Veggjalús Hryllingur fólks yfir veggjalús er ekki síst sálrænn, enda skríðandi kvikindi í rúmi, sem nærast á blóði, ekki skemmtileg tilhugsun.
Veggjalús Hryllingur fólks yfir veggjalús er ekki síst sálrænn, enda skríðandi kvikindi í rúmi, sem nærast á blóði, ekki skemmtileg tilhugsun. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is „Það er búin að vera mikil fjölgun á veggjalús á undanförnu ári,“ segir Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir og segir að meira flakk á fólki milli landa og innanlands sé ástæðan. Fregnir af skæðum veggjalúsafaraldri í Frakklandi hafa verið algengar undanfarið, sem vakti áhuga á að vita hvernig staðan væri á Íslandi.

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það er búin að vera mikil fjölgun á veggjalús á undanförnu ári,“ segir Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir og segir að meira flakk á fólki milli landa og innanlands sé ástæðan. Fregnir af skæðum veggjalúsafaraldri í Frakklandi hafa verið algengar undanfarið, sem vakti áhuga á að vita hvernig staðan væri á Íslandi.

„Það var alveg þokkalega mikið af þessu kvikindi fyrir covid, en það dró úr því þá, samt ekki jafn mikið og ég hefði búist við,“ segir Steinar og bætir við að það hafi alltaf verið einhverjir sem nældu sér í óværuna þrátt fyrir samkomutakmörkin.

„Svo þegar fór að létta á þessum samkomutakmörkunum, þá varð bara sprenging,“ segir Steinar og bendir á ástandið í Frakklandi, sem hefur verið skrifað um, en þar geisar veggjalúsafaraldur sem er svo skæður að aldrei hefur annað eins sést. „Nú er mikil pressa á frönsk yfirvöld að hefja markvissar aðgerðir gegn óværunni, og ég held að hérna á Íslandi megi alveg fara að tala um faraldur í þessu sambandi líka,“ segir Steinar.

„Ég kvarta svo sem ekki mikið yfir þessu, enda er þetta mitt lifibrauð,“ en hann bætir þó við að það þurfi að skoða ástandið hérlendis líka því það sé svo mikill kostnaður fyrir heimili að lenda í því að fá þessa óværu inn á heimilið.

Skríða ofan í ferðatöskur

– Hvernig berst veggjalús milli staða?

Veggjalús berst helst milli staða á Íslandi þegar fólk fer og gistir annars staðar, hvort sem það er innanlands eða utanlands. „Það er algengasta leiðin fyrir þessi kvikindi að dreifa sér. Ef fólk passar sig ekki, þá er veggjalúsin að skríða í töskur, eða fara með fatnaði, t.d. úr rúmum, ofan í ferðatöskur og berst þannig heim til fólks.

Það er kostur fyrir okkur að búa á aðeins kaldara svæði en víða, því úti geta veggjalýs dreift sér miklu víðar, eins og í rútum, leigubílum, úr fatahengjum og víðar, svo fólk getur borið þetta með sér heim bara eftir að sinna erindum úti í bæ.“

200% fjölgun í útköllum

– Hefur hærra hitastig í sumar haft áhrif á fjölgunina?

„Það hjálpar til, en samt enn frekar hjálpar það kakkalökkunum,“ segir Steinar. „Þá fer þeim að líða ansi vel og fara að spreyta sig á því að fara út og flakka á milli húsa,“ segir hann og bætir við að kakkalökkum hafi fjölgað gífurlega síðustu ár.“ Steinar segir að þótt hann sé ekki með vísindalega könnun á fjölguninni, þá muni hann skjóta á að hjá sér sé líklega 200% fjölgun útkalla vegna bæði veggjalúsar og kakkalakka á milli ára. „Núna í ágúst og hálfan september þá var ég að fara í útköll vegna veggjalúsa að minnsta kosti 3-5 sinnum á viku.“

– Hvað þarf að gera til að losna við óværuna?

„Það er mjög mikilvægt að það sé ekki mikið af dóti og drasli inni í svefnherbergjum hjá fólki, því þá hafa kvikindin betri möguleika á að fela sig. Ég get alveg drepið þetta í rúmum og dýnum, en það eru fáir sem vilja sofa á líkhúsi, eins og einn sagði við mig. Flestir ákveða að henda bæði rúmi og rúmbotni og það kostar sitt.“

Ónæm fyrir hefðbundnu eitri

Steinar segir að eitur virki ekki nógu vel á veggjalúsina og líklega sé hún búin að koma sér upp ónæmi gegn hefðbundnu eitri sem notað hefur verið. „Það er líka ástæða fyrir því að henni er að fjölga svona rosalega síðustu ár,“ en hann bætir við að hann hafi fengið nýtt efni sem hefur verið að virka betur, en hann noti samt meðfram því ákveðna hitatækni og svo loki hann öllum götum og sprungum. Hann segist hafa séð veggjalús inni í naglagati í vegg. „Síðan ef tréklæðning er í húsinu, þá liggur við að það megi bara brenna það. Það þarf allavega að rífa allan panelinn í burtu og klæða með plötum, eða stífmála panelinn með þykkri málningu þannig að tryggt sé að engar glufur séu á nokkrum fleti.“

Eggin drepast í 18 stiga frosti

Steinar segir að veggjalús fari í gegnum fimm þroskastig til að ná fullorðinsaldri og það ferli taki fjóra mánuði. „Það hjálpar aðeins við að koma böndum á þetta ef strax er tekið á málum, en það er þó aldrei einfalt mál.“ Hann tekur sem dæmi að margir telji að nóg sé að drepa egg veggjalúsar með því að setja fatnað og annað út í íslenskt vetrarfrost, en það dugi ekki til því það þarf a.m.k. 18 stiga frost til að drepa eggin. Annar vandi er að veggjalús getur lifað án þess að nærast í allt að 6-18 mánuði. „En það á við um veggjalús sem er fullorðin, því nýútskriðin veggjalús sem ekki hefur neytt blóðs lifir ekki í langan tíma.“

„Löngu landlægur fjandi“

Þá flækir það stöðuna að svo virðist sem hluti fólks sýni engin viðbrögð við biti skordýra. „Flestir fá sjáanleg bit og klæjar, svo það fer ekkert á milli mála hvað er í gangi. En ég hef komið inn á heimili þar sem veggjalús er úti um allt og enginn á heimilinu með sjáanleg bit. Fólk hefur orðið vart við einhverja pöddu, en fullorðin veggjalús er vel sýnileg, u.þ.b. fimm millimetrar á stærð.“ Hann segir að lokum að með mikilli fjölgun ferðamanna og ferðalögum Íslendinga um allar trissur sé veggjalús að berast víða. „Þetta er löngu orðinn landlægur fjandi hérlendis.“

Tilkynningarskyld starfsemi

Haft var samband við Heilbrigðiseftirlitið til að athuga hvort hægt væri að staðfesta þessa fjölgun veggjalúsa. Aron Jóhannsson heilbrigðisfulltrúi sagði að þeir gætu ekki staðfest þessar tölur, en sagðist hafa heyrt talað um fjölgun, en ekki séð neinar tölur um það. „Við leggjum áherslu á að gististaðir láti okkur vita ef það koma upp tilfelli af veggjalús,“ segir hann og bætir við að þeir sem sinna meindýravörnum eigi að láta heilbrigðiseftirlit vita ef þeir verða varir við fjölgun. „Þetta er tilkynningarskyld starfsemi.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir