Bókin er vegleg með fallegum myndum Ruthar Ásgeirsdóttur.
Bókin er vegleg með fallegum myndum Ruthar Ásgeirsdóttur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Í bókinni Ómótstæðilegir eftirréttir eftir Ólöfu Ólafsdóttur er að finna hátt í áttatíu uppskriftir, þar af tuttugu og sjö uppskriftir að kökum. Ólöf er liðsmaður í íslenska kokkalandsliðinu og fékk strax sem barn mikinn áhuga á köku- og eftirréttagerð

Í bókinni Ómótstæðilegir eftirréttir eftir Ólöfu Ólafsdóttur er að finna hátt í áttatíu uppskriftir, þar af tuttugu og sjö uppskriftir að kökum. Ólöf er liðsmaður í íslenska kokkalandsliðinu og fékk strax sem barn mikinn áhuga á köku- og eftirréttagerð.

„Mig langaði til að gera bók fyrir alla, þessi bók er fyrir byrjendur, aðeins lengra komna og enn lengra komna. Þarna er því eitthvað fyrir alla. Uppskriftirnar eru fjölbreyttar, þar á meðal eru vegan- og glútenfríar uppskriftir. Uppskriftirnar eru merktar eftir erfiðleikastigum, frá eitt til þrjú. Svo er mikilvægt fyrir lesandann að hafa í huga að æfingin skapar meistarann,“ segir Ólöf.

Spurð hvaða mistök séu helst gerð við eftirréttagerð tekur hún hinar vinsælu sörur sem dæmi. „Þar gleymir fólk oft að tempra súkkulaðið áður en það dýfir sörunum í, sem gerir þær gráleitar og kemur í veg fyrir að súkkulaðið harðni. Í bókinni sýni ég allar þrjár leiðirnar sem eru til að tempra súkkulaði. Um leið verður súkkulaðið glansandi og það kemur kröns í það.

Ég sýni líka leiðir til að hjúpa kökur svo það komi glans á þær. Ég nefni líka nokkur blóm sem eru æt og gaman er að skreyta með. Svo er þarna alls kyns fróðleikur sem tengist eftirréttagerð.“

Spurð hver sé eftirlætiseftirréttur hennar í bókinni nefnir Ólöf hindberjatertu með dönsku vanillukremi.

„Það tók níu mánuði að gera þessa bók þannig að hún er litla barnið mitt og fullkomin,“ segir Ólöf.

Þess má geta að á instagram-reikningi hennar má fræðast nánar um bókina.

Ólöf gefur hér uppskriftir að tveimur ljúffengum eftirréttum.