Bjarni Felixson fæddist 27. desember 1936. Hann lést 14. september 2023.

Útför fór fram 4. október 2023.

Með nokkrum orðum vil ég kveðja gamlan samstarfsmann og góðan kunningja, Bjarna Felixson. Í eitt og hálft ár eða svo vorum við samstarfsmenn á íþróttadeild sjónvarpsins fyrir liðlega fjörutíu árum. Raunsannari lýsing er þó að segja að Bjarni var íþróttadeildin en mér var bætt við í hálfu starfi til að létta undir með honum.

Samstarf okkar var frá byrjun hnökralaust og gekk betur en ýmsir áttu von á. Bjarni var kóngur í ríki sínu og þá þegar orðinn stórt nafn meðal allra þeirra sem áhuga höfðu á íþróttum, einkum og sér í lagi ensku knattspyrnunni. Lykillinn að okkar góða samstarfi var einfaldlega sá að ég rambaði strax á að virða algerlega óskorað forræði Bjarna yfir þeim íþróttagreinum sem stóðu hjarta hans næst, það er ensku knattspyrnunni, körfubolta og stærri handboltaviðburðum, en fékk á móti frjálsar hendur með ýmislegt annað efni. Og meira en það, Bjarni studdi mig og varði þegar ég fór að taka inn í íþróttaþættina á mánudagskvöldum ýmsar íþróttagreinar sem lítið höfðu sést í sjónvarpi áður. Þegar ég gerði vormóti Fáks skil í íþróttaþætti hringdu margir unnendur ensku knattspyrnunnar eða annarra kjarnagreina inn og kröfðust þess að þessi strákpjakkur sem væri að sýna bikkjur í sjónvarpinu yrði rekinn. Það ætti að sýna íþróttir í íþróttaþáttum. Svipað var upp á teningnum þegar kajakróður, klettaklifur eða hvað það nú var kom á skjáinn.

Þegar ofangreind verkaskipting milli okkar var komin á hreint gekk samstarfið með ágætum eins og áður sagði. Bjarni taldi sjálfsagt að ég sæi um innslög um blak eða frjálsar íþróttir í þáttum hans á laugardögum. Og öfugt; ef Bjarni vildi koma einhverju að um fótboltann eða annað í þáttum hjá mér var það alltaf sjálfsagt mál.

Virðing mín fyrir Bjarna Felixsyni óx í réttu hlutfalli við það að kynnast einstakri vinnusemi hans og elju. Mér er til efs að margir aðrir opinberir starfsmenn hafi unnið annað eins kauplaust og langt umfram vinnuskyldu eins og hann gerði. Við spurðum hann einu sinni að því við Hemmi Gunn af hverju hann kæmi ekki með bedda á skrifstofuna svo hann þyrfti ekki að vera að skjótast heim til að sofa yfir blánóttina. Sumarfrí í Danmörku voru gjarnan notuð til að liggja við hjá Danmarks Radio og grúska í efni hjá þeim og þannig mætti áfram telja. Bjarni var íþróttadeildin, eins og áður sagði, og meira en það. Hann var með sínum einstaka dugnaði og brennandi áhuga eiginlega heil stofnun.

Undir hrjúfri skel Bjarna Felixsonar bjó traustur og raungóður maður sem gaman var að kynnast. Ég kveð hann með mikilli virðingu og votta aðstandendum samúð.

Steingrímur J. Sigfússon.

Það er aðeins hægt að minnast Bjarna Fel af virðingu enda ruddi Bjarni brautina fyrir okkur íþróttafréttamenn samtímans. Þó Bjarni hefði verið formlega hættur hjá RÚV þegar ég hóf þar störf vorið 2009 var hann þó enn með ákveðin verkefni. Hann lýsti enn völdum leikjum frá úrvalsdeild karla í fótbolta á Rás 2 það sumarið og skrifaði inn íþróttafréttir á textavarpið heiman frá sér. Ég var því svo heppinn að ná Bjarna í um eitt ár við störf, hjálpa honum við að finna til lýsingagræjur með furðulegum nöfnum eins og „Hollendinginn“ eða „Comrexinn“ (sem Bjarni kallaði reyndar Comprexinn með mikla áherslu á p-ið).

Fyrstu árin mín hjá RÚV kom Bjarni gjarnan í kaffibolla í Efstaleitið snemma á morgnana að lokinni sundferð, spjallaði, gaf ráð, en býsnaðist líka yfir hlutum sem honum þóttu fáránlegir, eins og að leiktímar á Íslandsmótinu í fótbolta þyrftu að vera 15 mínútur yfir í stað þess að leikirnir byrjuðu bara á heila tímanum. Það var mikið ævintýri fyrir mann nýskriðinn yfir tvítugt að sjálfur Bjarni Fel væri orðinn kollegi og talaði við mann sem jafningja um íþróttir af mikilli ástríðu.

Bjarni var samt ekkert í því að skipta sér af hvernig íþróttafréttir voru sagðar síðustu ár, heldur hélt því fyrir sig. En fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta árið 2010 hringdi hann samt í mig og spurði hvers vegna ég væri að auglýsa einhvern opnunarleik á heimsmeistaramótinu. Það væri ekkert til sem héti opnunarleikur, nema ég ætlaði að fara að tala um úrslitaleikinn sem lokunarleik. Síðan þá hefur mér aldrei dottið til hugar að tala um opnunarleiki, opnunarhátíðir eða opnunartíma.

Þótt Bjarni Fel væri risastór prófíll var hann ekki að koma sjálfum sér á framfæri. Hann vissi sem var að það var efnið sem hann hafði í höndunum hverju sinni sem var það eina sem skipti máli, og það var hans að koma því vel á framfæri við áhorfendur eða hlustendur. Hans persóna í því samhengi skipti engu máli – nákvæmlega eins og það á að vera. Ég reyndi oft síðustu 4-5 ár að fá Bjarna í langt viðtal til að fara yfir líf sitt og feril, en hann hummaði það alltaf fram af sér. Það var ekkert mál að tala um aðra, en hann vildi helst ekki gera of mikið úr sjálfum sér, þó maður hefði fengið fullt af sögum frá honum þegar engar myndavélar eða upptökutæki voru nálægt. Hann tók mér líka alltaf vel þegar ég hringdi í hann til að heyra í honum hljóðið. „Hvað segir þú Keli, hvað ertu nú að bauka?“

Bjarni Fel er brautryðjandi í íþróttafréttamennsku á Íslandi, ekki síst í sjónvarpi og útvarpi. Fyrir heilu kynslóðirnar var Bjarni íþróttafréttamaðurinn með greini. Honum eiga íslenskar íþróttir og íslenskir íþróttafréttamenn mikið að þakka um ókomna tíð. Það er næsta víst.

Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson.

Daginn áður en Bjarni fór til Danmerkur, þá hafði ég beðið hann nokkrum dögum áður að lýsa fyrir mér þegar hann kæmi heim, hvernig jarðarförin hefði verið sem hann væri að fara í, og ítrekaði það á þessum degi:

- var presturinn í hempu?

- var presturinn í rykkilíni?

- var presturinn með stólu?

- hvað sagði presturinn við moldunina?

Svo það mikilvægasta af öllu: hvernig var erfiðisátið eða erfiðisdrykkjan, þar sem menn þurfa að tilkynna komu sína, en heilu veitingahúsin eru tekin undir slíkt? Þar þurfa menn að tilkynna komu sína til að vita sem næst heildarfjöldann sem mætir. Þar ytra fá menn sér gjarnan smá guðaveigar í leiðinni, þar sem Guð skapaði vínið en Djöfullinn brennivínið.

Þessu ætlaði Bjarni að lýsa fyrir mér þegar hann kæmi til baka, sem og öðru úr dauðadeildinni ytra.

Ekki gat orðið af því, þar sem hann varð allur áður en af því varð.

Við Bjarni höfum verið félagar í Bestubæjarlauginni frá því að elstu menn muna. Ég tilheyri Húnahópnum, sem hangir á húninum hálfsjö. Bjarni kom síðar í miðri viku, en ævinlega vorum við á sama tíma um helgarnar, þar sem þá er opnað síðar.

Félagar hans úr miðri vikunni sögðu við mig að hann hefði talað við þá um þessa beinu lýsingu sína, sem hann ætlaði að segja mér frá. Það hefði hálft í hvoru flýtt fyrir honum að kveðja þennan heim, þar sem hann hefði tekið þessa ósk mína svona alvarlega.

Hafi svo verið, þá munum við hittast hjá Drottni, þegar ég verð líka tilbúinn undir tréverk. Er ég búinn að panta viðtalstíma hjá Guði í hátt í hundrað milljón mínútur til að ræða þetta mál sem og annað í leiðinni.

Það er sviptir að Bjarna, þar sem hann var birtuberi mitt á meðal okkar. Sérstaklega að láta vatnið renna í vaskinum, og verða heitt áður en við fórum að nota það. Við Bjarni erum hvorugir með letilubba, og þurfum því að hafa vatnið verulega heitt, þegar við erum að skafa framan úr okkur. „Pétur, ég er búinn að láta vatnið renna, það er orðið heitt.“ Núna verð ég að sjá um þetta sjálfur alveg án hans hjálpar.

Pétur
Húnahópshirðir.

Nýlátinn er vinur minn Bjarni Felixson. Um hann skrifuðu margir góðar minningargreinar. Mig langar samt að bæta við smá grein um mál sem enginn nefndi en er einstakt að mínu mati.

Mér er í minni sem unglingur ferð á leik á Melavöllinn. Það var enginn smá leikur, KR gegn ÍA. Þá er komið að því sem vantaði í skrifin um Bjarna Fel.

Skagamenn voru bæði góðir og flottir með kassann úti. Nú er komið að því sem ég vil segja ykkur.

Senter Skagamanna geysist upp völlinn með knöttinn og stefnir á mark KR. Hann hlýtur að skora. Nei, ekki aldeilis. Allt í einu kemur lappalangur rauðhaus frá vinstri og rennir sér á knöttinn sem endar í blikkinu. Skagamaðurinn kútveltist, það verður allt snarvitlaust. Áhorfendur öskra: Út af með manninn! Dómarinn var sem betur fer með knattspyrnulögin á hreinu og dæmdi ekkert.

Þarna framkvæmdi Bjarni fullkomna skriðtæklingu á malarvelli sem enginn annar kunni. Taka knöttinn og svo manninn!

Takk fyrir vináttu þína Bjarni Fel.

Kveðja,

Theodór, leikmaður KR og þjálfari.