Verðlaun Vigdís Finnbogadóttir var viðstödd í hátíðarsal Háskóla Íslands þegar Ann Carson fékk afhent verðlaunin sem kennd eru við Vigdísi.
Verðlaun Vigdís Finnbogadóttir var viðstödd í hátíðarsal Háskóla Íslands þegar Ann Carson fékk afhent verðlaunin sem kennd eru við Vigdísi. — Morgunblaðið/Eggert
Anne Carson, sérfræðingur í klassískum fræðum, skáld og þýðandi, fékk í gær Vigdísarverðlaunin 2023. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu tungumála, menningar og þýðingastarfs

Anne Carson, sérfræðingur í klassískum fræðum, skáld og þýðandi, fékk í gær Vigdísarverðlaunin 2023. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu tungumála, menningar og þýðingastarfs.

Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar efndu til Vigdísarverðlauna í tilefni af stórafmæli Vigdísar Finnbogadóttur vorið 2020, en þá voru jafnframt liðin 40 ár frá forsetakjöri hennar.

Anne Carson fæddist í Kanada. Hún hefur lengst af starfað sem prófessor í klassískum fræðum og kennt grísku og klassískar grískar bókmenntir við háskóla vestan hafs, m.a. McGill-, Princeton- og New York-háskóla. Hún er einnig þekkt ljóðskáld, prósahöfundur og þýðandi og hefur þýtt sum af helstu verkum klassískra bókmennta á forngrísku og latínu. Í tilkynningu segir m.a. að hún sverji sig í ætt við heimsþekkta rithöfunda sem fangi samspil sköpunar og eyðingar í mannlegri tilvist og samfélagi með því að horfa til arfs klassískrar menningar.