Björn Gíslason
Björn Gíslason
Þessar úrtölur væru sambærilegar því ef bæjarfulltrúar fyrri tíma hefðu neitað að skipta út gasljósastaurum fyrir rafmagnsljósastaura.

Björn Gíslason

Nýjasta útfærsla snjallljósakerfa greiðir verulega úr umferð allra ferðamáta; gangandi, hjólandi, akandi og almenningssamgangna. En umfram allt getur snjallstýring umferðarljósa skilið á milli lífs og dauða þegar vá ber að höndum.

Að undanförnu hafa heyrst úrtöluraddir frá borgaryfirvöldum um ávinning þessarar nýjustu tækni í ljósastýringum. Meðal annars gagnrýni á tölulegar niðurstöður sem settar hafa verið fram á vegum Samtaka iðnaðarins.

Mér er það hins vegar fullljóst, sem fyrrverandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanni, hvernig örfáar mínútur geta skilið milli lífs og dauða. Mér er einnig ljóst að nýjasta útfærsla snjallstýrðra umferðarljósa gæti skilið þar á milli.

Kostir snjallljósa í neyðarakstri

Ef stuðst er við nýjustu útfærslu snjallstýrðra umferðarljósa í neyðarakstri, t.d. sjúkra- og slökkvibifreiða, greinir miðlæg stýritölva ferðir viðbragðsaðila og leitast við að koma á grænni bylgju umferðarljósa á þeirri leið sem hann ekur. Það eykur öryggi viðbragðsaðila, skjólstæðinga þeirra og annarra vegfarenda.

Núverandi klukkukerfi hefur hins vegar því miður oft stofnað lífi þessara aðila í hættu þegar ekið er yfir á rauðu ljósi. Græn bylgja skapar auk þess aukið umferðarflæði og dregur þannig úr líkum á að viðbragðsaðilar tefjist í umferðarteppu.

Nýtt kerfi eða bráðabirgðareddingar?

Þótt stuðst sé við svokallað Signal-kerfi fyrir neyðarbíla á tveimur stöðum í Reykjavík, á Snorrabraut og Bústaðavegi, er það kerfi mjög staðbundið. Almenn snjallvæðing höfuðborgarsvæðisins, með allra nýjustu tækni, þar sem notast er við myndavélar til að greina umferð, myndi hins vegar kalla fram á sjálfvirkan hátt grænar bylgjur fyrir neyðarbíla á öllu leiðum þeirra því ljósin senda stöðugar upplýsingar sín á milli.

Þótt hægt sé að mynda slíkar grænar bylgjur með ósjálfvirku klukkukerfi er það ekki hægt á öllum ljósagatnamótum höfuðborgarsvæðisins. Árið 2019 voru um 210 gatnamót með umferðarstýringum þar, en einungis 98 þeirra tengd miðlægri stýritölvu og meginhluti þess búnaðar 25 ára gamall eða eldri.

Klukkuljós eða snjallljós – gasljós eða rafmagnsljós?

Borgarbúar eru upplýst fólk, sem áttar sig vel á því að hægt er að nýta tæknina í ljósastýringum mun betur en nú er gert. Flest okkar nýta sér snjalltækni sem á margvíslegan hátt einfaldar okkar daglega líf.

En borgaryfirvöld þráast við í þeirri viðleitni að hægja á umferð. Frá þeim heyrast úrtöluraddir um yfirburði snjallljósastýringa. Þessar úrtölur væru sambærilegar því ef bæjarfulltrúar fyrri tíma hefðu neitað að skipta út gasljósastaurum fyrir rafmagnsljósastaura.

Borgaryfirvöld hafa haldið fram þeirri rangfærslu að ljósastýring umferðarljósa sé með besta móti hér á landi. Staðreyndin er hins vegar sú að verkfræðistofan Swego kemst að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg sé í neðsta sæti samanburðarborga hvað viðkemur umferðarljósastýringu, en ætti auðvitað að vera leiðandi á því sviði. Þessi andstaða borgaryfirvalda við snjallljósavæðingu er því miður ekki eina aðför þeirra að öryggi borgarbúa. Það er til skammar hvernig þrengt hefur verið að neyðarakstri í borgarlandinu. Það ætti að vera ófrávíkjanleg krafa að fulltrúar viðbragðsaðila séu hafðir með í ráðum við skipulag samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Á þetta hef ég margsinnis bent áður en talað fyrir daufum eyrum borgaryfirvalda. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnir yfir 30 þúsund sjúkraflutningum á ári hverju og stór hluti þeirra er neyðarflutningar.

Baráttan fyrir snjallljósum

Áður en samgöngusáttmálinn var undirritaður, árið 2019, beittu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, undir forystu Eyþórs Arnalds, sér mjög fyrir því að snjallvæðing umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu yrði sett í forgang sáttmálans. Það var síðan gert fyrir tilstuðlan alþingismannanna Jóns Gunnarssonar og Vilhjálms Árnasonar.

Sáttmálinn krafðist þess að strax skyldi farið í snjallljósavæðingu, enda hefur hún hvorki í för með sér flókna skipulagsvinnu né dýrar stofnbrautaframkvæmdir. Nú fjórum árum síðar hefur lítið gerst í þeim efnum, nema e.t.v. einhverjar uppfærslur á úreltu kerfi á tilteknum stöðum, sem skilar litlu fyrir almenna umferð.

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi hefur því lagt fram tillögu í borgarstjórn fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins þess efnis að snjallljósatýring umferðarljósa verði áfram í algjörum forgangi við endurskoðun sáttmálans. Sett verði tímamörk á þær framkvæmdir þannig að þeim verði lokið innan árs frá endurskoðun hans á öllu höfuðborgarsvæðinu og þær framkvæmdir gerðar að skilyrði fyrir sáttmálanum. Vilhjálmur Árnason alþingismaður greindi svo frá því í Morgunblaðinu 2. október sl. að hann myndi fylgja þeirri kröfu eftir á Alþingi. Vonandi verður snjallljósavæðing höfuðborgarsvæðisins áfram í algjörum forgangi sáttmálans, en í þetta sinn fylgt eftir og hrint í framkvæmd tafarlaust. Það mun án nokkurs vafa bjarga mannslífum. Engin sómakær manneskja frestar slíkum framkvæmdum um fjögur ár.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fv. slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður.