hundraða kílómetra fjarlægð. Í ánum næst sjókvíaeldinu er fjöldinn meiri en náttúrulegi villti stofninn og í vatnsföllum í 250 kílómetra fjarlægð allt að 20 prósent af fjölda fiska.

Ekki slys

Auðvitað er rangt að nefna þetta slys. Þetta er bein afleiðing af því að leyfa eldi á 65 milljónum frjórra eldislaxa í umhverfi þar sem villti laxastofninn telur 50.000 til 70.000 fiska.

Landeigendur, veiðimenn og fólk sem þykir vænt um náttúruna hafa orðið vitni að afleiðingum sleppislyss sem nam fjórum prósentum af magni í einni kví. Það magn sem slapp var 0,005 prósent af þeim fjölda fiska sem heimilt er að ala af frjóum norskum laxi við Íslandsstrendur. Auðvitað átta sig allir á því að eldi á 65 milljónum frjórra laxa í opnum sjókvíum mun ganga af villtum laxastofnum dauðum. Fyrst í nágrenni eldisins og síðan í ám sem liggja fjær. Þess vegna mótmælum við í dag á Austurvelli. Í Laxárdeilunni 1970 var mótmælt til að bjarga einni á. Allar ár þar sem villtur íslenskur lax hefur átt óðul sín í þúsundir ára eru í hættu.

Við ætlum að bjarga ánum. Villti laxinn skal varinn.

Höfundur er formaður Landssambands veiðifélaga.

Höf.: Jón Helgi Björnsson