Kristín Ómarsdóttir
Kristín Ómarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskar skáldsögur verða í aðalhlutverki hjá Benedikt bókaútgáfu í haust en þó er einnig að vænta ljóðabókar, smásagnasafns, minningabókar og nokkurra þýðinga. Margir kvenhöfundar eru á listanum, sem ýmsir hafa verið áberandi síðustu ár en aðrir…

Íslenskar skáldsögur verða í aðalhlutverki hjá Benedikt bókaútgáfu í haust en þó er einnig að vænta ljóðabókar, smásagnasafns, minningabókar og nokkurra þýðinga. Margir kvenhöfundar eru á listanum, sem ýmsir hafa verið áberandi síðustu ár en aðrir stíga aftur á svið skáldskaparins eftir svolítinn tíma.

Útgáfa haustsins hófst á úrvali ljóða eftir Óskar Árna Óskarsson sem ber titilinn Vegamyndir. Um er að ræða systurbók Reykjavíkurmynda sem kom út árið 2018. Haukur Ingvarsson ritar formála. Þá er einnig komin út bókin Vordagar í Prag eftir Þorstein Jónsson kvikmyndagerðarmann. Útgefandi lýsir verkinu sem ævintýralegri minningabók en Þorsteinn var námsmaður við hinn virta FAMU-kvikmyndaskóla í vorinu í Prag.

Fyrst á lista fyrir þær skáldsögur sem Benedikt gefur út í ár er DUFT – Söfnuður fallega fólksins eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Síðasta skáldsaga Bergþóru, Svínshöfuð, kom út árið 2019 og vakti að sögn útgefanda verðskuldaða athygli. Þá sendir Friðgeir Einarsson frá sér skáldsöguna Serótónínendurupptökuhemlar. Friðgeir er nýtilnefndur til virtra evrópskra útvarpsverðlauna fyrir starf sitt með hópnum Kriðpleir. Skáldsögur hans Formaður húsfélagsins og Stórfiskur hafa komið út hjá Benedikt; auk tveggja smásagnasafna.

Vigdís Grímsdóttir snýr sér aftur að skáldsagnaskrifum með bókinni Ævintýrið þar sem segir frá vináttu og ævintýrum Drengs og Fisks. Frá Þórdísi Gísladóttur má vænta bókarinnar Aksturslag innfæddra sem hefur að geyma sjö smásögur „eftir höfund sem kölluð hefur verið skemmtilegasta skáld á Íslandi“, segir útgefandi.

Auður Ava Ólafsdóttir sendir frá sér skáldsöguna DJ Bambi en þar leggst hún í „rannsókn á kynjuðum heimi og hvað það þýðir að vera af tegundinni konu“. Þá er einnig væntanleg ný skáldsaga eftir Kristínu Ómarsdóttur sem ber titilinn Móðurást. Þar leitar höfundurinn, að sögn útgefanda, til fortíðar á nýstárlegan hátt.

Af íslenskum skáldverkum má að lokum nefna nýtt verk Sigríðar Hagalín Björnsdóttur sem nefnist DEUS. Mun þetta vera skáldsaga um málefni líðandi stundar. Ekki er um að ræða framhald Hamingju þessa heims sem þó er í bígerð.

Þónokkrar þýðingar eru væntanlegar á næstu mánuðum. Fyrst á þeim lista er verkið Bernska eftir danska skáldið Tove Ditlevsen í þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Verk Ditlevsen Gift kom út hjá forlaginu í fyrra. Einnig er væntanlegt verk eftir bandarísku skáldkonuna Lydiu Davis sem ber titilinn Mér líður ágætlega en mér gæti liðið betur. Berglind Erna Tryggvadóttir þýðir.

Benedikt heldur áfram með barnabókaflokk AF Steadman. Bók tvö í flokknum nefnist Skandar og draugaknapinn. Ingunn Snædal þýðir. Þá verður verk Neil Gaiman, Norrænar goðsagnir, í þýðingu Urðar Snædal endurútgefið en það hefur lengi verið uppselt hjá útgefanda. Gaiman verður gestur Iceland Noir í nóvember.
ragnheidurb@mbl.is